Náðu í appið
Gagnrýni eftir:The Amityville Horror
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd fjallar um hjón með þrjú börn sem kaupa sér hús í litlu plássi á Long Island sem heitir Amityville. Fljótlega eftir að þau eru flutt inn kemur í ljós að það er ýmislegt misjafnt á seyði í húsinu og áður en varir ætlar allt af göflunum að ganga sökum draugagangs.Hér á ferðinni mynd sem er alls ekki fyrir viðkvæma eða fólk með veikt hjarta. Fjöldi atriða eru í þessari mynd þar sem eitthvað skyndilegt hrellir áhorfandann með tilheyrandi tónlist sem er til þess gerð að magna upp áhrifin og fá fólk til þess að æpa. Sem slík er myndin ansi æsileg en nær samt ekki að framkalla þann skelfilega drunga sem myndirnar The Shining og The Sixth Sense náðu svo ógnarvel. Leikararnir eru hvorki slæmir né góðir. Best er e.t.v. að segja að þeir séu alls ekki eftirminnilegir í hlutverkum sínum. Þar fyrir utan þá er handritið þannig að höfundur þess hefur ekki legið mjög lengi yfir því og er ekkert mjög hugmyndaríkur.Myndin fellur fyrir það að nota áður kunnugleg stef sem finna má í sams konar myndum eins og t.d. í The Sixth Sense þar sem lítill drengur fer á klósett að nóttu til. Þá má finna þarna stef úr fleiri myndum eins og Poltergeist og áðurnefndri The Shining. Þar fyrir utan er fátt eitt nýtt að finna í myndinni.Þá er í þessari mynd afskaplega lítil sagnfræði og frjálslega farið með staðreyndir. Þetta er ekki heimildarmynd um atburði sem áttu sér stað fyrir 30 árum. Hins vegar er hér á ferðinni verksmiðjuframleiðsla þar sem markmiðið er að sjóða saman nógu mikinn hrylling fyrir áhorfendur með stefjum sem finna má í öðrum myndum. Sem er ósköp skiljanlegt ef tekið er mið af því að upphaflega sagan er götótt með afbrigðum. Það hafa jafnvel verið áhöld um það hvort sú saga sé sönn eður ei, en það verður hver að meta fyrir sig.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Vanity Fair
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd fær mörg prik fyrir leikmynd og búninga. Þarna má bæði sjá fallega kjóla og flotta hermannabúninga. Allt á þetta að gerast á fyrri hluta 19. aldar. Reese Witherspoon leikur unga konu, sem tilheyrir efri stéttum samfélagsins í Brussell. Framvinda sögunnar er mjög hæg og líður vel áfram en samt er eins og það vanti einhvern neista í myndina. Hún umhverfist talsvert í kringum Witherspoon og það er á hennar valdi algerlega að gera þessa mynd áhugaverða og sjá til þess að áhorfandanum leiðist ekki. Henni tekst það næstum, sökum þess að hún er ekki að leika þetta neitt illa, auk þess sem hún er mjög sjarmerandi og stórglæsileg. En það er alveg á mörkunum að hægt sé að sitja yfir þessu. Handritið er bara alls ekki gott.Persónusköpun í myndinni er alveg skelfilega flöt og það vantar sárlega virkilegt illmenni eða þá verulega ástfangið fólk. Það eru eiginlega allt of margar sögupersónur í myndinni og það hefði verið betra að hafa þær færri og leyfa þeim svo að njóta sín betur með betri fléttu. Þetta á að vera einhvers konar drama en nær því samt ekki að vera klútamynd. Og það tekst ekki að skapa neina samúð með sögupersónum myndarinnar. Þannig er þetta eiginlega ekki nein sérstök dramamynd. Svo að eftir á séð er ég bara hreint ekki viss um í hvaða flokk skuli setja þessa mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei