Náðu í appið
Gagnrýni eftir:Shrek
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Enn einu sinni koma snillingarnir frá Dreamworks og PDI með gullmola. Fyrst kom Toy Story sem braut leiðina. Næst kom Antz og A Bug's Life. Þar næst Toy Story 2. Og nú kemur Shrek sem gæti verið sú flottasta og skemmtilegasta til þessa. (reyndar var það Disney sem gerði Toy Story, A Bug's Life og Toy Story 2). Myndin fjallar um tröllið Shrek (Mike Myers), frekar ómannblendinn þurs sem vill bara fá að vera í friði í sínu feni út af fyrir sig þar sem allir sem sjá hann skelfast hann. En svo vill til að hinn illi Lord Farquaad (John Lithgow) hefur útskúfað öllum öðrum kynjaverum úr ríki sínu, og safnast þær allar saman á blettinum hjá Shrek ásamt mjög kjaftaglöðum asna sem heitir einfaldlega Asni (Eddie Murphy í essinu sínu). Eins og gefur að skilja er Shrek frekar óhress með þetta og arkar af stað að hitta Farquaad. Hann bíður honum að bjarga hinni fögru prinsessu Fionu (Cameron Diaz) úr klóm dreka fyrir sig og hann mun fá blettinn sinn aftur. Þetta felst Shrek á og ásamt Asna legggur hann upp í för að bjarga prinsessunni. Meira segi ég nú ekki en ég get sagt það að þetta er einhver sú allra fyndnasta mynd sem þú munt sjá á árinu, lesandi góður, ef þú ferð á hana. Brandararnir beinlínis þjóta áfram á þvílíkum ógnarhraða að úr verður hreint ótrúlega fyndin og skemmtileg mynd sem bæði börn og fullorðnir eiga eftir að hafa gaman af. Og með jafn skemmtilegum karakterum og góðum línum fyrir leikarana að spila úr, þá er þetta með því betra sem þú getur tekið krakkana með á. Talsetningin er öll til fyrirmyndar (sérstaklega er Murphy fyndinn) en einnig er þessi mynd merkilega hlý og falleg þrátt fyrir stundum dálítið óvenjulegan húmorinn. Ég mæli með þessari mynd fyrir alla þá sem hafa gaman af að sjá góðar myndir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Gladiator
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Maximus (Russel Crowe) er sigursælasti herforingi Rómarveldis. Hann hefur unnið hvern sigurinn á fætur öðrum í Germaníu og er uppáhald hins dauðvona keisara, Marcus Aurelius (Richard Harris) sem finnst hann vera sonurinn sem hann vildi en aldrei eignaðist. Í hans stað eignaðist hann hinn spillta og grimma Commodus (Joaquin Phoenix) sem vill völd meira en nokkuð annað og bíður eingöngu eftir að faðir hans hrökkvi upp af. En þegar faðir hans segir honum að hann ætli að gera Maximus að arftaka sínum til þess að reysa við lýðræðið þá drepur Commodus hann og reynir því næst að drepa Maximus en hann sleppur. Hann flýr til síns heima en sér þá að Commodus hefur drepið konu hans og son einnig. Fullur af harmi og reiði leggst hann til svefns en er þá gripinn af þrælasölum sem drösla honum til Norður-Afríku þar sem að hann verður skylmingaþræll undir stjórn hins hörkulega en réttláta Proximo (Oliver Reed). Á meðan hefur keisarinn opnað aftur Colosseum fyrir leika sem að faðir hans hafði lagt af. Af því leiðir að skylmingaþrælarnir fara allir til Rómar til þess að berjast þar. Þetta gefur Maximus tækifæri til þess að jafna sakirnar við hinn illa keisara og koma á lýðræði í ríkinu að nýju. Ridley Scott virðist allur að lifna við eftir fremur dapran áratug. Að minnsta kosti virðist þessi mynd bera þess greinileg merki og bíð ég spenntur eftir að sjá Hannibal þegar hún kemur. Stór og mikil epík sem gerast í hinni fornu Róm hafa ekki beinlínis verið í tísku að undanförnu en þessi mynd mynnir mann að sumu leyti á gullaldarár Hollywood þegar hver risamyndin rak aðra. Það kemur kannski ekki neitt nýtt hérna fram (gamla hefndartuggan) en Scott leikstýrir myndinni vel og fagmannlega og af miklu öryggi svo að út kemur hin fínasta skemmtun. Handrit David H. Franzoni, John Logan og William Nicholson reynir að dýpka ástæður persónanna og gera þær mannlegri allar en einnig að halda uppi mikilli spennu. Tekst þeim körlum betur til í hinu síðarnefnda. Í Colosseum (ótrúlega flott sviðsmynd af Róm og Colosseum bara svona til þess að minnast á það) eru mörg skylmingaratriðin og fleira tengt því alveg ótrúlega flott og vel gerð og eru þau atriði bestu atriði myndarinnar, spennuþrungin og skemmtileg. Hins vegar eru sumar persónurnar flæktar óþarflega mikið þá sérstaklega hinn illi keisari. Það er stöðugt verið að reyna að sálgreina ástæður hans sem er metnaðarfullt en tekst ekki upp sem skildi hér. Kvikmyndataka John Mathiesons er frábær og tónlist Hans Zimmers smellpassar við myndina. Leikurinn er misjafn en í flestum tilfellum mjög góður. Russel Crowe er firnasterkur eins og venjulega sem hinn hefndarfulli hershöfðingi og skilar hann sínu af miklum krafti. Joaquin Phoenix er ágætis leikari en þjáist hér af því hve persóna hans er óskýr. Connie Nielsen kemur einnig illa út sem Lucilla, systir keisarans sem hjálpar Maximusi. Bresku stórleikararnir standa sig náttúrulega eins og þeirra er von og vísa. Derek Jacobi er skemmtilega kaldhæðnislegur sem lýðræðissinnaður þingmaður. Richard Harris er mjög góður og vekur mann til samúðar með hinum milda keisara sínum. En bestur er samt Oliver Reed sem Proximo. Hann fer á kostum í sínu síðasta hlutverki og er leitt að sjá á eftir þessum afbragðsgóða leikara. Semsagt: Þessi mynd er hin fínasta skemmtun frá upphafi til enda og verður gaman að sjá meira frá Ridley Scott á næstunni af því að það má vera að maðurinn sem gerði hinar frábæru myndir Alien, Blade Runner og Thelma & Luise sé aftur kominn í stuð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Any Given Sunday
