Clint Eastwood að leika aftur?

Það þarf ekki að kynna Clint Eastwood fyrir neinum, enda er hann ein af goðsögnum Hollywood og hefur gengið jafn vel sem leikstjóri og leikari, jafnvel betur. Árið 2008 lék hann í myndinni Gran Torino, sem hann leikstýrði einnig, og tilkynnti að þetta yrði líklega síðasta skiptið sem hann myndi leika í kvikmynd. Eins og flestir ættu að vita hefur leikstjóraferill hans blómstrað síðan og er nýjasta mynd hans, J. Edgar, væntanleg á næstunni. Það virðist þó sem að hann muni snúa sér aftur að því að leika þar sem hann stendur nú í viðræðum við Warner Bros. um að leika aðalhlutverkið í myndinni Trouble with the Curve.

Myndin mun fjalla um aldraðan útsendara fyrir hafnaboltalið sem er hægt og rólega að missa sjónina. Hann fer með dóttur sinni í eitt loka ferðalag til Atlanta til að skoða ungan hafnaboltaséní. Myndinni verður síðan leikstýrt af gömlum kollega Eastwoods, Robert Lorenz, og skrifuð af Randy Brown. Enn er engin leikkona komin fyrir hlutverk dótturinnar.

Auðvitað er ekkert staðfest að svo stöddu, en það væri engu að síður frábært að sjá kallinn aftur í aðalhlutverki.