Metaregn hjá Tom Cruise og Top Gun: Maverick

Bandaríski stórleikarinn Tom Cruise hefur með nýjustu mynd sinni Top Gun: Maverick heldur betur slegið sjálfum sér við, ef svo má segja. Myndin, sem frumsýnd var í 62 löndum nú um helgina, þar á meðal hér á Íslandi, var með tekjur upp á 125 milljónir Bandaríkjadala utan Bandaríkjanna. Þetta er besti árangur Tom Cruise á frumsýningarhelgi frá upphafi utan Bandaríkjanna en myndin er 28% vinsælli en mynd hans Mission: Impossible – Fallout.

Ef tekjur í Bandaríkjunum eru taldar með eru heildartekjur Top Gun: Maverick 248 milljónir dala á frumsýningarhelginni.

Við verðum svo að bíða til morgundagsins eftir fréttum frá Íslandi.

Flýgur um loftin blá.

Eins og sagt er frá í vefritinu Deadline þá var Top Gun: Maverick aðsóknarmesta Tom Cruise mynd allra tíma í 32 löndum og í 18 löndum er myndin aðsóknarmesta leikna kvikmynd í sögu Paramount.

Næst tekjuhæsta leikna mynd Paramount

Þá segir í Deadline að tekjur myndarinnar á frumsýningarhelgi séu þær aðrar mestu fyrir leikna kvikmynd í sögu Paramount, á eftir Transformers Age of Extinction.

Top Gun: Maverick sem Joseph Kosinski leikstýrir, er framhald Top Gun sem frumsýnd var fyrir 36 árum síðan.