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Any Given Sunday fjallar um ameríska fótboltann eða "rúgbíinn" eins og hann er stundum kallaður. Myndin segir frá þjálfara liðs Miami Sharks Tony D'Amato (Al Pacino) sem finnur það vel á sér að tími hans er að renna út. Liðinu hans hefur gengið afleitlega í ár og er hann stöðugt með hinn nýja eiganda liðsins, frænku sína Christinu Pagniacci (Cameron Diaz) á bakinu á sér. Fyrirliði liðsins, Jack "Cap" Rooney (Dennis Quaid) hefur meiðst illa og ekki er víst hvort að hann spili meira með þeim. Tony ákveður að láta reyna á hinn unga, óreynda og stressaða Willie Beamen (Jamie Foxx) og sýnir hann afbragðstakta. Tony líkar samt ekki við hann þar sem að hann vill gera allt eftir sínu eigin höfði og verður yfirgengilega sjálfumglaður og montinn eftir að hann er orðinn frægur og aðrir góðir leikmenn liðsins t.d. Julian Washington (LL Cool J). Spurningin er: Tekst Tony að halda liðinu saman svo að þeir eigi einhverja sigurmöguleika. Oliver Stone er greinilega hrifinn af ameríska fótboltanum, það er alveg greinilegt í allri umgjörð myndarinnar og sögu. Það sem hann er að gagnrýna hérna er öll þessi auglýsingamenning í kringum íþróttina eftir að sjónvarpið kom til sögunnar og alla spillinguna og sukkið sem ríkir þarna hjá eigendum, þjálfurum og leikmönnum. En miðað við að þetta er maðurinn sem gerði þrusumyndirnar Platoon og Born on the Fourth of July t.d. þá er ádeilan óvenju veik hér eða ekki komið nógu vel til skila. Þess saknar maður dátlítið. Það sem uppi stendur er sennilega ein af betri íþróttamyndum sem maður hefur séð miðað við hversu gömul og tuggin klisja þannig myndir eru. Myndin er að sumu leyti nokkuð sambærileg við aðra mynd Stones, Natural Born Killers í ádeilu sinni á sviðsljósið og myndatakan í þeim báðum er ansi skrautleg. En þessi mynd er engin Natural Born Killers, því miður. Það sem einna helst heldur þessari mynd Stones frá floti er vel mannað leikaraval. Fremstur í flokki fer þar Al Pacino sem Tony, miðaldra maður sem lífið er í rúst hjá fyrir utan fótboltann sem hann lifir fyrir. Al Pacino, sem er örugglega einn allra besti leikari sem til er í heiminum í dag, skilar sínu hlutverki af miklu fagmannlegu öryggi og senurnar á milli hans og Jamie Foxx eru þær bestu í myndinni. Foxx sem ég hef ekki heyrt um hingað til sýnir mjög góða takta sem nýliðinn Willie sem sýnist vera kaldur og sjálfsöruggur á yfirborðinu en hefur í rauninni voðalega lítið sjálfstraust. Dennis Quaid kemur einnig vel út sem gamla fyrirliðskempan sem er farinn að efast um áframhaldandi hæfileika sína. Leiðinlegt er að bæði hinn þrumugóði leikari James Woods og LL Cool J sem hefur sýnt hreint ágætan leik hingað til eru báðir illa vannýttir. Eins er farið með marga góða aukaleikara svo sem Ann-Margret og Matthew Modine auk þess sem Cameron Diaz kemur ekki nógu vel út úr þessu og virðist aldrei almennilega finna sig í myndinni. Auk þess er myndin einum of löng en Stone heldur samt uppi það miklum hraða og spennu að maður finnur ekki svo fyrir því og myndin er aldrei leiðinleg. Þetta er ágætis íþróttamynd en ekki fara á hana með því hugarfari að sjá Stone í rosalegum og skemmtilega gamalkunnum ádeiluham. Þið munið verða fyrir vonbrigðum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Fíaskó
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Fíaskó fjallar um líf þrggja kynslóða í Reykjavík og erfiðleika þeirra við að finna ástina. Þetta fólk tengist allt innbyrðis án þess að vita af þvi. Afinn, Karl Bardal (Róbert Arnfinnsson) verður ástfanginn af fyrrverandi kvikmyndastjörnu (Kristbjörg Kjeld) sem er orðin rugluð af Alzheimer og vill ekkert með peningalausan Íslending hafa. Barnabarnið Júlía (Silja Hauksdóttir) er með tvo menn í takinu á sama tíma, hinn viðkvæma og blíðlynda bankastjóra Gulla (Ólafur Darri Ólafsson) og hinn villta og óáreiðanlega sjómann Hilmar (Björn Jörundur Friðbjörnsson). Það sem verra er er að hún er ófrísk og veit ekki hvor á barnið. Mamman Steingerður (Margrét Ákadóttir) hrífst af falsprestinum Salómon (Eggert Þorleifsson) sem er í rauninni drykkjumaður og pervert og nýtir sér söfnuðinn til þess að lifa í vellystingum. Allir þessir einstaklingar eiga eftir að gera upp sín mál og allt stefnir í eitt allsherjar fíaskó. Skrambi erum farin að gera góðar bíómyndir. Með Fíaskó er íslenska kvikmyndavorinu endanlega lokið. Það er komið sumar. Nýliðinn Ragnar Bragason er að gera alveg nýja hluti í íslenskri kvikmyndagerð. Hann er að gera mynd um venjulegt fólk og ástarvandræði þeirra. Hér eru engar yfirborðskenndar glæpamannatýpur eins og er eiginlega alltaf í íslenskum myndum. Hins vegar er þetta alvöru fólk með alvöru tilfinningar og allt er það í þrívídd. Maður hefur svo sem séð svona áður en það er geysilega vel gert hérna. Og ekki skemmir lengdin fyrir. Aðeins 90 mínútur. Allir leikararnir eru frábærir. Gömlu fagmennirnir Róbert Arnfinnsson og Kristbjörg Kjeld bregðast ekki. Sérstaklega er gaman að fylgjast með stórleik Róberts. Silja Hauksdóttir sýnir hér að hún hefur dýpt sem leikkona og getur vel leikið drama. Hún er mjög fín. Ólafur Darri og Björn Jörundur eru báðir frábærir. Þeir túlka mjög ólíka einstaklinga og fara báðir mjög vel með þá. Margrét Ákadóttir er skínandi góð og Eggert Þorleifsson fer á kostum sem falspresturinn og pervertinn sem verður samt einhvern veginn óttalega brjóstumkennanlegur. Það eiga allir að sjá þessa mynd bara þess vegna til þess að sjá íslenska kvikmyndavorinu ljúka. Af því að ég held að því ljúki núna endanlega með þessu meistaraverki Ragnars Bragasonar. Besta íslenska myndin í ár.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Hurricane
