Náðu í appið
Gagnrýni eftir:Skrapp út
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Skrapp í bíó

Skrapp á kvikmyndina Skrapp út eftir Sólveigu Anspach um helgina.

Eftir helling af auglýsingum og stiklum birtist íslenska myndin. Hún var borin upp af háægða atvinnuleikurum og ýmsum skrautlegum karakterum, flestum úr listageiranum. Í stuttu máli segir frá dópsalanum Önnu sem hefur mikil sambönd í undirheimum Reykjavíkur. Flóran endurspeglar allan þjóðfélagsstigann. Anna er orðin leið á bransanum og stefnir á ferðalag af skerinu. Hún ákveður því að selja farsímann sinn en þar eru númer allra 300 viðskiptavina hennar. Upplýsingar eru dýrmæt eign. Er hún er að ganga frá viðskiptunum endar hún óvænt upp á Snæfellsnesi og lendir í æsilegri leit að farsímanum. Á sama tíma safnast kúnnahópur hennar saman á litlu heimili hennar og er það spaugilegur hópur.

Það má segja að þetta sé vega- og farsímamynd en farsímar eru farnir að verða gríðarlega mikilvægir í söguþræði kvikmynda. Það er húmor í myndinni og ágætis afþreying. Nokkur stílbrot eru í frásögninni og finnst mér athyglisverðast þegar gítar kemur óvænt inn í söguna á Kvíarbryggju. Snilldar atriði og minnir á atriði í myndinni Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór er jeppi hverfur skyndilega í eltingaleik við lögregluna.

Einnig eru nokkrar sögur sem styðja aðalfrásögnina, þeir þræðir eru ekki gerðir upp í lokin. Ég spyr mig, hvort það sé ekki útpælt, á áhorfandinn ekki að klára þær pælingar? Lífskúnsterinn Didda er aðal persóna myndarinnar og ef til vill er handritið skrifað með hana í huga. Hún leikur sjálfa sig og finnst mér ekki ná að slá í gegn.

Tónlistin góð í myndinni, skemmtilegur bassi og stórsveitin Hjálmar með skemmtilegt gleðilag í lok myndar sem hélt áhorfendum í sætum meðan kreditlistinn rann í gegn.

Mikið eru auglýsingar og hlé farið að fara úr böndunum í íslenskum kvikmyndahúsum. Nú fer ég að stunda sýningar hjá Græna ljósinu, þar er maður laus við þennan ófögnuð.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
U2 3D
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Tímamótamynd
Fór á þrívíddartónleika með U2 í gærkveldi, íklæddur græna U2 bolnum til að samfagna 48 ára afmæli Bono. Tónlistakvikmyndin U2 3D var sýnd í Álfabakka á Hvítasunnudag en það voru því miður fáir á tónleikum. Myndin er unnin eftir nýrri tækni sem þróuð hefur verið hjá 3ality Digital og er hin magnaða rokkhljómsveit, U2 sem breiðir út tæknina í samstarfi við hina virta miðil National Geography. Fylgir hún eftir kvikmyndinni Rattle and Hum framleidd af U2-félögum fyrir 20 árum og braut sú kvikmynd ákveðið blað í rokksögunni.

Helsti gallinn við myndina U2 3D er að hún er of stutt. Rokktónleikarnir standa aðeins yfir í 85 mínútur og renna fjórtán lög í gegn en fyrir vikið er mörgum góðum lögum er sleppt. Hljóðið er mjög gott og myndataka stórgóð. Enda voru notaðar 18 tökuvélar á níu tónleikum í fimm löndum. Upplifunin er góð og Bono kemur nokkrum sinnum beint til okkar með boðskap sinn. Þetta er mjög vel gert hjá framleiðendum og fara þeir sparlega með það en í sumum þrívíddarmyndum er þetta bragð ofnotað. Flottasta sjónarhornið er þegar trommarinn Larry Mullen er sýndur við iðju sína, trommusettið er eins og frumskógur. Einnig er gaman að hvernig tónleikagestir sem sitja á herðum annara í þvögunni er nýttir í sviðsmyndina.

