Dreymdi um að verða leikari fjögurra ára

Tom Cruise dreymdi fyrst um að verða kvikmyndastjarna þegar hann var aðeins fjögurra ára.

Leikarinn fimmtugi segir það forréttindi að geta notið vinnunnar sinnar svona mikið. „Það er alltaf spennandi að skapa nýjar persónur og geta upplifað drauminn með því að ferðast um heiminn og hitta nýtt fólk og kynnast nýrri menningu,“ sagði Cruise við Breakingnews.ie.

„Það eru mikil forréttindi fyrir mig að gera eitthvað sem ég elska. Ég man þegar ég var fjögurra ára og dreymdi um að leika í bíómyndum. Þetta er frábært líf.“

Cruise sést næst í myndinni Jack Reacher sem er byggð á skáldsögum Lee Child.  „Jack er frábær persóna. Ég hef lesið allar bækurnar og Lee hefur skrifað ótrúlegan karakter. Þess vegna var mjög gaman að leika hann.“