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd fjallar um boxarann Rubin "Hurricane" Carter (Denzel Washington) og baráttu hans við að vera sýknaður af glæp sem hann átti engan þátt í og fyrir að hafa verið á röngum stað á röngum tíma þá hefur hann mátt dúsa inni í 20 ár. Rubin hafði aldrei átt auðvelda ævi. Hann fæddist í sárafátækt og framdi morð þegar hann var 12 ára gamall. Sá sem hann myrti var öfuguggi sem ætlaði að fara að drepa hann. En hver fer að trúa svertingja sem hefur myrt hvítan mann. Það gerir að minnsta kosti ekki löggan Vincent Della Pesca (Dan Hedaya) sem er algjör drullusokkur og kynþáttahatari og sér til þess að Rubin muni aldrei nokkurn tímann eiga góða ævi. Eftir 19 ár (eða eitthvað svoleiðis) strýkur Rubin af unglingabetrunarhælinu og fer í herinn. Þegar hann kemur aftur heim nær Della Pesca honum strax aftur og hann fer í fangelsi. Upp frá því ákveður Rubin að breyta líkama sínum í vopn og myrða hvern þann sem reynir að koma honum aftur i fangelsi. Hann byrjar í hnefaleikum og gengur ótrúlega vel og er nærri því kominn með heimsmeistaratitilinn þegar hann er tekinn aftur og varpað i fangelsi til lífstíðar af því að hann var á röngum stað á röngum tíma. Við spólum 20 ár fram í tímann. Lesra Martin (Vicellous Reon Shannon) er ungur svertingi sem kemur úr svipuðu umhverfi og Rubin. Hann er staðráðinn í að fara í háskóla með hjálp frá þremur Kanadabúum, Lisu (Deborah Unger), Sam (Liev Schreiber) og Terry (John Hannah) sem reka sjálfstæða kennslu fyrir þá sem þurfa þess með. Dag einn rekst Lesra á bókina sem Rubin hefur smyglað út úr fangelsinu. Hann verður svo hugfanginn af bókinni að hann ákveður að koma Rubin út úr fangelsinu. En það er annað en auðvelt miðað við alla kynþáttafordómana í samfélaginu. Myndin sjálf er þriggja stjörnu mynd en Denzel Washington bætir hálfri stjörnu í viðbót við það. Hann hefur ekki verið svona öflugur í háa herrans tíð og sýnir frábæran og öflugan leik sem Rubin Carter, maður sem hefur mátt þola hreint ótrúlegt ranglæti í gegnum tíðina. Það er engin spurning að Washington er vel að Óskarsverðlaunatilnefningunni kominn. Allir aðrir leikarar eru mjög góðir og Rod Steiger á ískrandi kaldhæðna rullu undir lokin sem dómarinn í réttinum. Norman Jewison hefur aðallega sýnt það í gegnum tíðina að hann er góður sögumaður þótt að myndin sjálf sé kannski ekki að sýna neina nýja hluti en maður fyrirgefur henni það af því að hún er afar vel gerð. Þetta er samt afar vel gerð mynd og vönduð í alla staði en þrátt fyrir allt það á Denzel Washington þessa mynd og stendur hann algjörlega upp yfir allt þarna og verður gaman að sjá hvort hann vinnur á Óskarnum í lok mars.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Being John Malkovich
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það er alltaf gaman að sjá nýja og hæfileikaríka leikstjóra senda frá sér frábærar myndir og fá viðurkenningu fyrir það. Skemmst er að minnast frumraun Sam Mendesar sem er meistaraverkið American Beauty. Nú fáum við að sjá frumraun Spike Jonze sem leikstjóra, myndina Being John Malkovitch. Myndin segir frá leikbrúðustjórnandanum Craig Schwartz (John Cusack) og konu hans Lotte (Cameron Diaz). Hann er mjög góður í sínu starfi en hann gerir háalvarleg leikrit sem eru eingöngu fyrir fullorðna og nýtur þess vegna ekki mikilla vinsælda. Hún á gæludýrabúð og húsið þeirra er yfirfullt af gæludýrum, t.d. eiga þau taugaveiklaðan simpansa. Til að bjarga fjárráðunum ræður Craig sig sem skjalavörð á 7 12 hæð í stórri skrifstofubyggingu. Þar hittir hann Maxine (Catherine Keener) og fellur umsvifalaust fyrir henni en hún að sama skapi ekki fyrir honum. Einn daginn finnur hann litlar dyr í geymslunni. Hann fer inn um þær og er þá allt í einu kominn inn í hausinn á John Malkovitch. Hann getur verið þar í 15 mínútur en lendir síðan hjá New Jersey þjóðveginum eftir það. Hann segir öllum frá þessu og hann og Maxine ákveða að stofna fyrirtæki þar sem fólk borgar 200 dollara fyrir að fá að vera John Malkovitch í kortér. Á sama tíma verður Lotte heltekin af þessu eftir að hafa prófað þetta og sekkur alltaf dýpra og dýpra inn í þá þráhyggju. Þar sem að Craig er leikbrúðustjórnandi uppgötvar hann bráðlega að hann getur meira og meira stjórnað Malkovitch og getur verið hann í lengri og lengri tíma. En spurningin er: Er þetta siðferðislega rétt og hvað hefur Malkovitch sjálfur um þetta að segja? Þetta er sennilega skrítnasta mynd sem ég hef séð. Ég vissi að hún væri ekki venjuleg en hún er milljón sinnum skrítnari en ég hélt að hún væri. Hún er einnig ein frumlegasta mynd sem ég hef nokkurn tímann séð. Það er ekki eitt einasta atriði í myndinni sem er ekki nýtt og hún kemur manni stöðugt á óvart. Auk þess er hún alveg drepfyndin á köflum. Maður er dreginn alveg gjörsamlega inn í þessa mynd með leikstjórn Jonze og frábæru handriti Charlie Kaufmans og manni sjálfum finnst í alvörunni að maður sé inn í hausnum á grey Malkovitch. Kvikmyndatakan er sérlega flott og skemmtileg hjá Lance Acord og tónlist hins firna góða Carter Burwells fellur einstaklega vel að myndinni. Leikararnir eru ekki af verri endanum. John Cusack er mjög fínn sem leikbrúðusmiðurinn sem fær hér loksins tækifæri til þess að uppfylla alla drauma sína. Að stjórna manneskju. Cameron Diaz er frábær sem konan hans og skemmtilega ólík sjálfri sér. Þetta hæfileikaríka superbabe er núna allt í einu orðin mjög venjuleg kona með sitt grábrúna og hrokkna hár. Catherine Keener er síðan mjög fyndin sem hin kaldlynda bisnessmanneskja sem hugsar eingöngu um að græða á þessu öllu saman. Samt skil ég ekki alveg Óskarsverðlaunatilnefninguna. Þá hefðu þeir allt eins getað valið Cameron Diaz sem mér finnst eiginlega betri. Síðast en ekki síst fer John Malkovitch á kostum þar sem hann leikur sjálfan sig og mér finnst frábært hjá honum að hafa gert það af því að hann er í leiðinni að gera grín að sjálfum sér og allri stjörnuímyndinni. Ef þið viljið sjá eitthvað alveg glænýtt sem hefur örugglega aldrei verið gert áður þá skuluð þið fara á Being John Malkovitch. Svona myndir eru alltaf góð týðindi frá hinni stöðnuðu peningamaskínu Hollywood.