Mikilvægt að stíga út fyrir þægindarammann

„Ég held að ég hafi ákveðið að fara út í kvikmyndabransann þegar ég sá Evil Dead 2 og síðan ákveðið að leggja áherslu á handritaskrifin þegar ég sá Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Tarantino spilar þarna stórt hlutverk líklegast líka.“

Svo mælir Natan Jónsson, handritshöfundur og leikstjóri, sem rifjar upp fyrstu spor sín í átt að draumafagi sínu í kvikmyndagerð.

Natan útskrifaðist af leikstjórnar- og framleiðslubraut úr Kvikmyndaskóla Íslands árið 2012 og hefur síðan þá skrifað og leikstýrt tveimur stuttmyndum auk þess að hafa unnið hin ýmsu störf í kvikmyndaiðnaðinum.

Stuttmyndin Rimlar, sem er skrifuð og leikstýrð af Natani, er aðgengileg gegnum YouTube en þar segir frá ungu pari, þeim Daníel og Árnýju, sem eiga von á frumburði sínum. Hjá þeim ríkir mikil tilhlökkun fyrir því að fæða nýjan einstakling í heiminn. Fer þó allt á versta veg í fæðingunni og eftir sitja þau með brostna drauma sína.

Missirinn tekur mikið á sálarlífið hjá þeim og fer að halla undan fæti í sambandinu. Þau kljást við missinn á mismunandi vegu en að lokum þurfa þau að ákveða hvort þau geti yfirstigið þessa sorg eða slíta samvistum.

Með helstu hlutverk fara þau Aðalsteinn Oddsson, Þórunn Guðlaugsdóttir og Elva Ósk Ólafsdóttir en afraksturinn má sjá hér að neðan.

Í samtali við Kvikmyndir.is segir Natan þetta verk hafa verið gott tækifæri til þess að vinna nánar með leikurum og kafa dýpra í þær marglaga og erfiðu tilfinningar sem oft fylgja sorginni.

„Sjálf sagan spratt ekki upp frá neinu sérstöku nema það að ég sá fyrir mér einstakling inni í herbergi að drekka og að berjast við það að bresta ekki í grát. Þannig ég spurði bara sjálfan mig hvað gæti hafa komið fyrir. Þegar ég náði að svara spurningunni fylgdi sagan strax í kjölfarið,“ segir Natan en þá snýr umræðan að leikendum myndarinnar.

„Ég var mjög heppinn með leikarana sem voru til í að hittast oft til þess að æfa þetta og voru dugleg að þróa karakterana.

Við náðum öll vel saman og settum síðan upp leikritið Samfarir Hamfarir tveimur árum seinna. Eitthvað sem ég bjóst aldrei við því að gera. En það er hollt og mikilvægt að stíga út fyrir þægindaramman sinn og uppgötva eitthvað nýtt um sig sjálfan,“ segir hann.

Næst á dagskrá hjá Natani eru tökur á hans fyrstu kvikmynd í fullri lengd. Þær fara fram í sumar og skrifar Natan handritið ásamt Sveinbirni Hjörleifssyni. „Nú erum við bara að leggja lokahönd á handritið en ég hlakka mikið til að tækla þetta verkefni,“ segir Natan.

Natan ásamt Björgvini Sigurðarsyni, tökumanni Rimla.