Nýtt verk varð til í kjölfar frestunar: „Við misstum í rauninni af faraldrinum“

Í heimildarmyndinni Apausalypse er áhersla lögð á áhrif COVID, loftslagsbreytingar með hið mannlega að leiðarljósi. Rætt er við kvikmyndagerðarfólkið á bakvið verkið.

„Það voru takmarkanir heimsfaraldursins sem settu þessari framleiðslu ákveðin mörk, en gáfu skýrar reglur. Við gátum aðeins haft eina myndavél, ferðast um á þremur bílum og máttum ekki koma nálægt viðmælendum,“ segir Anní Ólafsdóttir, kvikmyndagerðarkona og annar leikstjóri heimildarmyndarinnar Apausalypse.

Tilurð verksins var að sögn Anní undarleg en jafnframt óvænt. Myndin fór rakleiðis í tökur þegar heimurinn stöðvaðist fyrir rúmu ári síðan, þegar fyrsta bylgja kórónuveirunnar herjaði á heimsbyggðina.

Þetta er annað verkið eftir þau Anní og Andra Snæ Magnason, en saman voru þau að leggja lokahönd á Þriðja pólinn þegar frumsýningu hennar var frestað. Þá var gripið til nýrra lausna, hugmyndum velt upp og spurt stórra spurninga. Úr því varð óvænt til glænýtt ævintýri hjá listafólkinu og var afraksturinn sýndur á kvikmyndahátíðinni Stockfish á dögunum.

Leikstjórarnir segjast í samtali við Kvikmyndir.is hafa vlijað ná tali af fólki sem upplifir heiminn biblíulega og í gegnum hið andlega samfélag. Þar fléttast kórónuveiran inn.

„Þetta var að vissu leyti dálítið spunaferli,“ segir Andri Snær um framleiðsluna og þróun verksins. „Eitt leiddi af öðru og við byrjuðum að ræða við fullt af fólki og úr varð mynd.“

Ótti og óvissa

Í Apausalypse er áhersla lögð á áhrif COVID, loftslagsbreytingar með hið mannlega að leiðarljósi. Leikstjórarnir fóru ásamt Andra Haraldssyni kvikmyndatökumanni af stað til að fanga þessa einstöku tíma. Í myndinni eru tekin viðtöl við guðfræðinga, heimspekinga og listafólk.

Hvað er í loftinu? Hvaða þýðingu hefur heimspásan í samhengi við andlega heilsu og stærstu vá samtímans, loftslagsbreytingar af mannavöldum?

Þetta eru aðeins fáar spurningar af mörgum sem Anní og Andri grandskoða í Apausalypse, en á meðal þeirra sem fram koma eru Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur, Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekingur, séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir, Gunnar Kvaran sellóleikari, Dóri DNA og Ingvar E. Sigurðsson leikari.

Þegar tvíeykið er spurt að heiti heimildarmyndarinnar vísar Anní í orð Haralds Jónssonar myndlistarmanns. „Að hans sögn þýðir orðið ‘apocalypse’ ekki heimsendir, líkt og margir halda, heldur afhjúpun,“ segir Anní. Hún rifjar þá upp þegar fyrst kom til umræðu að fresta frumsýningu Þriðja pólsins. Fordæmalausu tímarnir leiddu þá til glænýs samstarfs þeirra Anníar og Andra.

„Þegar fyrsta bylgjan skall á voru allir hræddir og við vissum ekkert hvert heimurinn var að fara. Við vildum ná svipmyndum af því hvernig fólk upplifði þessa tíma. Við fórum að sjá þetta fyrir okkur sem kvikmynd en þá kom auðvitað erfiða spurningin: Hvernig er hægt að búa til kvikmyndaverk þegar ekki er hægt að búa til bíómynd í miðjum heimsfaraldri?“ segir Andri.

Upplifðu tíma COVID öðruvísi en flestir

„Þetta var að mörgu leyti eins og veiði. Óvissan sem fylgir heimildarmyndagerð er alltaf skemmtileg; hvað maður getur talað við marga og fengið alls konar hliðar og speglanir af því sem blasir við,“ segir Anní.

Um það hvernig hvernig leikstjórarnir náðu að glíma persónulega við svo krefjandi, fordæmalausa tíma samhliða þessu verki segir Andri Snær að þau hafi í raun misst af faraldrinum. „Við náðum ekki alveg að upplifa hann, ef svo má segja,“ segir hann og greinir frá því strembna og annasama tökuferli sem þau stóðu frammi fyrir.

Þegar við vildum vaða í þetta verkefni við upphaf fyrstu bylgju, hringdum við í KUKL til að kanna hvort einhver væri að vinna að sambærilegu verkefni. Þá kom í ljós að allar græjur voru í húsi, við fengum góðan tökumann og fengum að nýta alls konar tökustaði sem venjulega standa ekki til boða, segir Andri Snær.

„Við náðum að búa til senur á þessum stöðum og markmiðið var að ná þremur viðmælendum á dag. Við þurftum vissulega að halda fjarlægð við okkar viðmælendur, en annars vorum við bara tíu manns að segja sögur í náttúrunni, að elta þær tilfinningar sem við vildum fanga,“ bætir Anní við. „Það var svo athyglisvert að sjá hvað allir voru mystískir.“

Á sitthvorum enda rófsins

Þriðji póllinn var tilnefnd til fimm Edduverðlauna og fléttar saman sögum þeirra Önnu Töru Edwards og Högna Egilssonar, sem eru bæði með geðhvörf. Við gerð myndarinnar komust þau Andri og Anní að því hvað geðhvörf eru algeng og hvað þetta getur verið hættulegur sjúkdómur, sem kostar fólk jafnvel lífið.

Anna Tara er ís­lensk kona sem ólst upp í frum­skóg­um Nepals inn­an um tígr­is­dýr og nas­hyrn­inga. Hún veikt­ist af geðhvörf­um upp úr tví­tugu og missti móður sína úr sama sjúk­dómi. Þegar Högni steig fram með sín veik­indi ákvað Anna Tara að feta sömu leið, eft­ir að hafa lifað í skugga veik­ind­anna um ára­bil, og skora skömm­ina á hólm. Hún ákvað þá að efna til tón­leika til vit­und­ar­vakn­ing­ar um geðsjúk­dóma í Kat­hm­andu, höfuðborg Nepals og fékk Högna til að spila á tón­leik­un­um. Fyr­ir ágóðann var síðan opnuð hjálp­ar­lína fyr­ir fólk í sjálfs­vígs­hug­leiðing­um í Nepal.

En hvernig er gangverk samstarfsins hjá þeim? Hvaða styrkleika eiga þau sameiginlega og hvernig eru þau ólík sem listamenn?

„Við erum á sitthvorum enda rófsins,“ svarar Andri Snær. „Hún er sjónrænt þenkjandi og ég meira svona abstrakt þenkjandi. Við höfum hins vegar bæði svipaðan smekk fyrir fagurfræði. Það sem henni finnst fallegt finnst mér líka fallegt, svo dæmi sé tekið.“

Anní tekur í sama streng og segir samstarf þeirra líkjast meira dansi. Það sé abstrakt og á hreyfingu án þess að upp komi listrænn ágreiningur.

„Þegar maður getur unnið með einhverjum í þögn og deilt henni án þess að þurfa að segja eitthvað er það svolítið dýrmætt. Við vinnum í sama ramma,“ segir hún.