Eldgos og risaeðlur

Chris Pratt og Bryce Dallas Howard snúa aftur í hlutverkum sínum í framhaldsmyndinni Jurassic World: Fallen Kingdom. Myndin verður frumsýnd 22. júní næstkomandi og er búist við myrkari tón en í fyrri myndinni. Leikstjórinn er J.A. Bayona og er hann hvað þekktastur fyrir þættina Penny Dreadful og hryllingsmyndina The Orphanage.

Ný kitla úr myndinni var opinberuð í dag og má segja að hasarinn sé í hámarki. Kitlan hefst á því að Owen Grady (Pratt) hleypur úr skóglendi og gefur skýr fyrirmæli um að fólk eigi að hlaupa eins og fætur toga. Eftir það sjáum við allskyns tegundir af risaeðlum í eftirdragi hans og spúandi eldgos í bakgrunni. Kitlan er í styttri kantinum, en fyrsta stikla myndarinnar er væntanleg á fimmtudaginn næstkomandi.

Kitluna má sjá hér í spilaranum fyrir neðan. Framhaldsmyndin skartar einnig leikurunum James Cromwell, Ted Levine, Justice Smith, Geraldine Chaplin, Daniella Pineda, Toby Jones, Rafe Spall, BD Wong og Jeff Goldblum.