Eldhús bar sigur úr býtum – Spagettí fær sérstök verðlaun: „Ógleymanleg upplifun“

Lokakvöld Stockfish kvikmyndahátíðarinnar var haldið í Bíó Paradís í gær og sigurvegari stuttmyndasamkeppni Sprettfisksins kynntur. Sigur úr býtum bar teiknimyndin Eldhús eftir máli (e. Kitchen By Measure) eftir Atla Arnarsson og Sólrún Ylfu Ingimarsdóttur. Þá hlaut spennumyndin Spagettí eftir Egil Gauta Sigurjónsson og Nikulás Tuma Hlynsson einnig sérstaka viðurkenningu og góða umsögn dómnefndar.

„Að fanga anda þess klassíska hefur aldrei verið einfalt verk: að vera trúr söguþræði en þó gefa myndinni einstakan blæ sem gerir áhorfið einstætt og eftirminnilegt. Verkið er tæknilega óaðfinnanlegt með áherslu á minnstu smáatriðin ásamt fallegri kvikmyndatöku og innrömmun. All þetta, sem og góður dass af vitsmunalegum húmor í undiröldu hennar, gerir það að verkum að áhorf myndarnir verður afar heillandi,“ segir um sigurmyndina í umsögn dómnefndar.

Eldhús eftir máli fjallar um Ingólf, hugmyndaríkan Íslending sem fær þá flugu í höfuðið að smíða hið fullkomna eldhús fyrir konuna sína. Í sögunni eru kynjahlutverk fortíðar könnuð og hvernig þau eiga á óvæntan hátt ennþá við í nútímanum. Stuttmyndin er byggð á samnefndri smásögu eftir Svövu Jakobsdóttur.

Þau Atli og Sólrún hljóta verðlaunagrip eftir systkinin Marsibil og Róbert Kristjánsbörn sem og milljón króna úttekt frá Kukl í tækjaleigu sem mun koma sér að góðum notum við gerð næstu myndar.

Dómnefnd Sprettfisksins skipuðu Marina Richter blaðamaður og kvikmyndarýnir, Tinna Hrafnsdóttir leikkona og leikstjóri og Grímur Hákonarson handritshöfundur og leikstjóri. Hermt er að öll voru þau sammála um að valið hafi verið óvenju erfitt og engin ein mynd borið höfuð og herðar yfir aðrar.

Um Spagettí segir dómnefnd myndina vera óhefðbundna spennusögu „úr undirheimum Kópavogs;“ full af lífsgleði og sköpunarkrafti. „Höfundar brjóta flest lögmál kvikmyndagerðar á afar snyrtilegan hátt svo úr verður ógleymanleg upplifun.“

Atli, annar leikstjóri Eldhús eftir máli, og Egill, annar leikstjóri Spagettí.