Cool Runnings besta meðalið gegn skammdegisdrunga

Ólympíu gamanmyndin Cool Runnings,  með John Candy í aðahlutverkinu, hefur verið valin  notalegasta kvikmynd allra tíma, í könnun sem gerð var á meðal kvikmyndaunnenda.

Myndin er byggð á sönnum atburðum þegar bobsleðalið frá Jamaíku keppti á vetrarólympíuleikunum í Calgary í Kanada árið 1988.

10% þátttakenda í könnuninni völdu þessa mynd sem þá bestu til að hressa upp á sálartetrið í skammdeginu.

Í öðru sæti varð Stephen King dramað The Shawshank Redemption, sem margir telja að sé ein besta kvikmynd allra tíma, en 9% þátttakenda völdu hana. Í þriðja sæti varð svo myndin um einfeldninginn og snillinginn Forrest Gump, en myndin fékk 8% atkvæða.

Í fjórða sæti varð Amelie með Audrey Tautou í hlutverki hinnar bjarteygu þjónustustúlku frá París, og á eftir henni kom hin sígilda Ferris Bueller’s Day Off.

Þátttakendur í könnuninni voru um 3.000 talsins, og var könnunin framkvæmd af vídeóleigunni  LOVEFiLM í Bretlandi.

Ritstjóri vídeóleigunnar, Helen Cowley, segir að fátt sé betra við skammdegisdrunganum, en að horfa á notalega mynd sem lyftir andanum og lætur manni líða vel.

Hér að neðan er listi 10 notalegustu myndanna samkvæmt könnuninni:

1. Cool Runnings – 10%.

2. The Shawshank Redemption – 9%.

3. Forrest Gump – 8%.

4. Amelie – 7%.

5. Ferris Bueller’s Day Off – 6%.

6. Little Miss Sunshine – 5%.

7. Dirty Dancing – 4%.

8. Groundhog Day – 3%.

9. It’s A Wonderful Life – 2%.

10. Pretty Woman – 1%.

Aðrar  – 45%.