Fyrstu viðbrögð við Síðustu veiðiferðinni jákvæð: „Manni verkjar í andlitið af hlátri“

Gamanmyndin Síðasta veiðiferðin segir frá vinahópi og árlegum veiðitúr þeirra, sem oft hefur endað með ósköpum. Í þetta skiptið hyggjast þeir taka ferðina alvarlega og slaka á í ruglinu auk þess að njóta náttúrunnar, en eins og oft er sagt er erfitt að kenna gömlum hundum að sitja og fara málin hratt og bítandi að þróast á versta veg. Ef þetta skal heita síðasta veiðiferðin hjá þeim félögum þýðir lítið annað en að ljúka hefðinni með stæl.

Myndinni er leikstýrt af Erni Marinó Arnarssyni og Þorkeli Harðarsyni og skartar þeim Hilmi Snæ Guðnasyni, Þorsteini Bachmann, Þresti Leó Gunnarssyni, Hjálmari Hjálmarssyni og Jóhanni Sigurðarsyni í helstu hlutverkum.

Enn sem stendur hefur afraksturinn ekki verið afhjúpaður almenningi, né aðstandendum myndarinnar. Myndin er frumsýnd 6. mars næstkomandi en á dögunum var haldin sérstök for-forsýning fyrir veiðimenn og gesti þeirra. Heimildir herma að salurinn hafi verið stappfullur og hafa ýmis hver viðbrögð reynst vera gífurlega jákvæð. Á meðal gesta voru Eggert Skúlason fjölmiðlamaður og Gunnar Helgason, leikari, leikstjóri og rithöfundur, en báðir tveir voru hæstánægðir með útkomuna og húmorinn. Gunnar birti færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagðist hafa öskrað úr hlátri.

„Þetta er sennilega fyndnasta mynd sem ég hef séð! Ekki fyndnasta íslenska mynd heldur bara fyndnasta mynd sem ég hef séð. Punktur!“
segir meðal annars í færslu Gunnars.

Í umræðuþræði Gunnars taka aðrir forsýningargestir í sama streng.

„Manni verkjar í andlitið af hlátri,“
segir Bergur Árni Einarsson.

„Þetta var nú meiri snilldin, frábær mynd,“
segir Nökkvi Svavarsson.

Galafrumsýning Síðustu veiðiferðarinnar mun eiga sér stað næstkomandi þriðjudag, en þá ættu fleiri viðbrögð að lenda víða á samfélagsmiðlum.