20 alþjóðlegar verðlaunamyndir á Stockfish

Kvikmyndahátíðin Stockfish verður að þessu sinni dagana 20. – 30. maí næstkomandi eftir tvær frestanir og verður þetta í sjöunda skiptið sem hátíðin er haldin. Þó hafa aldrei verið fleiri myndir á hátíðinni sem annað hvort voru í undanvali eða tilnefndar til Óskarsverðlauna en einmitt nú.

Hátíðin leggur áherslu á að tefla fram metnaðarfullri dagskrá fyrir hátíðargesti og eru t.a.m. einungis sýndar í kringum 20 sérvaldar alþjóðlegar verðlaunamyndir á hátíðinni. Þar fyrir utan eru sérvaldar sýningar á myndum sem Stockfish frumsýnir. Í ár verður Stockfish með Nordisk Panorama Focus þar sem gestum gefst kostur á að sjá verðlaunamyndir frá Nordisk Panorama 2020. Á hátíðinni fá gestir mikla innsýn í gerð myndanna og tækifæri til að eiga samtal við leikstjóra eftir sýningar með Q&A.

Kvikmyndafólk og allt áhugafólk um kvikmyndir nýtur góðs af Masterclass umræðum við hæfileikafólk í faginu ásamt pallborðsumræðum um gerð kvikmynda sem þó verða að þessu sinni í gegnum Netið. Hingað til hefur það verið landinu mikill fengur að fá þennan gæðastimpil þar sem fólk alls staðar að úr heiminum hefur fram að þessu mætt sérstaklega til landsins til að sækja hátíðina. En eins og gefur að skilja þarf sá þáttur að fara fram í gegnum Netið að þessu sinni.

Á meðal kvikmynda sem sýndar verða eru La Llorona, The Man Who Sold His Skin, Sun Children, Pinocchio og Promising Young Woman, sem voru allar tilnefndar eða í undanvali Óskarsins þetta árið og vann Promising Young Woman verðlaun fyrir besta frumsamda handrit.

Þá verða einnig tvær frumsýningar á hátíðinni. Annars vegar Apausalypse eftir Andra Snæ Magnason og Anní Ólafsdóttur og hins vegar heimsfrumsýning í bíóhúsum á myndinni Little Kingdom sem er slavnesk/íslensk framleiðsla. Tónlist myndarinnar er samin af Valgeiri Sigurðssyni tónskáldi.

Opnunarmynd Stockfish í ár verður The Last Ones eftir Veiko Öunpu sem hefur verið lýst sem Lapplands vestra. Myndin var framlag Eistlands til Óskars í ár.

Fleiri upplýsingar um Stockfish 2021 eru aðgengilegar hér á vef hátíðarinnar.