Viðtal við Ásu Helgu Hjörleifsdóttur kvikmyndagerðarkonu

Ása Helga Hjörleifsdóttir, kvikmyndagerðarkona, hefur hlotið verðskuldaða athygli á þekktum kvikmyndahátíðum víða um heim fyrir íslensku stuttmyndina Ástarsaga (2012) en kvikmyndin er útskriftarverkefni hennar frá kvikmyndagerðardeild Columbia háskóla í New York.

Ástarsaga hefur hvarvetna hlotið góðar viðtökur þar sem hún hefur meðal annars verið valin til sýningar á alþjóðlegu stuttmyndahátíðinni í Palm Springs í Kaliforníu sem er ein virtasta stuttmyndahátíð í heimi.  Myndin hefur fyrir utan það verið sýnd á yfir 20 hátíðum víða um heim, til að mynda á hinni virtu stuttmyndahátíð í Clermont-Fertrand í Frakklandi og komist í lokaúrslit fyrir nemenda-óskarinn í Bandaríkjunum en það eru Óskarsverðlaun í flokki útskriftarmynda úr skólum.  Myndin var frumsýnd hér á Íslandi á RIFF (Reykjavík International Film Festival) árið 2012 og fékk þar sérstaka viðurkenningu dómnefndar.

Í stuttu máli fjallar kvikmynd Ásu um parið Solange og Baldur og hefst myndin þegar Baldur hverfur skyndilega af heimili þeirra í New York og dúkkar upp í Reykjavík.  Solange ákveður að elta hann til Íslands en þegar þangað er komið er lítið um svör og við tekur enn stærri ráðgáta.

 Astarsaga1

Katherine Waterson í hlutverki Solange í Ástarsögu

Við heyrðum í Ásu og forvitnuðumst um velgengina sem kvikmynd hennar hefur hlotið og upplifun hennar af kvikmyndaiðnaðinum hér heima jafnt sem úti í heimi.

Ása, hvernig er ferlið frá hugmynd að kvikmynd allt til þess að hugmyndin verði að veruleika?

Í tilfelli Ástarsögu þá byrjaði ég að skrifa handrit í janúar 2010, en þá var ég á öðru ári (af fjórum) í skólanum. Á þeirri önn vann ég mikið í handritinu, og skaut einnig senur úr því sem leikstjórnaræfingu. Þá tók vinna og önnur skólaverkefni við um tíma, en ég var þó alltaf að hugsa um þessa ástarsögu.  Jólin 2010 fór ég aftur að vinna fyrir alvöru í handritinu, og hafði þá ákveðið að gera þessa mynd að útskriftarverkefninu mínu.

Ég var svo heppin að fá styrk frá Stofnun Leifs Eiríkssonar til að gera myndina, þannig að þegar handritið var tilbúið (um vorið 2011) gátu framleiðendur myndarinnar – Hlín Jóhannesdóttir, Birgitta Björnsdóttir og Andrew Hauser – og ég farið á fullt í undirbúning. Fyrsta verkefnið var að finna aðalpersónuna „Solange“.  Eftir margar vikur af áheyrnarprufum færðum við okkur yfir á svokallað „offer only“ stig, en þá býður maður þekktum leikara hlutverkið, aðila sem er þá orðinn of þekktur til að koma í prufu. Ég hafði séð Katherine Waterston í einni mynd og fannst hún mjög sterk, og með magnaða nærveru á hvíta tjaldinu. Við buðum henni hlutverkið, hún tengdi sig strax við persónuna, hringdi í mig og við töluðum saman í klukkutíma, eitthvað um myndina og hlutverkið, en mest þó um lífið og ástina. Ég fann að við töluðum sama tungumál, og réð hana í hlutverkið án þess að hafa hitt hana, og án þess að hafa heyrt hana lesa nokkuð úr handritinu. (Það var svo ekki fyrr en á Keflavíkurflugvelli tveimur mánuðum seinna, tveimur dögum fyrir tökur, sem ég hitti hana í fyrsta sinn). Þegar til Íslands var komið hófst leikaraval á Baldri og hinum persónunum, leit að tökumanni og öðrum lykilaðilum, leit að tökustöðum o.s.frv. og tökur hófust svo í ágúst 2011.

