Lykilatriði að komast framhjá ofhugsun

„Sýnishorn [e. stiklur] geta komið flóknum hugmyndum til skila með sekúndubroti,“ segir Ólafur Jóhannesson, leikstjóri, framleiðandi og handritshöfundur. Þessa dagana býður hann upp á nýja fjarkennslu í kvikmyndagerð í gegnum menntunarvefinn SkillShare sem gengur út á smíði á einna mínútna stiklu.

Flestir þekkja manninn undir nafninu Olaf De Fleur, en hann hóf það ferli að bjóða upp á netkúrsa í fyrrahaust og hafa viðtökur gengið vonum framar. Í samtali við Kvikmyndir.is segir Ólafur það mikilvægt að geta gefið af sér í kennslu, að deila þeim brögðum og aðferðum sem hvert verkefni hefur gefið á ferlinum.

Ólafur hefur yfir tveggja áratuga reynslu í kvikmyndagerð og meðal annars leikstýrt myndunum Blindsker: Saga Bubba Morthens, The Amazing Truth About Queen Raquela, Africa United, Borgríki og framhaldi hennar. Þá hefur hann einnig unnið með stórrisunum hjá Netflix með spennutryllinum Malevolent frá 2018. Olad de Fleur er fyrstur íslenskra leikstjóra til að gefa út kvikmynd sem frumsýnd var á því streymi.

Leikkonan Florence Pugh (Midsommar, Little Women, Lady Macbeth) fer með aðalhlutverkið í Malevolent.

„Allir sem taka sér kvikmyndagerð eða skrif fyrir hendur eru með ólíka nálgun, en samt sem áður eru nokkur grunn-atriði sem virka alltaf, og það eru þau sem ég er að deila,“ segir Ólafur. „Það er svo oft sem ég rekst á fólk sem vill læra þessa list en vantar þessi grunn-verkfæri, og sökum þess, heldur að það geti ekki lært að skrifa eða gera kvikmyndir.

Það sem er mest gefandi er að sjá þegar nemendum tekst að komast út úr sköpunarskelinni og deila sinni rödd.“

Vegabréf í aðra heima

Ólafur hefur útbúið tvö námskeið en það fyrsta var ‘Learn Indie Filmaking by doing a Short Film“. Yfir tvö þúsund nemendur sóttu það námskeið og í ljósi áhugans stóðst kvikmyndagerðarmaðurinn ekki mátið að bæta öðru við: ‘The Art of Making Trailers’ – námskeið í trailer-gerð og er Ólafur með fleiri í pípunum.

Að sögn kvikmyndagerðarmannsins var það samansafn af hvatingu frá vinum og góðu umhverfi sem spilaði stórt hlutverk í hans seiglu og áhuga fyrir faginu. „Mér fannst allt sem ég gerði alltof skrítið, en svo eignaðist ég skrítna vini sem kunnu að meta þennan eiginleika.

Ofan á það, ef ég þyrfti að minnast á einhvern einn hlut sem spilaði og spilar lykilhlutverk í minni sköpun í dag, er það að muna að tálga mig sífellt niður í tegund af heimsku. Þegar ég geri það, þá kemst ofhugsun ekki að. Hún er of klár til að vera heimsk, þannig komast hugmyndir á blað og þá get ég metið þær. Lykilatriðið er að komast tímabundið framhjá þessum þröskuldi af ofhugsun,“ segir Ólafur.

„Ég fattaði það ekki þegar ég byrjaði, en seinna meir fór ég að skilja hvers vegna ég togaðist að þessu. Þessi kvikmyndagerð var og er vegabréfið mitt í aðra heima, bókstaflega og huglega.“

Hægt er að skrá sig á námskeiðið í gegnum þennan hlekk.