Eastwood ekkert á þeim buxunum að hætta

Þrátt fyrir að lifandi goðsögnin Clint Eastwood verði 83 ára gamall í næsta mánuði þá er hann ekkert á þeim buxunum að hætta að leikstýra kvikmyndum.

Eastwood hætti þó opinberlega að leika í kvikmyndum árið 2008. Sú ákvörðun var ekki lengi að snúast við, því Eastwood snéri aftur á hvíta tjaldið í kvikmyndinni Trouble With The Curve sem var frumsýnd á síðasta ári.

„Það væri gaman að vera enn að aldargamall“ segir Eastwood í nýlegu viðtali og segir jafnframt að það sé ekki of bjartsýnt að líta svo á.

Eastwood ræðst ekki á garðinn sem hann er lægstur fyrir næsta verkefni sitt, því þar ætlar hann að leikstýra söngleiknum, Jersey Boys.