Eftir að tökum á kvikmynd lýkur er allt eftirvinnsluferlið eftir – klipp, tónlist, hljóðvinnsla o.fl., og það tók sinn tíma.  Myndin var endanlega tilbúin í maí 2012, meira en tveimur árum eftir að ég byrjaði að pæla í handritinu. En þetta var líka sérstaklega langt ferðalag fyrir svo stutta mynd; oftast hefur fólk mun minni tíma til að klára myndir. Það er ákveðinn lúxus að vinna mynd innan ramma skólans, þar sem maður hefur tíma og rými til að prófa hlutina á alla kanta.

Hvaðan kviknaði fyrst hugmyndin að Ástarsögu?

Ég sá fyrir mér mann og konu í bíl að keyra í gegnum hrjóstrugt landslag. Konan er handviss um að þau þekkist.  Og meira en það; hún er viss um að þau eigi að vera saman. Maðurinn er hins vegar ekki jafn viss, hann er ekki einu sinni viss um hver hann er, hvernig hann komst í þennan bíl, og hvert þau eru að fara. Og ég vissi líka að þetta yrði endirinn á sögu, þótt ég vissi ekki þá hver sagan væri. Ég vann handritið svo í raun afturábak út frá þessari lokasenu…

Astarsaga_still10

Íslenskt landslag – Stilla úr Ástarsögu

Hvernig er það að taka upp eina kvikmynd í tveimur löndum?

Við skutum fimm daga á Íslandi og tvo í New York og höfðum sjö daga á milli. Við höfðum einungis tök á að flytja aðalleikarana og örfáa lykilstarfsmenn á milli landa, og vorum því að öðru leyti með tvo aðila í flestum hlutverkum. Tvo aðstoðarleikstjóra, tvo ljósamenn o.s.frv., og það getur verið krefjandi. En söguheimarnir sjálfir innan myndarinnar (heimili Solange og Baldurs og New York annars vegar, og æskuslóðir  Baldurs á Íslandi og Ísland sjálft hins vegar) eru – og eiga að vera – mjög ólíkir, og fagurfræðileg nálgun okkar Arnars (tökumanns) var önnur í New York en á Íslandi. Að því leyti var hægt að hugsa næstum um þetta sem tvær stuttmyndir. Í New York átti allt að vera hlýrra, meiri óreiða á hlutunum, litirnir heitari og skotin flest „handheld“ og mjög nálægt persónunum. Á Íslandi áttu skotin að vera fjarlægari, kaldari, flest á þrífæti (s.s. stöðugari) og allt átti að vera óþægilega bjart vegna þess að þannig líður Solange þegar hún kemur þangað í fyrsta sinn. Ég sjálf er búin að vera búsett í New York í fimm ár og New York og Reykjavík eru því söguheimarnir í mínu eigin lífi. Mér fannst fyrir vikið mjög spennandi að nota fagurfræði þessara staða sem hluta af sögunni og þá sérstaklega að flétta staðareinkennum eins og birtu, hita og litum inn í sálarástand persóna.

Astarsaga_still5

Í New York – Katherine Waterson og Walter Geir Grímsson í aðalhlutverkum í Ástarsögu

Hver er þín upplifun af kvikmyndaiðnaðinum?  Finnst þér iðnaðurinn hérna heima mjög frábrugðinn t.d. iðnaðinum í Bandaríkjunum?

