Í kapphlaupi við tímann með dauðann á sveimi

„Heimildamyndagerð gengur auðvitað að verulegu leyti út á að vera alltaf tilbúinn til að bregðast við hinu óvænta. Maður leggur af stað með einhverja óljósa hugmynd í kollinum sem vex, þroskast og dafnar eftir því sem á líður. Hún tekur jafnvel algjörum umskiptum í miðju ferli.“

Svo mælir Jón Bjarki Magnússon, leikstjóri og handitshöfundur heimildarmyndarinnar Hálfur Álfur. Umrædd mynd verður tekin til sýninga í Bíó Paradís 25. mars nk. Þar segir frá vitaverðinum Trausta, sem tengist sínum innri álfi á meðan hann undirbýr hundrað ára afmælið eða eigin jarðarför. Á sama tíma hörfar Hulda, eiginkona hans, inn í heim horfinna ljóða. Þegar hann brestur í söng skipar hún honum að hætta þessum öskrum.

Í Hálfum Álfi er lífinu fagnað, þrátt fyrir þann veruleika sem bíður okkar allra. Heimildarmyndin hefur hlotið jákvæðar viðtökur. Hún hlaut t.a.m. dómnefndarverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar sem haldin var síðastliðið haust. Sagði í niðurstöðu dómnefndar að hér væri á ferðinni sterk, einlæg og heilsteypt saga; mynd sem hrífur mann með sér frá fyrstu mínútu og vekur upp bæði hlátur og grátur. Þess má geta að afi og amma Jóns Bjarka eru viðfangsefni myndarinnar, en myndina framleiðir hann ásamt unnustu sinni Hlín Ólafsdóttur, sem semur einnig tónlistina í verkinu.

Í samtali við Kvikmyndir.is segir kvikmyndagerðarmaðurinn að hugmyndin hafi kviknað skömmu eftir að hann hóf meistaranám í sjónrænni mannfræði við Freie Universitat í Berlín haustið 2016. „Ég hafði stundað það í nokkur ár að heimsækja þau gömlu með upptökutæki í hendi, í þeim tilgangi að safna ýmsum sögubrotum. Það leiddi síðar til þess að ég tók lítið viðtal við þau, sem birtist í Stundinni sumarið 2015, ásamt einstaklega fallegri ljósmyndaseríu Kristins Magnússonar, sem fylgdi þeim eftir brot úr degi,“ segir Jón Bjarki og bætir við:

„Það má segja að ég hafi, rétt eins og margir aðrir sem þekktu til þeirra, heillast af því hversu léttúðlega þau umgengust lífið þrátt fyrir háan aldur. Þegar kom svo að því að velja lokaverkefni í náminu lá einhvern veginn beinast við að taka þetta alla leið og reyna að festa daglegan veruleika þeirra á filmu. Og þegar ég var lagður af stað var engin leið að hætta við eða hægja á, enda alls óvíst hversu lengi þau yrðu á meðal okkar. Afi var 98 ára og amma 95 þegar tökur hófust og verkefnið allt því eins konar kapphlaup við tímann.“

Brotabrot af veröld þeirra

Jón Bjarki segir það hafa runnið upp fyrir sér að þetta fólk sem hafði verið svo stór hluti af lífi hans alla tíð væri við það að hverfa, að dagarnir þar sem afi hans færi í göngutúr um hverfið á meðan amma hans pantaði vörur úr Rangá væru brátt liðnir. Að einn daginn yrði kjallaraíbúðin þeirra í Austurbrún tóm og þau ekki lengur á meðal okkar. Heil öld af lífsreynslu farin, horfin og kæmi aldrei aftur.

„Það var eitthvað gríðarlegt mikilvægi falið í því að reyna að fanga, þó ekki væri nema brotabrot af veröld þeirra, áður en það yrði um seinan. Og öðrum þræði fór ég að líta á það sem ég var að gera sem einskonar sagnfræði. Þau báru með sér síðustu svipmyndirnar af veröldinni eins og hún hafði verið þegar þau voru að vaxa úr grasi fyrir nærri því öld síðan,“ segir Jón Bjarki.

„Þetta birtist í hinum ýmsu smáatriðum, en kannski sérstaklega eftir því sem þau fóru að sækja meira í bernskuna, amma í gegnum ljóðin og afi í gegnum álfana og steinana. Þannig fannst mér á stundum eins og að ramminn fyrir framan mig yrði eins og litmynd af strák sem væri að leika sér árið 1925, en ekki 2018.

Á meðan ég var að taka mín fyrstu skref í að beita myndavél og hljóðnema með þessum hætti leið líf þeirra afa og ömmu áfram. Ég fann að ég þurfti að hafa mig allan við til negla þessi augnablik sem birtust skyndilega eins og upp úr þurru og yrðu aldrei endurtekin.“

Kvikmyndagerðarmaðurinn eða barnabarnið?

Þá lýsir Jón Bjarki örlagaríkum degi þegar hann var á rúntinum nálægt íbúð ömmu sinnar og afa. Markmiðið segir hann hafa verið að safna umhverfisstillum fyrir myndina þegar hann sá gamlan mann á vappi með göngustafina sína. „Ég áttaði mig fljótlega á því að þar fór afi askvaðandi svo ég gerði vélina klára í snarhasti og fékk að elta hann á göngunni. Úr varð mikið ævintýr þar sem afi lagðist á einn bekkinn í hverfinu, raulaði og sagði sögur. Ég var nýbúinn að stilla vélinni upp á þrífæti og finna réttan ramma þegar köttur vappaði inn í senuna og tók til við að leika sér við afa. Úr varð allsherjarsinfónía sem krafðist þess eins af mér að hreyfa ekki við myndavélinni. Að þessu öllu loknu sagði afi við mig að þetta væri eflaust verðmætasta skotið sem við hefðum náð til þessa, algjört milljón dollara skot,“ segir Jón Bjarki.

