Ferrell verður gamlinginn sem skreið út um glugga

Gerð var vinsæl kvikmynd eftir gamansögu sænska rithöfundarins Jonas Jonasson, Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf, eða The 100-Year-Old Man Who Climbed Out The Window, eins og hún heitir á ensku, árið 2013. Nú hefur Hollywood fengið áhuga á sögunni, og það er enginn annar en grínistinn Will Ferrell sem mun leika gamlingjann.

Samkvæmt Empire kvikmyndavefnum þá er ekki um hreina endurgerð af sænsku kvikmyndinni að ræða, heldur mun verða leitað fanga í frumgögnunum sjálfum, þ.e. bókinni, sem kom út árið 2012, og hefur selst í meira en 10 milljón eintaka um allan heim.

Eins og segir í söguþræði upphaflegu myndarinnar flýr hinn 100 ára Allan Karlsson frá elliheimilinu á 100 ára afmælisdegi sínum. Ekki líður á löngu uns hann er kominn í hreint ævintýralegar og oft sprenghlægilegar aðstæður en um leið er ævisaga hans og fortíð rifjuð upp. Í ljós kemur að Allan á enga venjulega ævi að baki heldur hefur hann hitt og haft áhrif á marga helstu lykilmenn síðari tíma, svo sem Franco, Harry S. Truman Bandaríkjaforseta, Stalín, Maó Tse Tung, Albert Einstein, leiðtoga Norður-Kóreu, Kim II Sung, Winston Churchill og fleiri.

Svo virðist sem Jonasson sé sáttur við Hollywood myndina. „Persónan mín, Allan, veit hvernig það er að vera fyndinn á áreynslulausan hátt,“ sagði höfundurinn í yfirlýsingu sem Variety birtir. „Það er nokkuð sem Will Ferrell er meistari í. Góður húmor á lágstemmdan hátt. Ég er ánægður að Allan er nú í hans höndum.“

Næsta mál á dagskrá er að finna leikstjóra fyrir myndina.