Beðið eftir grænu ljósi á Sonic framhaldi

Bíómyndin um hraðskreiða broddgöltinn Sonic hefur reynst óstöðvandi enda myndin halað inn vænum upphæðum á aðsóknarlistum víða um heim. Alls hefur myndin sópað til sín rúmar 300 milljónir í Bandaríkjadölum á heimsvísu. Öruggt er að segja að þetta sé ein aðsóknarmesta kvikmynd fyrr og síðar sem byggð er á tölvuleik.

Þó hefur þetta ekki enn dugað til þess að framleiðendur leggi tafarlaust í framhaldsmynd. Leikstjóri fyrri myndarinnar sagði nýverið í viðtali við USA Today að hann bíði ólmur eftir grænu ljósi frá kvikmyndaverinu Paramount, að hann vonist til þess að snúa aftur enda úr nægu að taka þegar kemur að þessari tölvuleikjafígúru og næstu umferð hennar á hvíta tjaldinu.

„Það eru svo margar persónur sem við getum bætt við og fullt af sögum að segja. Fátt myndi gleðja mig meira en að fá annað tækifæri með þessum karakterum og leggja í aðra lotu,“ segir Fowler í viðtalinu.

Fyrri myndin var unnin í samstarfi við leikjafyrirtækið Sega en tölvuleikurinn hefur selst í meira en 140 milljónum eintaka um heim allan frá því að fyrsti leikurinn kom út árið 1991. Í Sonic the Hedgehog stjórnar maður hraðskreiðri persónu sem berst við hin illa Doctor Eggman. Verði framhaldsmynd að veruleika vonast aðdáendur til að Jim Carrey snúi aftur í hlutverki skúrksins, enda talinn vera mikill senuþjófur í kvikmyndinni.