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Sleepy Hollow
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Snillingurinn Tim Burton er kominn aftur á hvíta tjaldið og hefur aldrei verið dekkri! Hér segir hann frá lögreglumanninum Ichabod Crane (Johnny Depp) sem ferðast til krummaskuðsins Sleepy Hollow á Nýja-Englandi árið 1799 til þess að rannsaka dularfull dauðsföll þar. Í öllum tilvikunum hefur höfuð fórnarlambanna verið sneitt af búknum. Þegar Ichabod kemur til Sleepy Hollow segja guðhræddir og hjátrúarfullir heimamennirnir honum að hauslausi hestamaðurinn hafi framið morðin en hann var gífurlega öflugur stríðsmaður sendur til þess að bæla niður uppreisnina gegn Englendingum á sínum tíma. Ichabod trúir á vísindi og skynsemi og trúir þess vegna ekki einu orði af því sem heimamenn segja honum. En fljótt fara að renna á hann tvær grímur þegar hann hefur séð hauslausa hestamanninn í eigin persónu auk þess sem að allir í þorpinu virðast vera að fela eitthvert skelfilegt leyndarmál. Til þess að flækja enn málin fyrir Ichabod verður hann ástfanginn af dóttur þorpshöfðingjans, Katrinu Von Tassel (Christina Ricci). Tim Burton er einn af mínum uppáhaldsleikstjórum. Aðallega út af því að hann er einhver hugmyndaríkasti og frumlegasti leikstjóri í heiminum. Honum bregst ekki bogalistin hérna þótt hann sé kannski ekki beint að gera neitt meistaraverk. Hins vegar er hann að bjóða áhorfendum upp á frábæra skemmtun frá upphafi til enda. Hann hefur reyndar aldrei verið dekkri og er oft farinn út í hreina hryllingsmynd en setur samt alltaf sinn einstaka kolsvarta húmor inn í hlutina. Til dæmis er persóna Ichabods skemmtilega skrítin. Hann getur krufið nokkurra vikna lík en er skíthræddur við kóngulær. Johnny Depp er réttur maður í hlutverkið. Hann gerir Ichabod að skrítnum og fyndnum karakteri en setur einnig töluverða dýpt í hann þegar með þarf. Aðrir leikarar í myndinni eru meira til áfyllingar. Reyndar finnst mér stundum í myndinni að góðir leikarar séu vannýttir þar á meðal aragrúi af breskum gæðaleikurum. En maður fyrirgefur Burton það af því að hann lætur myndina ganga hratt og örugglega fyrir sig. Handrit myndarinnar er eftir Andrew Kevin Walker svo að maður skilur kannski af hverju þetta er dekksta mynd Burtons frá upphafi. Tónlist snillingsins Dannys Elfmans er frábær sem endranær og kvikmyndatakan er stórgóð. Allt útlit myndarinnar er frábært og er hún sannkölluð veisla fyrir augað. Þessi mynd ristir kannski ekki djúpt en er samt sem áður pottþétt skemmtun frá upphafi til enda.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dogma
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Bartleby (Ben Affleck) og Loki (Matt Damon) eru tveir fallnir englar sem hefur verið sparkað út úr himnaríki um alla eilífð fyrir að vilja ekki hlýða skipun Guðs. Það sem verra er: Þeim var hent niður í Wisconsin. Þar hafa þeir hangið alveg frá tímum Móses. En einn daginn koma þeir auga á það að kardínáli einn (George Carlin) hefur ákveðið að hressa aðeins upp á ímynd kaþólsku kirkjunnar með því að gera Jesús Krist að Buddy Jesus. Hann hefur einnig bætt við að allir þeir sem gangi í gegnum dyr kirkjunnar muni fá syndaaflausn. Þetta ætla þeir Bartleby og Loki sér að nýta af því að ef þeir fá syndaaflausn þá munu þeir komast aftur inn í Himnaríki. Annars staðar í Bandaríkjunum heimsækir engill að nafni Metatron (Alan Rickman) trúlausa konu að nafni Bethany (Linda Fiorentino) og segir henni að hún hafi verið útvalin af Guði til þess að stoppa englana tvo. Með sér í lið muni hún fá tvo spámenn (getiði hverjir) og skömmu síðar bætist við Rufus hinn þrettándi lærisveinn Jesúsar (Chris Rock) sem vantaði nú víst í Nýja testamentið af því að hann er svertingi að hans sögn. Einnig bætist inn í þennan hóp skáldagyðjan Serendipity (Salma Hayek) og saman verða þau nú að reyna að stoppa föllnu englana áður en þeir ná að eyða út allri tilveru alls af því að ef þeir komast inn í himnaríki þá er vilji Guðs ógildur og allt mun þurrkast út. Hinn frábæri Kevin Smith er kominn aftur og í hreint ótrúlega góðum gír. Hann fer hér nokkuð ótroðnar slóðir en útkoman er feikilega frumleg og skemmtileg mynd sem er stútfull af ferskum og nýjum hugmyndum og mjög, mjög fyndin einnig. Smith hæðist hér dálítið að Kaþólikkum og kaþólskri trú en sýnir henni um leið mikla virðingu. Þess vegna skil ég ekki þessi mótmæli í Bandaríkjunum út af myndinni en það má að sjálfsögðu ekki segja eða gera neitt óvenjulegt á þeim bæ. Myndin tekur kaþólska trú mjög bókstaflega og englarnir eru mikið klikkaðri og taka sig mun minna alvarlega en mannfólkið. Smith hefði náttúrulega ekki tekist svona vel upp hefði hann ekki haft toppleikara sér til halds