10 ára starf Bíó Paradísar í vaskinn: „Við erum eins og Titanic-skipið”

Mikil óvissa hefur ríkt um rekstur Bíó Paradísar á síðustu vikum. Þegar tilkynnt var að kvikmyndahúsið myndi loka brugðust margir illa við og stuðningur barst úr ýmsum áttum. Upphaflega stóð til að skella í lás þann 1. maí en bíóinu var lokað þegar samkomubann tók gildi.

Nú er útlit fyrir að bíóið verði ekki opnað á ný og snör handtök þarf til að snúa þeirri þróun við.  Hrönn Sveinsdóttir framkvæmdastjóri segir í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2 að fimm starfsmenn standi eftir sem séu að klára að vinna uppsagnarfrest og væru í raun bara að pakka niður og ganga frá.

Hrönn segir þó að hún hafi trúað því að hið opinbera kæmi að borðinu til að tryggja starfsemi hússins.

„Við fengum yfirlýsingar á báða bóga frá ríki og borg að það væri mikill pólitískur vilji að leysa málið. Ég trúði því bara innilega að við værum búin að leysa málið löngu fyrir páska og þetta mál yrði leyst,” segir Hrönn, sem telur það mjög grátlegt að geta ekki haldið áfram þessu góða starfi.

„Ég er sjálf bara mjög hissa að við séum ekki komin á þann stað og við séum í raun og veru að láta tíu ára starf fara í vaskinn og á öskuhauga sögunnar sem eina listræna kvikmyndahús landsins sem starfaði í tíu ár og svo bara ekki söguna meira.”

Hrönn segir tímann til að bjarga starfseminni vera að renna út. „Við erum eins og Titanic-skipið, það er búið að flæða inn í allar lestirnar og skipið er að sökkva og það er orðið erfitt að snúa því við. Nema við höfum rosalega snör handtök akkúrat núna.

Ég verð bara að vera við öllu búin, auðvitað vil ég ekki sjá þetta fara bara til einskis, allt þetta starf sem við höfum unnið á Hverfisgötunni.”