Kvikmyndaiðnaðurinn er grimmur og ófyrirsjáanlegur líkt og aðrir listheimar, og það sem gerir hlutina sérstaklega flókna í kvikmyndunum eru peningarnir sem þetta snýst allt óhjákvæmilega um. Í samanburði við Ísland þá er kvikmyndaiðnaðurinn í Bandaríkjunum – eðlilega –  á mun stærri skala.  Hann er  ekki einungis sá stærsti í heimi heldur á kvikmyndagerð í Bandaríkjunum sér langa sögu miðað við flest önnur lönd, og fyrir vikið er reynsla fólks í bransanum gríðarleg. Þar eru vissulega gerðar mun stærri og dýrari myndir, en það er ekki síður stærri sena fyrir sjálfstætt framleiddar og ódýrari kvikmyndir. Á stóru bandarísku hátíðum undanfarin ár (eins og Sundance eða South by Southwest) hafa t.d. verið sýndar mikið af „microbudget“ myndum, sem kosta stundum ekki meira en 25.000-150.000 Bandaríkjadali (ca. 3-18 milljónir íslenskra króna, sem er mjög lítið fyrir mynd í fullri lengd). Kvikmyndaiðnaðurinn á Íslandi á sér yngri sögu, er öðruvísi uppbyggður og á meira skylt við Evrópu og hin Norðurlöndin. En kvikmyndagerð á Íslandi – eins og allt annað eftir efnahagshrun – hefur verið að breytast, og það er sýnist mér að skapast rými fyrir öðruvísi (og ódýrari) kvikmyndagerð.

Í flestum tilfellum er mikill fjöldi fólks sem kemur að gerð einnar kvikmyndar.  Hins vegar  líður manni oft eins og maður sé einn á báti þegar maður fær hugmynd þegar kemur að því að framkvæma hana.  Íslendingar eiga það sérstaklega til að finnast þeir þurfa að gera allt einir og sjálfir.  Upplifðir þú þig eina á báti varðandi kvikmyndagerðina sem kvikmyndaleikstjóri?  Fékkstu góða hjálp frá öðru fólki?

Jú, kvikmyndin verður eins og barnið manns og auðvitað getur engum verið jafn annt um það og manni sjálfum. En ekkert af þessu væri hægt án góðra samstarfaðila. Þegar stefndi í tökur á stuttmyndinni á Íslandi hafði ég samband við Hlín Jóhannesdóttur og Birgittu Björnsdóttur, framleiðendur. Þær höfðu báðar unnið lengi hjá ZikZak , en voru einmitt þá að stofna saman nýtt fyrirtæki; Vintage Pictures.   Ég vissi frá fyrsta degi að Ástarsaga væri í öruggum höndum hjá þeim. Hlutverk framleiðanda er margþætt, en felst m.a. í því að raða saman starfsliði og þær bentu mér á frábæra fagaðila til að fá til liðs við okkur, eins og t.d. tökumanninn Arnar Þórisson. Hann er sannkallaður listamaður og með mikla reynslu.  Það var gefandi og lærdómsríkt að vinna með honum. Katherine og Walter (Solange og Baldur) voru einnig frábær og gáfu allt sem þau áttu í tökunum. Fyrir utan frábæra samstarfsaðila, þá á ég líka góða fjölskyldu og vini sem lánaðu mér hús til að skjóta í, styrktu myndina fjárhagslega þegar ég fór af stað með kickstarter söfnun fyrir eftirvinnslukostnað, voru aukaleikarar í hinum ýmsu senum, elduðu ofan í starfslið og leikara… það hefði verið töluvert erfiðara að gera myndina án þeirra, og þá sérstaklega mömmu minnar. En ég verð eflaust skuldum vafin næstu áratugi og þá sérstaklega vegna Columbia. Þetta var dýrt nám og bransinn er dýr. Fólk áttar sig kannski ekki á því hversu erfitt það er að lifa á slíkri vinnu. Í kostnaðaráætlun á lágkostnaðarmynd er t.d. sjaldan gert ráð fyrir tekjum fyrir leikstjóra og framleiðendur á meðan á undirbúningi og tökum stendur.

Leikstjórahlutverkið hlýtur að felast í því að vera góður stjórnandi fyrst og fremst og að fá annað fólk með sér í verkefnin.  Hversu mikil ábyrgð fellur á kvikmyndaleikstjórann og hvernig lýsir það hlutverk sér?

Einn kennarinn í skólanum sagði við okkur að það að vera að góður leikstjóri fælist ekki í því að hafa rétt fyrir sér, heldur að vera skilvirkur (hann notaði orðið „efficient”). Og það er einmitt það. Að geta fundið leiðir til að láta hlutina gerast. Leikstjórinn „ég“ sem einhvers konar egó skipti ekki lengur máli  – það sem skiptir máli er kvikmyndin sem ég trúi að geti orðið til.  Mitt hlutverk er því fyrst og fremst að finna leiðir til að vísa samstarsfólki mínu veginn í gegnum ferlið og í átt að heildarmyndinni. Þegar ég er að vinna með nýjum leikara, t.d. reyni ég að skilja hann – ekki einungis sem leikara heldur einnig  sem manneskju. Ég reyni að átta mig á tungumálinu sem hann talar, á styrk hans og veikleika, svo ég geti hjálpað honum að finna persónuna sem hann þarf að verða. Það er einnig mikilvægt að átta sig á því að leikarar eru ólíkir og þurfa mismunandi hluti frá leikstjóra, og maður verður að finna hvað hentar hverjum og einum.  Svo verður leikstjóri að geta gefið af sér. Gott handrit byggir t.d. oftar en ekki á því að handritshöfundurinn er til í að skoða eitthvað í sjálfum sér sem getur verið sársaukafullt, til í að skrifa það sem er erfitt að skrifa („You have to go to where it hurts. You have to write what breaks your heart, because what breaks your heart will mend your heart” eins og einn frábær kennari í skólanum orðaði það á sínu tungumáli). Með öðrum orðum: Leikstjóri verður að vera tilbúinn að gefa sjálfur það sem hann biður leikarana um að gefa í nafni kvikmyndarinnar.

Að vera góður leikstjóri felst ekki síður í því að geta hlustað á samstarfsfólk sitt, og að vera sveigjanlegur. Ég mæti kannski á tökustað og veit hvernig ég vil að senan verði, en stundum gerast óvæntir hlutir í tökum, tökumaðurinn finnur nýjan vinkil sem var ekki í upphaflega planinu, leikari gerir eitthvað sem ég átti ekki von á og þá er mikilvægt að geta verið opinn fyrir nýjum hugmyndum og séð að stundum – í raun mjög oft – eru svoleiðis augnablik hundrað sinnum meira spennandi og gefandi en það sem var e.t.v. upphaflega planið. Og þegar kemur að lágkostnaðarmyndum þarf maður einmitt að vera mjög sveigjanlegur hvað varðar tökustaði, tækjabúnað o.s.frv…

_MG_0176

Ása Helga ásamt aðalleikurum í Ástarsögu

Sagt er að stuttmyndahátíðir víða um heim séu ákveðinn stökkpallur fyrir þá sem eru að feta sín fyrstu spor inn á kvikmyndamarkaðinn.  Hversu miklu máli telur þú það skipta að kvikmynd fái góðar viðtökur á slíkum hátíðum?

Góðar viðtökur á stuttmyndahátíðum skipta miklu máli hvað varðar kynningu á viðkomandi leikstjóra.  Nú er ég t.d. að vinna að mynd í fullri lengd og er að safna saman liði, og það er auðveldara að vekja áhuga fólks ef hægt er benda á góðan árangur fyrri verka. Hitt sem gerist á hátíðum – þá sérstaklega ef maður er viðstaddur – er að þá er hægt að byggja upp mikilvæg sambönd við hátíðarstjórnendur. En það er auðvitað dýrt sport að fara á kvikmyndahátíðir, og ekki svo oft sem maður kemst. Ég var því sérstaklega glöð með að fá styrk frá Kvikmyndasjóði Íslands til að komast á Clermont Ferrand og á Berlinale í febrúar, sem eru báðar A-hátíðir og því mikilvægt að fylgja myndum á slíkar hátiðir.

Hvernig kom kvikmyndagerðarnámið þér sérstaklega til hjálpar við gerð kvikmyndarinnar?

Kvikmyndagerðardeildin í Columbia er einstök og ég mæli hiklaust með henni. Námið er jú dýrt, en það er þess virði, enda getur enginn tekið menntun frá manni. Og það sem nám í listgrein á borð við þessa gefur manni er tími og rými til að prufa sig áfram og reyna að gera sitt besta í samræðu við aðra sem eru á sama ferðalagi. Þessi tími var ómetanlegur og ég mun alltaf búa að honum.

Námið í Columbia er mjög „hands-on“, þ.e.a.s. við byrjuðum að skrifa, skjóta og leikstýra í fyrstu viku. Þótt Ástarsaga sé fyrsta myndin sem mér finnst bera vitni um rödd mína sem kvikmyndaleikstjóri, þá var ég búin að gera margar stuttmyndir áður og bjó að þeirri reynslu við gerð myndarinnar. Eins hafði ég haft tíma til að finna þá aðila í skólanum sem ég myndi vilja vinna með áfram.  Mikið af því fólki sem vann að Ástarsögu voru bekkjarsystkini mín og vinir úr skólanum, einskonar kvikmyndafjölskylda.

Nú hefur Ísland verið í tísku hjá bandaríska kvikmyndaiðnaðinum, meðal annars vegna fallegrar náttúru og góðs aðgengis að náttúruperlum.  Telur þú að Ísland í þessu samhengi sé tískubóla eða að bandaríski kvikmyndaiðnaðurinn muni eiga meira að sækja til Íslands í komandi tíð?

Ég er viss um að bandaríski kvikmyndaiðnaðurinn eigi eftir að halda áfram að sækja til Íslands; þetta er örugglega bara rétt að byrja. Sem er auðvitað frábært og spennandi og skapar vinnu fyrir ýmsa, en þó minnst fyrir leikstjóra, handritshöfunda  eða reyndari tökumenn á Íslandi. Erlendu tökuliðin koma jú með sitt eigið fólk í slíkar lykilstöður. Það væri óskandi ef tiltekin prósenta af þeim peningum sem koma inn frá bandarískum markaði gæti farið beint inn í gerð íslenskra kvikmynda.  Þessi straumur hefði þá bein og afar jákvæð áhrif á þróun íslenskrar kvikmyndagerðar.

Hvar telur þú íslenskan kvikmyndaiðnað standa á alþjóðavísu?  Telur þú kvikmyndaiðnaðinn hérna heima eiga eftir að stækka og hugsanlega eiga meiri tengsl við t.d. kvikmyndaiðnaðinn úti í heimi?

Áhuginn á íslenskum kvikmyndum hefur aukist og sífellt fleiri Íslendingar eru að læra kvikmyndagerð erlendis, koma svo heim og gera myndir á Íslandi. Myndir á borð við Nóa Albínóa, Eldfjall og Á Annan Veg bera því vitni að eitthvað nýtt sé að eiga sér stað í íslenskri kvikmyndagerð. Ef þetta heldur áfram, brúum við smám saman bilið milli okkar og „hinna“. Listræn bylting hefur átt sér stað í kvikmyndagerð t.d. Rúmeníu og Grikklands.  Hvers vegna ætti Ísland ekki að geta orðið næst?

Er önnur kvikmynd eftir þig væntanleg á næstunni?

Já, svo sannarlega. Það verður fyrsta myndin mín í fullri lengd, sem Vintage Pictures mun framleiða. Handritið er byggt á einni af þekktari skáldsögum Guðbergs Bergssonar, og ég er einmitt að flytja – allavega tímabundið – aftur til Íslands í haust til að vinna að þessu stóra verkefni.

Ástarsaga eftir Ásu er framleidd af Vintage Pictures (Hlín Jóhannesdóttur og Birgittu Björnsdóttur) og Andrew Hauser og með helstu hlutverk fara Katherine Waterson,Walter Grímsson, Elva Ósk Ólafsdóttir og Kristján Franklín Magnús.  Stjórn kvikmyndatöku var í höndum Arnars Þórissonar.

Nánari upplýsingar um Ástarsögu má sjá hér:  http://www.facebook.com/Astarsaga