Eiður Baltasars heimsfrumsýnd í Toronto

Eiðurinn, nýjasta kvikmynd Baltasars Kormáks, verður heimsfrumsýnd á hinni virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð í Toronto. Myndin verður sýnd í Special Presentations hluta hátíðarinnar. Toronto hátíðin fer fram frá 8. – 18. september.

oath eiðurinn

Eiðurinn segir af hjartaskurðlækninum Finni sem þykir skara fram úr í starfi sínu. Þegar hann áttar sig á að dóttir hans er komin í neyslu og kynnir þekktan dópsala fyrir fjölskyldunni sem nýja kærastann, koma fram brestir í einkalífinu. Finnur ákveður að taka í taumana og er staðráðinn í að koma dótturinni á réttan kjöl, hvað sem það kostar.

Baltasar Kormákur leikstýrir og skrifar handritið að Eiðinum ásamt Ólafi Agli Egilssyni. Magnús Viðar Sigurðsson og Baltasar Kormákur framleiða myndina fyrir RVK Studios. Í aðalhlutverkum eru Baltasar Kormákur, Hera Hilmarsdóttir og Gísli Örn Garðarsson. Óttar Guðnason sér um stjórn kvikmyndatöku, klipping er í höndum Sigvalda J. Kárasonar og Hildur Guðnadóttir semur tónlist myndarinnar. Sölufyrirtæki myndarinnar á alþjóðavísu er XYZ Films.

Um er að ræða fyrsta leikarahlutverk Baltasars Kormáks síðan hann lék í kvikmynd Óskars Jónassonar, Reykjavík Rotterdam, árið 2008.

Eiðurinn verður frumsýnd hérlendis þann 9. september næstkomandi, um sömu helgi og hún verður heimsfrumsýnd á Toronto hátíðinni.