Ráðherrar og landsmenn með sterkar skoðanir á Ráðherranum

Sjónvarpsþátturinn Ráðherrann hóf göngu sína í síðustu viku við blendin en að mestu jákvæð viðbrögð. Nú hafa tveir þættir verið sýndir (og eru aðgengilegir á RÚV) og hefur serían verið á vörum margra landsmanna; áhorfenda, gagnrýnenda og ekki síst ráðamenn þjóðarinnar.

Í þáttunum fer Ólafur Darri Ólafsson með hlutverk háskólakennarans Benedikts Ríkarðssonar sem er dreginn inn í pólitík. Hann endar sem formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins og verður í kjölfarið forsætisráðherra Íslands. Eftir nokkra mánuði í starfi fer að bera á andlegum veikindum hjá honum og þá þarf samstarfsfólk hans að leggja stöðugleika ríkisins og einkalíf sitt að veði til að halda sjúkdómnum leyndum fyrir þjóðinni.


Eftir sýningu á öðrum þætti stóð ekki á tístum við myllumerkið #Ráðherrann.

Hér sjáum við ýmis dæmi:

https://twitter.com/FelixBergsson/status/1310336166567215109
https://twitter.com/arnaryonghojin/status/1310398355009409028

Fantasían í stjórnarráðinu

Ásgeir H. Ingólfsson, blaðamaður, skáld, bókmenntafræðingur og bíónörd, segir þættina búa einfaldlega til hreinræktaða fantasíu. Í umsögn sinni á Menningarsmygli skrifar Ásgeir um fyrstu tvo þættina og segir þar meðal annars:

„Það er hægt að fara ýmsar leiðir að því að gera skáldskap um stjórnmál. Það er hægt að reyna að gera hann raunsæann – sem kallar vitaskuld alltaf á að sumum flokkum mun finnast skáldskapurinn raunsær og öðrum ekki, eftir hversu vel þeir koma út. Svo er hægt að gera hreinræktaða fantasíu – og auðvitað allt þar á milli. Gryfjurnar eru kannski helst þær að gera þættina of ídealíska, eða fara alveg í hina áttina og teikna upp pólitík sem er tóm spilling og alveg laus við ídealisma. Allar leiðirnar bjóða samt sömu vandamálum heim; þátturinn er kominn á svið stjórnmálanna og verður túlkaður eftir því – öll óeðlilega jákvæð eða neikvæð sýn á einstaka flokka (eða skáldaða staðgengla þeirra) er jafnvel túlkað sem unnin eða töpuð atkvæði.“


Ráðherrar tjá sig„Þetta var mjög gaman“

Á dögunum hafði DV samband við ráðherra þjóðarinnar og kannaði hvort þátturinn hefði gefið raunsanna mynd af íslenskum stjórnmálum. Úttektina er að finna í heild sinni hér.

BjarnI Benediktsson fjármálaráðherra segist ekki þekkja baktjaldamakk eins og kemur bersýnilega fram í fyrsta þættinum. „Auðvitað hef ég aldrei orðið var við neitt svona baktjaldamakk í mínum flokki en hef heimildir fyrir því að svona samtöl eigi sér stað hjá hinum flokkunum,” segir Bjarni í úttektinni og hrósar framleiðslugæðum þáttarins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var hrifin af Ráðherranum og sagði frammistöðu Ólafs Darra vera einlæga og sannfærandi. Þá bætir Lilja við: „Hugmyndin að 90% kjörsókninni er snjöll og fannst orðræðan í kringum hana góð og trúverðug – stjórnmál snúast um þátttöku og að hreyfa við fólki! Það tókst vel!“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi hljóðvinnslu þáttarins og sagðist heyra aðeins annað hvert orð. Hann telur þáttinn ekki gefa raunsanna mynd af íslenskum stjórnmálum, en bætir þá við að það sé af hinu góða: „Væri hann raunsönn lýsing myndi það drepa áhorfendur úr leiðindum,“ segir Brynjar.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mælir með þættinum og sparar ekki stóru orðin þó annað eigi við um orðafjöldann. Hún segir:

„Þetta var mjög gaman.“