Náðu í appið
Gagnrýni eftir:The Sixth Sense
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Sixth Sense er ekki alveg eins frábær og allir vilja halda. Ég játa það að margt í myndinni er vel gert og að sjálfsögðu kippist hver lifandi sála nokkuð við, en það er ekki eins og þetta hafi ekki verið gert áður. Ég er ekki að segja að ég dragi myndina niður fyrir ófrumleika, alls ekki. Gallar myndarinnar eru aðrir. Sem dæmi: Myndin byrjar á því að byggja upp nokkra spennu með því að láta drenginn verða fyrir árásum ýmissa drauga og því um líkt. Það heldur áfram í nokkurn tíma og síðan kemur hlé (ef þú sást myndina í bíó). Þá hefði maður haldið að nú myndi hryllingurinn fara virkilega af stað, en nei. Þá var myndin einfaldlega að verða búin og draugarnir voru bara góðir eftir allt saman. Myndin hefði getað orðið svo miklu betri ef hún hefði haldið áfram á sömu braut. En stærsti gallinn er þó handritið. Það er góð hugmynd og við fyrstu sýn virðist endirinn vera hin mesta snilld. En hugsum betur um það. Endirinn gefur í skyn að kvikmyndin hafi í raun verið að fjalla um Bruce Willis en ekki strákinn, eins og allir héldu framan af. En það er gallinn, myndin veit ekki alveg um hvað hún er að fjalla, það er engin megináhersla í kvikmyndinni og endirinn er aðeins flottur á yfirborðinu. Hann dregur einnig margt annað niður í myndinni. Þó fær myndin tvær og hálfa stjörnu fyrir fínt útlit og fínan leik hjá Osment og Collette (Willis er frekar stirður) Þó finnst mér fáránlegt að hún skuli hljóta Óskarsverðlaunatilnefningu sem besta mynd, og hvað þá fyrir leikstórn eða handrit. P.S. Af hverju tala allir draugar og óvættir á latínu (sbr. Event Horizon og Stigmata)?
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hilary and Jackie
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Hilary and Jackie fjallar, eins og flestir vita, um lífshlaup breska sellósnillingsins Jacqueline du Pré og samband hennar við systur sína Hilary. Emily Watson og Rachel Griffiths sýna báðar stórleik sem systurnar en Watson á þó til að minna nokkuð á Bess úr Breaking the Waves. Útlitslega séð er myndin fagmannlega unnin en þó lítið um frumlega drætti. Meginástæða þess að myndin fær aðeins tvær stjörnur er að hún er á köflum tilgerðarleg og greinilegt er að framleiðendur myndarinnar gerðu ekki ráð fyrir að áhorfendur hefðu hundsvit á þeirri tónlist sem flutt var í myndinni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Lethal Weapon 4
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þetta er eitt mesta rusl sem hefur komið frá Hollywood í langan tíma; verri en Armageddon! Það er ekki að finna frumlega nótu í allri myndinni og jafnvel þó að Jet Li geti talist nokkuð flottur, þá er það engin afsökun fyrir því að sóa peningum og tíma í svona mynd. Allt hefur þetta verið gert áður en nú er eins og öllum mistökum fyrri hasarmynda hafi verið safnað saman og útkoman verið Lethal Weapon 4.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei