Möguleiki á framhaldi – Vill fjalla um myrku hliðar Facebook

Handritshöfundurinn Aaron Sorkin vill ólmur skrifa framhaldssögu kvikmyndarinnar The Social Network. Höfundurinn virti hefur verið afar opinskár með að kominn sé tími á nýja sögu um samfélagsmiðilinn Facebook og helstu aðstandendur hans.

Í The Social Network rekur atburðarásin sögu frumkvöðulsins Mark Zuckerberg (Jesse Eisenberg), samskipti hans við teymi sitt og lögsóknir í garð hans í kjölfar upprisu Facebook. Segir Sorkin að svo margt athugavert og forvitnilegt hafa gerst frá stofnun fyrirtækisins í lífi Zuckerbergs nóg svigrúm sé til að segja nýja sögu.

Í nýlegu viðtali í hlaðvarpsþættinum Happy.Sad.Confused á MTV sagði Sorkin að nú væri rétti tíminn. Handritshöfundur myndarinnar er ekki einn á því og segir Scott Rudin, framleiðandi hjá Sony, hafi ítrekað beðið um nýja mynd.

„Ég vil sjá aðra mynd, Scott vill sjá aðra mynd. Fólk í iðnaðinum hefur verið að ræða þetta mikið og nú í dag höfum við uppgötvað myrku hlið Facebook,“ segir Sorkin í hlaðvarpsþættinum.

Sorkin hefur gefið í skyn að ýmislegt standi til boða í framhaldssögunni hvað efnistök varða, enda hefur Zuckerberg sætt mikla gagnrýni á undanförnum árum.

Á meðal dæma má nefna þegar bandarísk þingnefnd yfirheyrði auðkýfinginn í margar klukkustundir vegna persónuupplýsinga rúmlega 80 milljóna Facebook notenda sem komust í hendur starfsmanna fyrirtækis. Þessar upplýsingar voru til að mynda notaðar til að hafa áhrif á úrslit bandarísku forsetakosninganna.

Hlutabréf Facebook lækkuðu einnig á þessu ári eftir að rúmlega 400 stórfyrirtæki tilkynntu að þau myndu ekki auglýsa framar á miðlinum. Var þetta gert til að sýna andstöðu við því hversu lítið var gert til að bregðast við birtingu kynþáttafordóma og hatursáróðurs án athugasemda.

Liðin eru 10 ár frá útgáfu The Social Network og sló myndin verulega í gegn. Hún halaði inn hátt í 230 milljónir Bandaríkjadali á heimsvísu og þykir það meira en næg ástæða að mati framleiðenda til að leggja í framhaldsmynd.

Myndinni var eftirminnilega leikstýrt af David Fincher og hlaut átta Óskarstilnefningar á sínum tíma, þar á meðal í flokki bestu kvikmyndar, besta leikstjóra og bestu kvikmyndatöku. Myndin vann þrjú verðlaun á þeirri hátíð, fyrir bestu frumsömdu tónlist, bestu klippingu og besta handrit sem byggt var á öðru efni.

Hér má sjá Aaron Sorkin í gestahlutverki í verðlaunamynd Finchers.