Ég fór á Vertigo tónleika fyrir þrem árum í London til að læra að aftengja kjarnorkusprengju og fór í gær til að rifja upp góða tíma. Búið er að taka út Afríkuboðskapinn í myndinni. Baráttunni gegn fátækt en Bono hvetur fólkinu í S-Ameríku til dáða í staðinn.

Þrátt fyrir að vera næstum kominn á tónleikastaðinn, þá nær myndin ekki upp stemmingunni sem er á tónleikum sjálfum. Gæsahúðin kemur ekki eins oft upp. Eitt lag sem er í myndinni hreif mig mjög og var ekki á tónleikum sem ég var á, en það er þegar Bono syngur lagið Miss Sarajevo. Þá nær hann vel til fólksins sem var stundum eins og stór síldartorfa í myndinni. Fagnaðarlæti þeirra voru ósvikin þegar hann tónaði efstu tóna og sló nærri út sjálfan Pavarotti. Mér fannst vanta örlita gleði í sveitina og tónleikagesti í byrjun myndarinnar en stemmingin eykst er á líður. Kanski er maður of upptekin af allri upplifuninni í þrívíddinni. Maður tekur eftir mörgun smáatriðum sem fóru framhjá á tónleikunum.

Að lokum hvet ég áhorfendur til að hlusta vel þegar lagið Pride kemur en það fer ekki framhjá neinum, það byrjar svo kröftuglega. Í upprunalega laginu syngur Bono, "Early morning April 4" en það er sögufölsun því Marteinn Luther var myrtur "Early evening April 4" eða klukkan 18.01 og er því sagan leiðrétt í myndinni.

Þetta er mynd sem allir U2 aðdáendur eiga að mæta á og einnig þeir sem ekki eru U2-aðdáendur. Þetta er mynd fyrir fólk sem hefur áhuga á tónlist og tækni, það fær helling fyrir tólfhundraðkallinn.

Ég skrifaði fyrir nær þrem árum pistil á Huga.is um Vertigo-tónleikana. Tengill í hann fylgir hér.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Into the Wild
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Útilega í Háskólabíó

Fór á sunnudagskvöldið í útilegu í Háskólabíó. Kvikmyndin Into The Wild leikstýrð af Sean Penn og byggð á sögu klifrarans Jon Krakauer

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Shark Bait
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Tölvuteiknimyndin Hákarlabeita gerist í hafdjúpinu og hefst sagan í megnaðri San Fransiscohöfninni. Söguhetjan, Pi, lítill rauður skrautfiskur er líktist gullfisk okkar er að ræða við foreldra sína um hættur hafsins þegar nót er kastað yfir þau. Söguhetjan sleppur úr nótinni og fær þau skilaboð að flýja til kóralrifsins. Hann kemst þangað og Þar er mikið líf. Á rifinu kynnist hann sætri hrygnu. Hún hafði komist á forsíðu Séð og veitt og var það eini heppnaði brandari myndarinnar. Úr verður klisjukennd ástarsaga. Upp kemur vandamál, háfur einn verður hrifinn af hrygnunni og mikið uppgjör er í uppsiglingu. Söguhetjan gefst ekki upp og leitar á náðir gamallar skjaldböku sem man tímanna tvenna. Hún tekur að sér að þjálfa og uppfræða hænginn okkar. Minnir þetta mig á karatemyndir sem maður sá fyrir rúmum tveim áratugum. En í þeim myndum lenti lærlingurinn ávallt í vandræðum og leitaði á náðir sérvits meistara, sem byrjaði á því að rífa lærlinginn alveg niður og byggja síðan upp.


