Engin Blunt í Sicario 2 – en afhverju?

emily-blunt-sicarioHandritshöfundur Soldado, öðru nafni Sicario 2, ákvað að sleppa persónu Emily Blunt, Kate Macer, úr myndinni, en hún var aðalleikari fyrri myndarinnar. Meðleikarar hennar, þeir Benicio Del Toro og Josh Brolin snúa báðir aftur í Soldado.

„Þetta var mín ákvörðun, og ég þarf að ræða það nánar við hana við tækifæri,“ sagði handritshöfundurinn Taylor Sheridan við TheWrap. „Umbreytingu persónu hennar var lokið … Ég fann enga leið til að skrifa persónu sem var henni til sóma.“

Blunt lék í myndinni alríkislögreglumann sem dróst inn í grjóthart umhverfi eiturlyfjaviðskipta, þar sem hún lagði hönd á plóg við að uppræta eiturlyfjahring, og komst að því hvernig kollegar hennar þurftu oft að nota óhefðbundnar aðferðir til að ná markmiðum sínum.

„Sjáðu hvað hún gekk í gegnum. Þetta var erfitt hlutverk,“ bætti Taylor við. „Ég skrifa þessa aðalpersónu og nota hansa svo sem hlutgervingu fyrir áhorfandann. Ég geri hana algjörlega óvirka gegn hennar eigin vilja, þannig að áhorfendanum finnst hann jafn getulaus og margir lögregleglumenn upplifa sig, ég dreg hana til helvítis, og svík hana í lokin. Þetta var erfitt ferðalag fyrir persónuna, og fyrir Emily. Þessi persóna átti sér sitt umbreytingarskeið.“

„Og hvað gerir maður næst? Hún flytur kannski til lítils bæjar og verður lögreglustjóri og er síðan rænt, og þá erum við komin með Taken?  Ég varð að segja sögu sem var sönn þessu hlutverki, og mér fannst ég ekki geta skapað neitt með þeim persónueinkennum, sem gætu bætt einhverju við heim persónunnar svo sómi væri að. En það er ekki þar með sagt að Kate gæti ekki komið við sögu síðar meir.“

Leikstjóri myndarinnar er Suburra leikstjórinn Stefano Sollima, en hann tekur við keflinu af Denis Villeneuve.