Fleiri ganga til liðs við Superman

Leikstjórinn Zack Snyder dregur að sér leikara fyrir Superman mynd sína, Man of Steel, eins og enginn sé morgundagurinn. Nú þegar hefur hann fengið leikara á borð við Kevin Costner, Russell Crowe og Amy Adams til að taka að sér aukahlutverk í myndinni, en nýlega var staðfest að Christopher Meloni hefði gengið til liðs við framleiðsluna.

Meloni, sem er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt í þáttunum Law & Order: Special Victims Unit, vildi ekki gefa upp hvert hlutverkið væri í viðtali við vefsíðuna Vulture, en gaf þó í skyn að um væri að ræða yfirmann í bandaríska hernum.

Bretinn Henry Cavill fer með hlutverk Ofurmannsins á meðan Michael Shannon leikur hin illa Zod í Man of Steel, en tökur á myndinni eru sagðar hefjast innan skamms.