Þrot í nærmynd: Krufning í þremur hlutum

Hlaðvarpið ÞROTKAST skoðar grannt hin ýmsu brotabrot af Þroti, fyrstu kvikmynd Heimis Bjarnasonar í fullri lengd og indí-verk sem á sér enga baksögu líka. Í þriggja hluta örvarpsseríu er fókusinn stilltur á bak við tjöldin og víðar í tengslum við afrakstur Heimis og hans teymis.

Þrot var frumsýnd víða um landið í fyrrasumar og lenti á VOD-leigunum nú um hátíðirnar. Myndin er sakamáladrama sem segir frá dularfullu morðmáli sem skekur smábæjarsamfélag og þeim áhrifum sem það hefur á líf og fortíð þriggja ólíkra einstaklinga. Gömul sár verða að nýjum og fljótt verður ljóst að sögum ber ekki saman og reynir á fjölskylduböndin sem aldrei fyrr eftir því sem sannleikurinn skýrist.

Með helstu hlutverkin fara Bara Lind Þórarinssdóttir, Anna Hafþórsdóttir, Bjarni Snæbjörnsson, Tómas Howser, Pálmi Gestsson, Guðrún Gísladóttir og Silja Rós Ragnarsdóttir.

Myndin hefur verið á miklu hátíðarferðalagi undanfarna mánuði og hefur verið sýnd víða; á Festival of Cinema í New York, Torino Underground Cinefest á Ítalíu, Rising Sun Festival í Japan ásamt fleirum.

Hlaðvarp í þremur bindum

Í fyrsta þætti Þrotkastsins kynnumst við leikurunum Báru Lind og Tómasi Howser ögn betur og rætt er við þau um leiklistina, síendurteknar hafnanir í faginu, heimsyfirráð og mikilvægi söngleikja, svo dæmi séu nefnd.

Þá í öðrum þætti kynnumst við leikurunum Bjarna Snæbjörns og Silju Rós. Farið er yfir víðan völl í tengslum við listina, sköpun, listina að skapa og Spice Girls æðið ásamt sýningunni ‘Góðan daginn, Faggi’ og ósögðu sögur hinsegin fólks.

Í þriðja og síðasta innslagi Þrotkastsins er loksins farið af öllu afli í spoiler-umræður, viðbrögð og uppruna þessarar indí-myndar Heimis Bjarnasonar, múltítaskarans sem eyddi góðum sjö árum í að sjá einn af stærri draumum sínum verða að veruleika. En það gerðist ekki að sjálfu sér eða átakalaust.

Við fáum að kynnast aðeins veröld Heimis; þar sem uppvaxtarárum, kvikmyndauppeldi, óséðum en stórvinsælum fagverkum mannsins í gegnum ferilinn, fjölskyldumynstri og ýmsum skrýtnum tilviljunum bregður fyrir í hressilega einlægri spjallstund, ásamt vissulega alls konar krufningum; þá ekki síst um þá gefandi martröð sem það var að framleiða Þrot. Hefst þá gamansama alvaran um allt á milli Heimis og jarðar.