En svo var dauðinn líka þarna á sveimi og það bíður auðvitað upp á töluverða óvissu að stunda heimildamyndagerð í nálægð hans. Afi veiktist til dæmis heiftarlega á meðan á ferlinu stóð og var lagður inn á spítala nær dauða en lífi. Ég var staddur í Vínarborg þegar þetta gerðist og var kominn til Íslands nokkrum dögum síðar. Á svona stundum þurfti ég að vega og meta í hvaða hlutverki ég væri, hlutverki kvikmyndagerðarmannsins eða barnabarnsins og aðstandandans. Í þessu tilviki lagði ég myndavélina á hilluna til þess að vera til staðar fyrir hann.“

„…það magnaðasta sem ég hef fengist við“

Jón Bjarki útskrifaðist með BA í ritlist úr Háskóla Íslands árið 2012 og vann lokaverkefnið sitt þar undir handleiðslu Sigurðar Pálssonar og gaf í kjölfarið út ljóðabókina Lömbin í Kambódíu (og þú), sem byggði á lokaverkefninu. Þá hefur hann starfað í blaðamennsku í yfir áratug, fyrst á DV og svo á Stundinni. Síðustu ár hefur heimildamyndagerðin hins vegar átt hug hans allan og vonast hann til þess geta lagt áfram rækt við hana.

Kvikmyndagerðarmaðurinn er þó fjarri því að vera á upphafsskrefunum á sínum ferli því hann hefur áður gefið út heimildarmyndina Even Asteroids are Not Alone, sem fumsýnd var á alþjóðlegu heimildamyndahátíðinni Ethnocineca árið 2018. Sú mynd fjallar um það hvernig vinátta og traust myndast í íslenska fjölspilunartölvuleiknum EVE Online. Hundruðir þúsunda leikmanna stunda viðskipti og berjast hver við annan í tölvugerðum vetrarbrautum langt, langt í burtu frá heiminum eins og við þekkjum hann.


Þar sem þú hefur áður skoðað félagstengsl í fjölspilunarheimum, með áherslu á að skoða staðalmyndir; hvaða þemu heilluðu þig mest við þetta verkefni, út frá sjónarhorni og reynslu mannfræðinnar?

„Ég myndi segja að það hafi verið ellin annars vegar og dauðinn hins vegar. Mannfræðingar hafa margir hverjir bent á það hvernig aldraðir einstaklingar eru jaðarsettir í nútímasamfélagi. Eftir því sem fólk verður eldra þá fjara andlit þeirra af skjánum og raddirnar hverfa úr útvarpinu. Þannig er veruleiki gamals fólks oft á tíðum falinn og ekki mjög sýnilegur.

Okkur Hlín þótti áhugavert að beina kastljósinu að hinum daglega veruleika aldraðra íslenskra hjóna og leitast við að miðla því sem þau væru að ganga í gegnum á þessum tímamótum í lífi sínu. Hvað bærðist um í höfði þeirra? Hvernig hreyfðu þau sig um heiminn? Hverjir voru draumar þeirra, langanir og þrár? Og hvernig upplifðu þau að lifa lífinu í svo mikilli nálægð við dauðann sem bankaði á dyrnar?

Sem leiðir mig að hinu þemanu, dauðanum, sem er auðvitað líka töluvert falinn í nútímasamfélagi. Við vitum að hann bíður okkar allra á endanum en forðumst að hugsa um það, skiljanlega. Okkur þótti einstaklega áhugavert að sjá hvernig fólk af þessari kynslóð sem er nú að hverfa umgekkst dauðann. Afi var búinn að kaupa líkkistuna og var á fullu í því að undirbúa jarðarförina á meðan amma býsnaðist yfir stjórnseminni í karli. Það var eitthvað við það hvernig þau ræddu þessi mál sín á milli sem vakti athygli mína og ég vildi skoða nánar. Þarna birtist einhver leikandi léttúð en að sama skapi harðneskjuleg sýn á það sem koma skyldi. Það væri ekkert við því að gera, þau myndu brátt deyja „og ormarnir éta mann“ eins og afi komst svo oft að orði.

Í því samhengi þótti mér mikilvægt að sjónarhorn verksins kæmi innan frá, ef svo má segja, það myndi fæðast og verða til með þeim og vaxa út frá þeim, en ekki þeim fyrirframgefnu hugmyndum sem ég hefði um þau. Besta leiðin til þess að svo mætti verða var einfaldlega að beita klassískum aðferðum mannfræði og heimildamynda, þar sem ég dvaldi langdvölum á heimili þeirra og viðvera mín varð smám saman eðlilegur hluti af heimilislífinu. Þannig fór ég smám saman að taka eftir ýmsum ólíkum þráðum sem mér þótti erfitt að festa hendur á í fyrstu, en urðu síðar meir ríkulegt efni í þann mikla vefnað sem allt klippiferlið var.“

Hálfur Álfur var unnin án allra utanaðkomandi styrkja, fyrir utan hópfjármögnun á Karolina Fund sem dugði fyrir eftirvinnslunni. „Það reyndi verulega á að klára svona mynd, svo gott sem án alls fjármagns. Ég vonast til þess að geta sótt um einhverja styrki fyrir næsta verkefni,“ segir Jón Bjarki og heldur áfram:

„Heimildamyndagerð er eitthvað það magnaðasta sem ég hef fengist við og mig dreymir um að gera fleiri myndir.“