Uppgjörið milli hængsins okkar og hákarlsins er svo eftir Hollýwood formúlunni


Á rifinu er margir skrautlegir fiskar en tölvugrafíkin er ekki nógu góð í myndinni. Vandaðir fræðsluþættir sem sjást í sjónvarpinu eru betri. Náttúran er tölvugrafíkinni fremri. Jákvæða við myndina og síðustu myndir sem við feðgar höfum farið á er að umhverfisvernd er innbyggð í kvikmyndirnar. Það er gott markmið.


Íslensku leikurunum sem tala inn á myndina tekst ekki vel upp. Spaugstofukapparnir Örn og Siggi ná þó ágætri rispu með lífsreyndu sverðfiskanna.


Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Green Street Hooligans
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kvikmyndin Green Street Hooligans í leikstjórn Þjóðverjans Lexi Alexander segir frá lífi knattspyrnubullna í London.Myndin hefst eins og knattspyrnumyndin Goal í Bandaríkjunum. Matt (Eljah Wood) fjölmiðlanemi í hinum virta Harvard háskóla er rekinn þegar kókaín finnst í hirzlum hans. Hann flyst í kjölfarið til London til systur sinnar og mágs. Þar kynnist hann Pete (Charlie Hunnam) sem er forsprakki helsta gengi heimsborgarinnar, Green Street sem styður West Ham United félagið. Matt dregst inn í heim fótboltabullnanna en þar eru menn innvígðir og innmúraðir. Veldur óvænt innganga Matt nokkrum núning. Kostar það átök milli Bower sem verður Júdas sögunnar og Pete. Pete er annars góður drengur í vondum félagsskap.Sagan sem er vel spunnin og vel gerð vindur hnitmiðað áfram og endar með uppgjöri fyrir bikarleik West Ham og Millwall.Stjarna myndarinnar er ekki Hobbitinn Eljah Wood, heldur stelur Charlie Hunnam forsprakki GSH senunni. Minnti mig á Hauk Margeir í (Ó)eðli hvað útlit og takta varðaði.Lexi nær nokkuð vel stemmingunni á knæpum fyrir leiki þar sem bjórinn ræður ríkjum. Myndataka og klipping í átakaatriðum er góð og fær mann til að upplifa sársaukann. Maður spyr sig þá, Er þetta eftirsóknarvert hlutskipti að vera bulla?, berja og verða barinn. Af hverju eru menn að þessu?Enski boltinn er á fljúgandi siglingu hvað vinsælir varðar um þessar mundir út um allan heim og þessi mynd er gott innlegg í einn heim knattspyrnunnar. Yfirvöld hafa sem betur fer tekið hart á fótboltabullum og næstum náð að úthýsa frá völlum sem betur fer.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Touching the Void
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Það kom mér á óvart að enginn af ágætum pennum hérna hafi ekki skrifað um myndina Tuching the Void eða Snerting við tómið. Kannski er ástæðan sú að þetta er ekki hefðbundin Hollywood kvikmynd heldur 106 mínútna bresk heimildarmynd. Heimildarmyndir hafa hins vegar verið að sækja í sig veðrið í kvikmyndahúsum hér á landi og benda má á frönsku myndina Heimur farfuglana í því sambandi. Ástæðan gæti verið sú að heimildarmyndir eru orðnar svo góðar í dag.Myndin segir frá félögunum Joe Simpson og Simon Yates sem settu sér það markmið að verða fyrstir til að klífa vesturhlið fjallsins Siula Grande (6344 m) í Andesfjallgarðinum í Perú árið 1985.Myndin segir frá sjö dögum í lífi fjallamannanna og hrakningum sem þeir lenda í og er ferðin orðin goðsögn í heimi fjallaklifrara.Joe og Simon segja söguna að mestu og þriðji aðili Richard Hawking sem beið í grunnbúðum gerir hana trúverðugri. Leiknum atriðum er fléttað saman í frásögnina og tekst það mjög vel. Segja ágætlega frá og líflegir. Þeir ná fram spennunni vel og ná að setja áhorfandann í aðstæður. Nokkrum sinnum í myndinni velti ég fyrir mér næsta leik.