og trausts. Matt Damon og Ben Affleck eru sem klæðskerasniðnir inn í þessi hlutverk og reynir þá kannski ekki alltof mikið á þá. En það reynir hins vegar mun meira á Lindu Fiorentino sem hin ráðvillta Bethany mitt í öllu þessu englastússi. Hún sýnir besta leikinn af öllum og finnst mér með öllu óskiljanlegt af hverju þessi afbragðs fína leikkona fær ekki fleiri betri verkefni en raun ber vitni. Jay og Silent Bob eru náttúrulega fyrir löngu orðnir klassískir og þarf ekki að fara fleiri orðum um þá. Af aukaleikurum eru Alan Rickman sem hinn ískrandi kaldhæðni yfirengill og Chris Rock sem hinn kjaftfori óþekkti lærisveinn bestir og þeirra þeir sprenghlægileg augnablik. Það eina sem ég hef að kvarta yfir er að mér finnst myndin full ofbeldisfull á köflum sem er óþarfi. Fyrir alla áhugamenn um Kevin Smith eða trúmál eða bara góðar bíómyndir mæli ég hiklaust með Dogma. Smith tekst aftur að hitta beint í mark með einni frumlegustu, hugmyndaríkustu og fyndnustu mynd þessa árs.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Green Mile
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

The Green Mile fjallar um yfirfangavörðinn Paul Edgecomb (Tom Hanks) og sumarið þegar John Coffey (Michael Clarke Duncan) kom á dauðadeildina þar sem hann var yfirmaður. Dauðadeildin þar var kölluð græna mílan þar sem að gólfið var grænt og það er sagt að fangarnir gangi hinstu míluna þegar þeir fara í rafmagnsstólinn. John Coffey sem er risavaxinn svertingi hefur verið dæmdur til dauða fyrir að nauðga og myrða tvær barnungar stúlkur. Samt er maðurinn einfaldur, blíður og hrekklaus og ekki virðist finnast ein arða af ofbeldishneigð í honum. Þetta veldur Paul og samstarfsmönnum hans töluverðum heilabrotum. Paul er illa haldinn af blöðrubólgu og einn daginn þegar hann er hvað verstur hrifsar John allt í einu í hann og beitir einhvers konar yfirnáttúrulegum kröftum til þess að lækna hann. Þetta fær Paul til þess að hugsa hvort að yfirvöld hafi kannski handsamað rangan mann. Hann reynir að bjarga John en það virðist duga lítið og einungis fáeinir dagar eru þangað til að hann verður tekinn af lífi. Þetta er önnur mynd Franks Darabonts og aftur gerir hann fangelsisdrama upp úr skáldsögum Stephens Kings. Ferst honum það jafn vel úr hendi eins og með The Shawshank Redemption og býr hann til annað meistaraverk. Þetta er ein af þessum óaðfinnanlegu myndum sem hefur verið alveg ótrúlega mikið af á þessu ári. Leikstjórnin með því besta sem verður á kosið, handritið mjög hlýtt og mannlegt en kemur einnig stöðugt á óvart, kvikmyndatakan með miklum ágætum og tónlist Thomas Newmans (samdi einnig tónlistina fyrir American Beauty) gullfalleg. Síðast en ekki síst er það leikurinn. Tom Hanks er frábær eins og ævinlega og merkilegt að sjá hvernig karakterinn hans getur réttlætt starf sitt sem er vægast sagt hræðilegt. David Morse er mjög fínn sem annar vörður og vinur Pauls. Þessi vanmetni leikari fær hér að sýna hvað í sér býr. Doug Hutchison leikur skemmtilega hinn fullkomna drullusokk og fant Percy sem er óttalegur aumingi þegar til kastanna kemur. Einn af þeim náungum sem maður elskar að hata. James Cromwell er traustur að vanda sem fangelsisstjórinn, Michael Jeter er virkilega góður sem dauðadæmdur fangi sem er samt ekki vondur maður og iðrast greinilega þess sem hann gerði. Síðan verð ég að minnast á Harry Dean Stanton sem er sprenghlægilegur í lítilli rullu. En bestur af öllum er samt sem áður Michael Clarke Duncan þótt að Michael Jeter komist einna næst honum. Hann er í rauninni þungamiðja myndarinnar og sýnir allan þann mannkærleik sem getur verið til staðar og það á jafn ólíklegum stað og dauðadeildinni. Hann ó Óskarsverðlaunatilnefninguna vel tilskilda. Ég ráðlegg öllum að fara í bíó og sjá þessa mögnuðu mynd. Frank Darabont er einn af fáum snillingum í Hollywood þessa dagana og ég ætla svo sannarlega að sjá það sem hann gerir næst.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Magnolia
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég næ varla að lýsa hrifningu minni á þessari mynd með nógu stórum orðum en ég skal reyna. Myndin fjallar um nokkra ákveðna einstaklinga og spannar myndin u.þ.b. 3 daga í lífi þeirra allra, daga sem munu breyta miklu fyrir þetta fólk. Allt á það sinn djöful að draga, misjafnlega vondan, og einnig á það allt sameiginlegt að þurfa að gera upp fortíð sína. Frank T.J. Mackey (Tom Cruise) heldur nauðaómerkileg karlrembunámskeið fyrir aumingja sem geta ekki náð sér í stelpur. Við fyrstu sín virðist hann vera drullusokkur en atferli hans má skýra á mjög sársaukafullri fortíð hans þar sem við sögu kemur þá sérstaklega faðir hans (Jason Robards) sem er að deyja úr krabbameini og segir hjúkrunarmanninum sínum (Philip Seymour Hoffman) að hans hinsta ósk sé að sjá son sinn. Kona gamla mannsins, Linda (Julianne Moore) er talsvert yngri en hann og þjáist af samviskubiti yfir hlutum sem ég ætla ekki að segja hér frá. Önnur saga er um hinn vinsæla þáttastjóra Jimmy Gator (Philip Baker Hall) sem hefur í yfir 30 ár stjórnað spurningaþætti þar sem einstaklega gáfaðir krakkar eru látnir spreyta sig. En hann er að deyja og þarf að gera upp myrka fortíð sína einnig. Í sennilega hans síðasta þátt kemur undrabarn að nafni Stanley Spector (Jeremy Blackman) sem er ýtt áfram af peningagræðgi föður síns. Jimmy reynir einnig að sættast við dóttur sína Claudiu (Melora Walters) sem er kókaínfíkill en kannski ekki eins rugluð og hún sýnist vera. Inn í hennar líf kemur síðan hinn trúaði