Endirinn átti að vera öðruvísi

Leikstjórinn Rob Reiner hefur opinberað að örlög aðalpersóna kvikmyndarinnar When Harry Met Sally, þeirra Harry, sem Billy Crystal leikur, og Sally, sem Meg Ryan leikur, hafi átt að vera akkúrat öfugt við það hvernig myndin endaði í raun og veru.

Í samtali við People TV’s Couch Surfing, sagði Reiner að allt þar til undir blálokin, hafi myndin átt að enda þannig að þau myndu ekki enda saman sem par.

„Ég var einhleypur í tíu ár og það var allt í rugli hjá mér í einkalífinu. Ég fór úr einu sambandi í annað, og ekkert gekk,“ sagði hann.

„Í þeirri útgáfu handritsins sem við ætluðum að nota, þá enda þau ekki sem par, Harry og Sally. Þau hittast nokkrum árum síðar, og fara síðan hvort sína leið.“

Reiner hitti eiginkonu sína Michelle Singer við tökur kvikmyndarinnar, og það átti sinn þátt í því að hann og handritshöfundurinn Nora Ephron skiptu um skoðun. „Við breyttum endinum á þann veg sem myndin endar í lokaútgáfunni.“

When Harry Met Sally var frumsýnd árið 1989, og tekjur hennar í miðasölunni urðu 92,8 milljónir bandaríkjadala, en kostnaður einungis 16 milljónir dala.

Myndin er enn í dag ein sú best þekkta af öllum myndum Ryan og Crystal, en einnig kom Carrie Fisher, sem þekktust er fyrir hlutverk sitt í Star Wars sem Lilja prinsessa, fyrir í eftirminnilegu hlutverki.

Myndin er enn með 90% í einkunn á Rotten Tomatoes vefsíðunni, og fékk á sínum tíma tilnefningu til Óskarsverðlauna og fimm Golden Globe verðlauna.

Atriðið í myndinni þar sem Ryan, í hlutverki Sally, leikur það þegar hún er að gera sér upp fullnægingu á veitingastað fullum af fólki, er enn eitt af minnisstæðustu atriðum kvikmyndasögunnar.

Ephron sagði í viðtali árið 2004 að atriðið hefði verið hugmynd Ryan, og sagði að þegar prufusýningar á myndinni hafi hafist þá hafi konur skellihlegið en karlmennirnir setið hljóðir hjá.

Reiner hefur sagt að atriðið hafi verið tekið upp margsinnis, og Ryan hafi þurft að gefa sér upp fullnæginguna klukkutímum saman.