Christian Bale orðaður við Steve Jobs

Christian_Bale_2009Leikarinn Christian Bale er orðaður við hlutverk Steve Jobs í nýrri kvikmynd um stofnanda Apple.

Leikstjórinn David Fincher er í viðræðum um að gera kvikmyndina og yrði hún byggð á ævisögu Jobs, eftir Walter Isaacson. Bókin hefur selst í bílförmum og var stórfyrirtækið Sony ekki lengi að eigna sér kvikmyndaréttinn. Fincher er sagður hafa gefið Sony úrslitakost sem hljóðar svo að hann leikstýri ekki myndinni nema að Bale leiki aðalhlutverkið.

Bale sást nýverið í kvikmyndinni American Hustle og var hann tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt sem svikahrappurinn Irving Rosenfeld.

Það er ekki langt síðan kvikmyndin Jobs, með Ashton Kutcher í titilhlutverkinu var frumsýnd. Myndinni var ekki vel tekið og var Kutcher tilnefndur til Razzie-verðlauna fyrir frammistöðu sína. Búist er við allt öðruvísi nálgun frá meistara Fincher á viðfangsefnið og á hann að baki kvikmyndir á borð við Seven, Fight Club og Zodiac.