lögreglumaður Jim Kurring (John C. Reilly) sem er hrifinn af henni en veit ekki að hún er kókaínfíkill. Með þætti Jimmys fylgist síðan Donnie Smith (William H. Macy) sem er bitur út í lífið og tilveruna eftir að frægðin hafði farið geysilega illa með hann. Er hann nú fullkominn aumingi sem heldur samt ennþá að hann geti gert hlutina rétt. Líf allra þessara einstaklinga á eftir að breytast svo um munar á næstu 3 sólarhringum. Ásamt American Beauty þá held ég að engin mynd gerð árið 1999 hafi snert mig jafn djúpt. Þetta er ein af þessum myndum þar sem hver einasta sena hefur einhverja merkingu, hver einasta persóna í myndinni er flókin og er ekki verið að reyna að einfalda hana og hennar vandamál. Paul Thomas Anderson hefur bæði sem leikstjóra og handritshöfundi tekist að skapa allgjört snilldarverk sem mun vonandi verða að klassískri mynd þegar fram líða stundir. Þetta er ein af þessum myndum þar sem er hvergi að finna veikan punkt, hvorki í útliti, handriti, leikstjórn, kvikmyndatöku, tónlist eða leik. Varðandi leikinn þá standa allir leikarar sig frábærlega. Ég skildi í fyrstu ekki almennilega af hverju Tom Cruise hefur verið tilnefndur í ár fyrir besta leik í aukahlutverki karla fyrir þessa mynd en hann vinnur rosalega á þegar rulla hans verður dramatískari og sýnir hann stórleik. Jason Robards er mjög góður sem faðir hans. Philip Baker Hall er frábær í hlutverki hins kvalda þáttasjórnanda, William H. Macy er sérlega góður sem hinn bitri fyrrverandi snillingur, Julianne Moore er stórfín sem hin þjáða eiginkona gamla mannsins, John C. Reilly er mjög góður sem hin tilfinningalega bælda lögga og Melora Walters er stórfengleg sem kókaínfíkillinn. Til að gera langa sögu stutta þá eru einfaldlega allir leikararnir frábærir. Ók, bara svona til þess að ljúka máli mínu þá skipa ég öllum að sjá þessa mynd, þið bara verðið að gera það, svo einfalt er það. Punktur!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Talented Mr. Ripley
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Tom Ripley (Matt Damon) er ungur maður sem vinnur fyrir sér sem píanóleikari. Dag einn fær hann atvinnutilboð frá ríkum skipaeiganda Herbert Greenleaf (James Rebhorn) um að finna son hans Dickie (Jude Law) og fá hann til þess að koma til New York og annast reksturinn hjá karlinum. Tom ákveður að taka boðinu og fær hann far til Ítalíu þar sem Dickie lifir góðu lífi ásamt unnustu sinni Marge Sherwood (Gwyneth Paltrow) og hefur ekkert í hyggju að koma aftur heim. Tom ákveður að segja honum að þeir séu gamlir skólafélagar og þeir verða ágætir vinir. Dickie veit samt af hverju hann var sendur og hver senti hann. Í gegnum Dickie kemst Tom í færi við allt það sem hið suðræna skemmtanalíf hefur upp á að bjóða og einnig kynnist hann hinum furðulegustu karakterum eins og Freddie Miles (Philip Seymour Hoffman). Tom fer að líka þetta líf svo vel að hann er ekkert á þeim buxunum að snúa aftur til baka og spurningin er: Hversu langt er hann tilbúinn að ganga til þess að hann geti haldið áfram þessum skemmtilega lífsstíl. Besta orðið sem ég fann yfir þessa mynd eftir að ég kom út af henni er skrítin. Handritið er ansi flókið og margslungið og stundum getur það orðið svo að maður einfaldlega villist í öllu þessu leynimakki. En myndin er einnig spennandi, vel leikin og afar vel gerð. Anthony Minghella bæði skrifar og leikstýrir þessu verki og verð ég að segja eins og er að honum tókst betur upp í leikstjórninni heldur en skrifunum. Þótt að handritið sé mjög flott og vel gert í marga staði þá er það einnig óþarflega flókið og á sumum köflum í myndinni missir maður einfaldlega áhugann á því. En leikstjórnin er traust sem klettur, því verður ekki neitað. Auk þess er myndin alltof, alltof löng og fer hún að draga ansi mikið fæturna á undan sér í seinni helmingi myndarinnar. Það leiðir af sér að myndin er töluvert kaflaskipt og er fyrri helmingur myndarinnar töluvert líflegri og skemmtilegri. Leikararnir hjálpa mjög mikið upp á og standa þeir sig allir með miklum ágætum. Matt Damon sýnir frábæran leik sem hinn margslungni herra Ripley sem er svo sannarlega ekki allur þar sem hann er séður. Gwyneth Paltrow er fín sem hin lífsglaða unnusta Dickies en hún stendur óneitanlega í skugganum af Matt Damon og Jude Law sem sýnir líka alveg frábæran leik sem Dickie og saknar maður hans mikið í síðari hluta myndarinnar. Philip Seymour Hoffman stendur sig síðan með prýði í hlutverki hins litskrúðuga vinar Dickies. Þessir þrír menn eiga allir framtíðina fyrir sér í leiklistinni. Þetta er ágætis spennudrama með fínum leik og óaðfinnanlegu umhverfi og umgjörð en hefði mátt vera sett fram á skýrari og ekki eins þungmeltan máta.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Insider