Allir vita jú hvernig myndin endar, hetjurnar eru að tala en afrekið sem Joe vann er ofurmannlegt. Afrek sem minnir mig á sund Guðlaugs Friðþórssonar til Vestmannaeyja fyrir rúmum 20 árum.Fyrir áhugfólk um útivist er þessi mynd hvalreki og fengur að fá að sjá hana í bíó en flestar heimildarmyndir enda á sjónvarpsskjánum. Held að þeir sem fái þó mest fyrir sinn snúð séu þeir sem hafa klifið fjöll bundnir saman við annan mann og þurft að treysta hvor á annan en myndin tekur á siðferðilegum spurningum klifurmanna.Myndin hefur sópað að sér verðlaunum og vann heimildamyndaflokkinn hjá BAFTA á þessu ári.

Einn fjallamaður sem ég þekkti var búinn að sjá myndina og fannst hún mjög góð en sagði áhrifameira að lesa bókina. Það ætlar að ganga seint að nálgast bókina!

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Die Another Day
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Die Another Day er nafnið á nýjustu myndinni, þeirri tuttugustu í röðinn á fjörutíu árum og mikið er í lagt á afmælisári. Mikið af hasar og sprengingum og heimsókn til Íslands kryddar myndina. Í sumum skrám er þetta 21. myndin en þá er talin með Never Say Never Again (1983) en sú mynd er endurgerð af Thunderball (1965) en þetta vita nú allir James Bond aðdáendur.


Sama formúlan er notuð í 20. skipti og fellur maður fyrir henni í tuttugasta skiptið. Magnað upphafsatriði, stefið sígilda og kynning með Bond laginu, M og Q, nýtt úr, öflugur bíll og ný tækni, vondir menn, Bond bjargar heiminum, hasar, fimmaurabrandarar, Bond-stúlka og dodo.


Í upphafsatriðinu kemur Bond skemmtilega inn í myndina á brimbretti og lendir á strönd N-Kóreu og er að eltast við gimsteina- og vopnasala á hlutlausa beltinu milli N- og S-Kóreu en er svikinn og lendir í fangabúðum í 14 mánuði. Þarna er mikill hasar og eins gott að hann lifði það af því annars hefði þetta orðið stuttmynd! Þegar hann losnar fer hann að leita hefnda og leið hans liggur til Hong Kong, svo til Kúbu en þar leynist vondi karlinn Zao hjá Kúbverskri erfðagreiningu. Þar kynnist hann gellunni Jinx (Hale Berry) sem er á sömu línu og Bond. Demantar koma honum á slóðir landa hans, ofurmennisins, Gustavs Graves sem rekur demantanámur á Íslandi. Þar kynnist hann einnig blaðafulltrúanum Miröndu Frost. Bond finnst demantanámurnar dularfullar og eltir þau til Íslands.


Þá erum við komnir að hápunkti myndarinnar en helmingurinn af seinni hálfleik gerist á Íslandi og er Ísland nefnt sex sinnum á nafn. Aðkoman er flott, flug yfir Breiðarmerkurjökul og á Jökulsárlóni er búið að byggja heljar mikla íshöll sem minnir á Óperuhúsið í Sydney og Kópavogskirkju. Í framhaldi af höllinni er heljar gróðurhús. Margmenni er í höllinni en vísindakynning er framundan en kynna á nýtt tæki, geimspegillinn Icarus. Allt gerist þetta í stúdiói í Svíþjóð og jafnvel víðar en sögusviðið er Ísland og í mörgum atriðum er landslag okkar notað í bakgrunn. Eina atriðið sem tekið var á Jökulsárlóni í 3 vikur var bílaeltingaleikur en það atriði stendur í tvær mínútur. Ísland er kalt og ímynd landsins er köld en falleg og hefur umfjöllun erlendis verið jákvæð. Hér er því kjörið tækifæri fyrir ferðaþjónustuna að selja vetur á Íslandi og getur það lengt ferðamannatímabilið ef rétt er að verki staðið.


