Drekar og dýflissur á Íslandi í nýrri mynd

Tökur hófust nýverið á ævintýramyndinni Dungeons & Dragons og spilar Ísland rullu í framleiðslunni. Um er að ræða glænýja endurræsingu en myndin, líkt og nafnið gefur til kynna, er byggð á samnefndum leik sem varð til árið 1974 og hefur notið gífurlegra vinsælda síðan.

Um 70 manna tökulið var statt hér á landi fyrr í vor en stærsti hluti kvikmyndarinnar verður tekinn upp í Belfast á Norður-Írlandi.

Áætlað er að Dungeons & Dragons líti dagsins ljós í mars árið 2023. Myndin verður hlaðin kunnuglegu hæfileikafólki en á meðal leikara má nefna Chris Pine, Michelle Rodriguez, Regé-Jean Page (Bridgerton), Justice Smith (The Get Down), Sophiu Lillis (Sharp Objects, It) og Hugh Grant, sem er sagður leika illmenni myndarinnar.

Við stjórnvölinn sitja leikstjórarnir John Francis Daley og Jonathan Goldstein og sjá þeir einnig um handritið. Áður hefur leikstjóratvíeykið að mestu spreytt sig í gríni og stóð m.a. á bakvið gamanmyndirnar Game Night og Vacation (2015).

Goldstein fagnaði sjálfur fyrsta formlega tökudeginum á samskiptamiðlinum Twitter fyrr í vikunni.

Þeir Gary Gygax og Dave Arneson sköpuðu upprunalega leikinn, sem var hannaður sem borðspil með miðaldarstíl en í raun og veru getur hann einnig verið hannaður út frá daglegu lífi, út frá hvaða viðfangsefni sem er. Leikurinn getur verið mjög fjölbreyttur eftir söguþræði og þátttakendum.

Segja má að fyrri kvikmyndir hafi ekki fallið í kramið hjá áhorfendum og D&D aðdáendum. Myndirnar sem búið er að gera eru þrjár talsins en sú fyrsta og eflaust sú þekktasta er frá árinu 2000. Sú mynd hlaut afleitar viðtökur en skartaði Jeremy Irons og fleiri leikurum í banastuði.