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Árið 1995 gerði Michael Mann frábæra mynd sem kallaðist Heat með tveimur fremstu leikurum heims, þeim Al Pacino og Robert De Niro þar sem Pacino var lögga og De Niro var þjófur og var sú mynd um sálræna baráttu þessara tveggja manna við hvorn annan. The Insider er jafnvel betri og er hún frábær ádeila á tóbaksiðnaðinn og ábyrgðarlausa fréttaumfjöllun. Jeffrey Wigand (Russell Crowe) er háttsettur maður innan tóbaksiðnaðarins. Hann heldur að hann geti látið gott af sér leiða en þegar hann gerir athugasemdir við notkun á ákveðnu efni í tóbakinu er hann umsvifalaust rekinn og hótað öllu illu (þar með talið morði) ef að hann segir einhverjum eitthvað. Hann hefur samband við hinn róttæka fjölmiðlamann Lowell Bergman (Al Pacino) og samstarfsmenn hans á 60 mínútum Mike Wallace (Christopher Plummer) og Dan Hewitt (Philip Baker Hall). Þeir byrja þegar að kafa ofan í málið en á meðan er Jeffrey kærður fyrir samningsrof. Það er allt tekið frá honum, þar með talin sjúkratryggingin fyrir dóttur hans sem er astmasjúklingur. Á sama tíma hyggst hið illræmda tóbaksfyrirtæki fara í málaferli við 60 mínútur ef þeir gefa út eitthvað efni sem varðar Jeffrey. Lowell verður því að velja um það að bjarga sínum fréttamannsferli eða berjast og hjálpa Jeffrey. Þessi mynd er eins og John Grisham saga að mörgu leyti. Munurinn er sá að þetta er raunverulegt fólk þarna á ferð, allt með sína galla í staðinn fyrir yfirborðskenndu glanstýpurnar sem eru hjá Grisham. Myndin er löng en maður finnur samt ekkert fyrir því af því að Michael Mann lætur hlutina hreyfast áfram á eldingarhraða og skapar þar af leiðandi mjög raunverulegt andrúmsloft, svipað því sem maður getur ímyndað sér að sé hjá fréttamönnum. Kvikmyndataka Dante Spinetti er mjög áhrifamikil í þessu samhengi þar sem að myndin er oft tekin á handhelda myndavél. Handrit Eric Roths og Michael Manns er gífurlega kröftugt en gleymir samt ekki að sýna hina mannlegu eiginleika í öllum persónunum. Varðandi leikarana þá standa þeir sig allir frábærlega. Al Pacino hefur alltaf staðið undir mínum væntingum og gott betur og bregst ekki hér frekar en venjulega. Það gneistar af þessum stórkostlega leikara í þessu bitastæða hlutverki. Jafnvel betri er samt Russell Crowe sem er að verða einn af bestu leikurunum í bransanum. Hann var frábær í L.A. Confidential og er eiginlega betri hérna. Hann túlkar Jeffrey sem venjulegan mann sem lendir í hræðilegum kringumstæðum en reynir samt að gera hið rétta þrátt fyrir allt. Christopher Plummer er síðan stórfínn í hlutverki aðalfréttamannsins á 60 mínútum og á nokkrar dásamlegar senur sem krauma af kaldhæðni og hlýju. En það sem fær myndina samt sem áður til þess að virka endanlega er að maður fær að vita að þetta er byggt á sönnum atburðum. Frábær mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
American Beauty
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Vá! Endrum og eins kemur mynd sem ekki bara nær að skemmta þér og fær þig til þess að hugsa heldur lætur hún þig einnig upplifa allan tilfinningaskalann og sýnir þér hve lífið getur verið dásamlegt. Um það er American Beauty sem ásamt Fight Club er besta mynd ársins. Lester Burnham (Kevin Spacey) er 42 ára gamall millistéttarmaður sem býr ásamt konu sinni Carolyn Burnham (Annette Bening) og dóttur Jane (Thora Birch) í úthverfi í ónefndri borg. Þau hjónin hafa fjarlægst mjög hvort annað, dóttir þeirra hatar þau og líf þeirra er þrungið leiða og tilbreytingarleysi. Lester verður fyrstur til þess að átta sig á því hve líf hans er í raun ömurlegt. Hann byrjar þess vegna að breyta lífi sínu. Hann byrjar að stunda líkamsrækt og sjálfsfróun í miklum mæli, hann hættir í sinni ömurlegu möppudýrsvinnu, hann fer að reykja maríjúana sem hann fær hjá stráknum sem býr í næsta húsi (Wes Bentley, sem er ástfanginn af dóttur hans) og hann fellur fyrir Angelu (Mena Suvari) sem er vinkona dóttur hans. Konunni hans líkar þetta alls ekki en hún er sokkin einum of djúpt niður í sína gleðisnauðu veröld til þess að taka upp á einhverju líku þó hún byrji að halda framhjá honum með myndarlegum manni (Peter Gallagher). Málin flækjast síðan og flækjast þar til að allt síður upp úr með ófyriséðum afleiðingum. Þessi mynd er ein snilld út í gegn. Maður hefur sjaldan séð mynd sem hefur snert mann svona mikið og látið mann þykja jafn vænt um persónur sínar og þessi mynd gerir. Hún byrjar á kómísku nótunum og er þá alveg drepfyndin gamanmynd sem lætur mann oft fá krampa af hlátri. Þegar síður á seinni hlutann verður myndin tragískari og sá hluti er jafn vel gerður og sá fyrri. Hann er hreint ótrúlega hjartnæmur og tilfinningaþrunginn og nánast ljóðrænn og draumkenndur á köflum í þessari einföldu fegurð sinni og boðskapur myndarinnar er lifðu lífinu til hins ýtrasta hverja einustu mínútu lífs þíns. Leikstjórn Sam Mendes er í hæsta gæðaflokki. Hann heldur vel utan um efnið og nær ótrúlega góðum leik út úr leikurum sínum. Handrit Alans Ball er hin hreinasta snilld og er hreint unun að fylgjast með leikurunum fara með rullur sínar. Kevin Spacey sýnir hér og sannar enn og aftur að hann er einn allra besti leikari heims og á ógleymanlegan leik sem fjölskyldufaðirinn sem reynir að bæta líf sitt með grátbroslegum árángri. Annette Bening er glimrandi góð sem konan hans og sýnir hún hér stórleik, Thora Birch er mjög góð sem dóttir þeirra og einnig er Mena Suvari afar fín sem vinkona hennar. Loks ber að nefna hinn ágæta leikara Chris Cooper sem var frábær í October Sky og er frábær aftur hérna sem ofbeldisfullur og tilfinningalega brenglaður faðir. Það besta við myndina er að allar persónur myndarinnar, meira að segja vinkonan og ofbeldisseggurinn eru allar í þrívídd og þær hafa allar dýpstu samúð mans. Þessa mynd verða allir að sjá. Það er lífsnauðsynlegt. Þið munið skilja þá hvað lífið er dásamlegt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
End of Days
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Undir lok árþúsundsins er því spáð að Satan muni koma til jarðarinnar til þess að finna sér brúði sem muni ala honum barn og þá muni hlið helvítis opnast og hið illa mun ráða heiminum. Þetta reynist rétt og síðustu dagana fyrir árþúsundaskiptin kemur Satan upp á yfirborð jarðar og tekur sér bólfestu í manni (Gabriel Byrne) svo hann geti komist óséður um. Hann byrjar strax að leita að brúði sinni sem reynist vera tvítug kona að nafni Christine York (Robin Tunney) sem hefur þjáðst af martröðum um þennan mann alla sína ævi og núna fyrst gerir hún sér það ljóst að þetta er Satan sjálfur og draumarnir voru raunverulegir. Inn í atburðarásina flækist fyrir tilviljun fyrrverandi löggan og núverandi lífvörður Jericho Cane (Arnold Schwarzenegger) en hann er bæði drykkfelldur og þunglyndur eftir að dóttir hans og kona voru drepin í hefndarskyni af glæpagengi sem hann kom upp um. Hann ásamt félaga sínum Chicago (Kevin Pollak) einsetur sér nú að vernda konuna gegn hinu illa en eins og það væri ekki nóg að berjast við Satan þarf hann einnig að berjast við yfirmenn kirkjunnar sem margir hverjir halda því fram að það þurfi að fórna konunni til þess að koma í veg fyrir að Satan sigri. Það er gott að sjá Arnold vera kominn í sinn gamla ham eftir alveg hreint afleitt gengi í lélegum gamanmyndum. Hann fer leikandi létt með þetta hlutverk sem hann gæti leikið í svefni. Þó er persóna hans ívið dýpri en maður á að venjast og þetta er t.d. í fyrsta skipti sem maður sér hann gráta. Það kemur alveg sæmilega út. Það helsta sem dregur þessa mynd niður er venjubundið og fremur klisjukennt handrit sem býður ekki upp á neitt nýtt. Önnur djöflamynd sem hét The Devil's Advocate hafði mun athyglisverðra og bitastæðara handrit. Gabriel Byrne fer á kostum sem Satan og hefur hann greinilega gaman af þessu en hver myndi svo sem ekki hafa gaman að því að leika mesta illmenni í heiminum. Að sjálfsögðu er djöfullinn alltaf safaríkasti og litríkasti karakterinn í myndinni þó að það hefði verið gaman að því ef hann hefði verið betur skrifuð persóna. Til dæmis hefur hann furðulegar reglur. Þetta er næststerkasta afl í alheiminum og sprengingar geta stoppað hann tímabundið? Þvílíkt og annað eins rugl. Robin Tunney hefur sáralítið að gera sem hin útvalda kona Christine og eins er það með Kevin Pollak, þann ágæta leikara sem félaga Arnolds. Hann er eiginlega grínarinn í genginu og ferst það svosem vel úr hendi en ekki með neinum tilþrifum. Rod Steiger er síðan fjalltraustur í hlutverki kaþólsks prests sem er eins og Arold að berjast gegn djöflinum. Peter Hyams keyrir myndina áfram af miklum hraða og tæknibrellurnar hans Stan Winstons eru æðislegar að vanda en myndin dalar fyrir það hversu handritið er klisjukennt. En myndin er aldrei leiðinleg og er með óvenjulega góðum Schwarzenegger í aðalhlutverkinu. Slökkvið á heilanum og skemmtið ykkur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The World Is Not Enough
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jæja þá! James Bond er kominn enn og aftur að bjarga heiminum í þessari 19. Bondmynd. Bond er áreiðanlega langlífasta persóna kvikmyndasögunnar en þessi mynd olli mér vonbrigðum þar sem hún er töluvert líflausari en Goldeneye og Tomorrow Never Dies þó hún sé sennilega metnaðargjarnari en þær báðar. James Bond (Pierce Brosnan) er sendur til Azerbajdzhan til þess að vernda Elektru King (Sophie Marceau) gegn hryðjuverkamanninum og anarkistanum Renard (Robert Carlyle) sem rændi henni fyrir mörgum árum og er nú kominn aftur til þess að hefna sín. Hann hefur yfir að ráða þeim eiginleika að finna ekki til neins sársauka af því að hann er með byssukúlu fasta í hauskúpunni sem mun á endanum drepa hann en þangað til verður hann alltaf sterkari og sterkari. Bond uppgötvar það fljótt að morð Elektru King er aðeins toppurinn á ísjakanum í ráðagerð hans. Hann ætlar sér að eyðileggja alla olíuflutninga til Vesturlanda og koma þeim þannig í bráða hættu. Og núna þarf Bond að stoppa hann. Pierce Brosnan virðist vera orðinn dálítið þreyttur sem Bond. Hann er ekki að gera neitt nýtt. Einungis endurtekningar á því sama. Er þar aðallega um að kenna að hann hefur kannski nógar sprengingar og skotbardaga en lélegan texta og handrit. Þess vegna virkar hann ekki eins ferskur eins og hann var í Goldeneye og Tomorrow Never Dies. Elektra King er leikin af Sophie Marceau sem er áreiðanlega toppurinn á myndinni með hreint skínandi leik en það skemmir fyrir að leikstjóri myndarinnar, Michael Apted er eiginlega full metnaðargjarn og reynir að flækja persónur sínar og setja þær fram í meira þrívíðri mynd en aðrir leikstjórar hafa gert til þessa. Það er vissulega af hinu góða en kemur ekki vel út hérna. Robert Carlyle lendir einnig í því sama sem hinn illi Renard þar sem að flækjurnar í persónu hans skemma fyrir annars alveg ágætum leik hans þótt hann sé ekki eins góður og Jonathan Pryce í Tomorrow Never Dies sem var hreint út sagt frábær. Judi Dench snýr aftur sem M og hefur nú mun stærra hlutverk en áður og er hún alltaf jafn glimrandi góð. Desmond Llewelyn er stórkostlegur eins og alltaf og verður mikil eftirsjá af honum þar sem að þetta er hans síðasta mynd sem Q þar sem hann var að deyja núna um daginn. En John Cleese lofar samt góðu sem eftirmaður hans. Verst af öllu þykir mér að sjá hinn ágæta leikara Ulrich Thomsen sem var svo fínn í Festen nýttan í ekki neitt sem vitgrannur lífvörður. Það sem þessi mynd þjáist af er það að hún er bara ekki neitt sérstaklega spennandi sem er náttúrulega ekki gott fyrir Bondmynd. Við skulum vona að Bond komi aftur frískur til leiks í mynd númer 20. P.s. Denice Richards er afleit sem Dr. Christmas Jones í fáránlega illa skrifuðu og asnalegu hlutverki sem dregur myndina talsvert niður.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei