Emma Stone verður kærasta Peter Parker

Nýstirnið Emma Stone hefur landað hlutverki í nýju Spiderman myndinni sem frumsýna á árið 2012. Stone er 22 ára og hefur leikið í myndum eins og Zombieland og Easy A, sem var frumsýnd nú í september.

Stone mun leika aðalkvenhlutverkið í myndinni, hlutverk Gwen Stacy, að því er fram kemur í tilkynningu frá Columbia Pictures kvikmyndaverinu.

Stacy var aukapersóna í upprunalegu teiknimyndasögunum um Spiderman og kom fram í Spiderman 3 myndinni, en var þá túlkuð af leikkonunni Bryce Dallas Howard. Í nýju myndinni hefur persóna Stacy verið poppuð upp í lykilhlutverk.

Emma Stone er enginn nýgræðingur þegar kemur að leikstörfum, en hún hefur leikið síðan hún var barn að aldri í Arizona og í Hollywood hefur hún verið ein heitasta unga leikkonan þar í bæ síðustu misserin.

Stone hefur leikið í sjónvarpsþáttum eins og The New Partridge Family og allt upp í kvikmyndasmelli eins og Superbad. Stone mun birtst í nokkrum kvikmyndum sem áætlað er að frumsýna á næsta og þarnæsta ári.

Spiderman serían hefur rakað inn peningum og síðustu þrjá myndir með þeim Tobey Maguire sem Peter Parker og Kirsten Dunst sem kærasta hans, þénuðu 2,5 milljarða Bandaríkjadala um heim allan.

Í janúar sl. ákvað Sony fyrirtækið að hætta við að gera Spiderman 4 og ákvað í staðinn að hoppa til baka, og byrja upp á nýtt þegar Peter Parker er enn í framhaldsskóla, með nýjan leikara í hlutverki ofurhetjunnar, hinn lítt þekkta Andrew Garfield.

Að sjálfsögðu verður myndin í þrívdd, og verður frumsýnd 3. júlí 2012.

Það er reyndar varla rétt að segja að Garfield sé „lítt þekktur“ lengur, þar sem hann leikur eitt aðahlutverkið í myndinni The Social Network, sem fór rakleiðis á toppinn í Bandaríkjunum um síðustu helgi og Kvikmyndir.is forsýndi í síðustu viku.

Andrew Garfield.