Titillagið er flutt af Madonnu og finnst mér það slakt, er þar sammála Elton John. Húmorinn í myndunum byggist á stuttum bröndurm en þeir eru grófari núna trúlega afleiðing klámvæðingar. Bond-gellan Jinx er orðin hörkukvenndi og hafa kvennréttindakonur náð sínu fram á fjörutíu árum, hættar að vera ljóskur, skrokkurinn á Hale Berry stendur sig vel. Pierce Brosnan passar vel í hlutverk njósnarans og er ágætis leikari með útlitið með sér en þó fannst mér hann ekki passa vel í skylmingarsenunni, full þungur en kannski má skrifa það á áhættuleikarann? John Cleese er alltaf frábær, hér brillerar hann sem Q. Vondu karlarnir Graves og Zao (Toby Stephens & Rick Yune) eru sannfærandi. Moneypenny góð en M heillaði mig ekki.


Stöðluð Bond mynd er upp á þrjár stjörnur en skaftfellski ísinn togar hana upp um hálfa, slakur söguþráður eyðileggur fullt hús.


Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Litla lirfan ljóta
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Góð byrjun á íslenska tölvuteiknimyndaævintýrinu.

Litla lirfan ljóta er falleg og einföld saga um æfi grænnar lirfu. Sagan minnir mjög á ævintýrið um Litla ljóta andarungann. Fyrst er andstreymi og kynnist lirfan nokkrum karakterum í skordýraheiminum, misgóðum. Sýnu verst er konguló, svo vel gerð að 5 ára dóttir mín varð svo smeyk að hún settist upp í fangið hjá pabba sínum. Um nóttina svaf sú stutta illa, ekki er vitað hversu kongulóin vonda átti þar mikinn hlut að máli.

Þegar ég rukkaði hana um stjörnur eftir sýninguna þá dróg hún hana niður í 3 fyrir að kóngulóin hræddi hana, en ég gaf fullt hús því mynd sem hefur svona áhrif er góð.


Myndin er tæplega hálf tíma löng, fínn tími fyrir unga áhorfendur en gaman væri að vita hversu mörg mannár fóru í að búa til teiknimyndina.

Leikraddir voru góðar enda könnuðumst við vel við raddir úr íslenska leikraddalandsliðinu.


Strákarnir og stelpurnar í Caoz kunna ýmislegt fyrir sér.

Til hamingju! - Særún & Palli


Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hafið
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Kvikmyndin Hafið eftir Baltasar Kormák er kröftug mynd sem hvetur til umræðu og spyr spurninga um efni sem kemur öllum við. Myndin er sérstaklega athyglisverð í mínum huga í ljósi síðustu atburða á Hornafirði en stór hluti af kvóta staðarins var næstum farinn á brott í síðustu viku.


Hafið fjallar um útgerðarmanninn og einvaldinn Þórð sem er komin að krossgötum í lífi sínu og segir frá uppgjöri hans við fjölskylduna sem fylgir í kjölfarið. Niðurstaðan úr uppgjörinu ræður framtíð sjávarþorpsins. Þórður á þrjú börn, Harald sem rekur fyrirtækið, Ragnheiði sem er misheppnaður kvikmyndaframleiðandi og Ágúst sem er við nám í París. Fjölskyldan er alþjóðavædd því Ágúst og Ragnheiður hafa bundist erlendu fólki, svipað og stór hluti þorpsbúa. Ýmis gömul óúkljáð mál koma upp úr kafinu frá fyrri tíð og úr verður æsileg atburðarrás. Það eru því til fleiri vandamál en kvótakerfið í íslenskum fjölskyldum.


