Ofurlögga í afneitun: Grínstikla verður að bíómynd

Tökur eru hafnar á nýrri grínhasarmynd í framleiðslu Pegasus með Auðunni Blöndal, Agli „Gillz“ Einarssyni og fleiri fræknum í aðalhlutverkum.

Það er þó ekki frásögur færandi nema myndin ber heitið Leynilögga (e. Cop Secret á ensku) og er byggð á samnefndri grínstiklu frá árinu 2011. Þar fóru ýmsir þjóðþekktir einstaklingar með gestahlutverk og má fastlega gera ráð fyrir að umrædd kvikmynd haldi sama stíl.

Kvikmyndin segir frá ofurlöggu í afneitun varðandi kynhneigð sína og verður hann ástfanginn af nýja félaga sínum á meðan þeir rannsaka undarleg bankarán þar sem engu virðist vera stolið.

Það er Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður og auglýsingaleikstjóri, sem er við stjórnvölinn og skrifar handritið ásamt Nínu Petersen og Sverri Þór Sverrissyni.

Grínstikluna má sjá hér: