Facebook tvíburar sáttir við The Social Network

Facebook tvíburarnir, Cameron og Tyler Winklevoss, sem koma mikið við sögu í Facebook bíómyndinni The Social Network, segja að í myndinni sé sagt satt og rétt frá aðdragandanum að stofnun Facebook.

Bræðurnir sem eru 29 ára eineggja tvíburar, eiga í málaferlum við Facebook og segja að þeir hafi átt hugmyndina að Facebook þegar þeir voru nemendur við Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Þeir sögðu í samtali við Reuters vera ánægðir með hvernig þeir eru túlkaðir í myndinni.

„Myndin greinir vel frá þeim atburðum sem gerðust á 18 mánaða meðgöngutímabili Facebook. Þetta er sönn saga,“ segir Cameron í viðtali.

Þrátt fyrir þetta þá hittu þeir aldrei handritshöfundinn Aaron Sorkin, né Ben Mezrich, sem skrifaði bókina sem myndin er byggð á.

„Við stóðum alveg fyrir utan þetta. Við vonuðum það besta. En okkur létti þegar við sáum myndina,“ bætti Cameron við.

Í myndinni er brugðið upp atvikum sem unnin eru upp úr kærumálum sem Winklevoss tvíburarnir hafa höfðað á hendur Mark Zuckerberg forstjóra Facebook, sem og kærumáli sem meðstofnandi Facebook, Eduardo Saverin, höfðaði á hendur Zuckerberg.

Báði málin enduðu með samningum, þar sem tvíburarnir og Saverin fengu greidda ótilgreinda peningaupphæð. Tvíburarnir tóku málið upp á nýju og halda því nú fram að þeir hafi fengið rangar upplýsingar um raunverulegt virði vefsíðunnar.

Tvíburarnir voru um helgina í Cambridge í Massachusetts að undirbúa róðrarkeppni á Charles ánni, sem skiptir Boston og Cambridge í tvennt.

Tvíburarnir eru þekktir róðrarmenn og hafa sérhæft sig í keppni á tveggja manna bátum, og lentu í sjötta sæti á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Þeir vöktu ekki mikla athygli fyrir það, en eru nú orðnir heimsfrægir eftir frumsýningu The Social Network.

Í myndinni er Mark Zuckerberg sýndur sem félagsfælinn tölvunörd sem Winklevoss bræður ráða til að ljúka smíði samskiptasíðu á netinu.

Í myndinni tekur Zuckerberg starfið að sér, en gerir í staðinn sína eigin vefsíðu, sem hann kallar The Facebook. Zuckerberg hefur sagt að myndin sé ónákvæm.

Tvíburarnir fengu sér ekki Facebook aðgang fyrr en árið 2008, en gerðu það þá til að vera í sambandi við vini sem þeir hittu á Ólympíuleikunum.