Myndin er kraftmikil, djörf, vel gerð og vel leikin, góður húmor, myndataka er góð og Norðfirsku fjöllin glæsileg. Því á hún góða möguleika á að gera góða hluti erlendis. Þorpsbúar eru óttalegir ræflar og dregin er upp frekar ljót mynd af sjávarþorpsmenningu, myndin er því slæm landkynning. Erlendu tengdabörn Þórðar eru eina fólkið með viti enda á útivelli. Það býr miklu meiri kraftur íslenskum sjávarþorpum, það vitum við en svona er listin.


Hafið er listaverk en ekki áróðursmynd enda er ekki sett pólistísk niðurstaða í myndina, heldur er hlutum vel upp og flest sjónarhorn koma fram. Því þarf áhorfandinn að taka sína afstöðu á heimleiðinni. Dæmi um áróðursmyndir eru meistaraverkið Beitiskipið Potemkín eftir Sergei Eisenstein og Olympia 1 eftir Leni Riefenstahl áróðursmeistari Hitlers en hún gerði nasista fallega.


Hafið sendir mann út í náttmyrkrið sem eitt stórt spurningamerki, hafi mynd gert það þá hefur hún náð tilgangi sínum. Á fyrsta rauð ljósi sem ég stoppaði við á heimleiðinni velti ég fyrir mér af hverju kjósendur eru tilbúnir að ráða stjórnmálamenn í vinnu sem vinna gegna hagsmunum þeirra. Trúlega kýs 2/3 landsbyggðarfólks stjórnarflokkana í næstu alþingiskosningum. Horfa síðan á launin lækka, húsin lækka í verði, börnin flytja burt, nágrannan pakka saman í gám og skilja eftir tómt hús.


Kjósa menn sem verja kerfi sem byggir á óréttlæti, ranglæti, mannréttindabrotum, brottkasti afla, efnahagslegri misskiptingu, upplausn og flótta, óöryggi, hagræðingu, einkaeign útvalinna og algjöru siðleysi. Afleiðingin af þessu, auknar skuldir útgerða og minni fiskstofnar. Hér þarf að breyta miklu, enda vitlaust gefið.


Þegar greindir og vel menntaðir menn geta varið svona gallað kerfi og kallað fullkomnasta kerfi í heimi þá skil ég loks af hverju breyskir menn voru tilbúnir til að láta líf og limi fyrir hugsjónir, kenndar við nasisma og kommúnisma. Rök eru ekki tæk, heldur tilfinningin ein. Af hverju er þetta kerfi ættað úr Hornafirði?


Skyndilega var flautað og ég truflaður í þessari ranglætispælingu, græni framsóknarkarlinn var kominn. Ekki er þó allt slæmt sem tengist Framsókarflokknum!


Stuttu síðar hljóp svartur köttur yfir götuna. Þá rifjaðist upp hjá mér ein persónan í myndinni Ragnheiður leikin af Guðrúni Gísladóttur og á hún óútkljáð mál við Þórð föður sinn og ekki alveg sátt við uppeldi sitt. Allt sem hún sagði og gerði í myndinni var neikvætt. Til að undirstrika persónuna klæðist hún dökkum fötum í öllum senum, snilldarlega leikstýrt. Persóna sem pirrar mann svona byggir á góðum leikara. Svarti kötturinn komst þó lifandi yfir götuna og ég óskaddaður heim.


Þetta er næst besta mynd sem gerð hefur verið hér á landi, sæti á eftir Börnum náttúrunnar. Mynd sem vekur svona margar spurningar á skilið 4 horn.


Legg ég því til að Íslendingar, sægreifar jafnt sem leigurliðar, Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn mæti í Sindrabæ og berji verkið augum.


Cetere mi rekomendas ke oni ruinigu la nunan kvotan sistemon.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei