Viðtalið – Börkur Gunnarsson

Leikstjórinn Börkur Gunnarsson frumsýndi kvikmyndina Þetta Reddast í síðustu viku. Við fengum leikstjórann í viðtal og fórum yfir nokkrar spurningar í tengslum við myndina sjálfa, íslenska kvikmyndagerð og smekksatriði leikstjórans.

Hver er þín saga inn í kvikmyndagerð?

Ég var og er enn rithöfundur. Mér líkaði illa við hvernig leikstjórar fóru með leikverkin mín og færði mig sjálfur útí leikstjórnina. Fyrsta kvikmyndaverkið sem ég skrifaði var 40 mínútna sjónvarpsleikrit sem Júlíus Kemp leikstýrði fyrir RÚV. Svo fór ég utan og lærði kvikmyndaleikstjórn í Tékklandi og fór að vinna þar í kvikmyndagerð og gerði mína fyrstu bíómynd þar, Sterkt kaffi. Svo kom ég heim og fór að gera þessa bíómynd, Þetta reddast.


Hvernig varð myndin til og hvernig þróaðist hún frá byrjunarpunkti til enda?

Hún varð til út frá því sjokki sem ég varð fyrir að koma til Íslands eftir sex ára dvöl í Tékklandi. Mér fannst Ísland hafa breyst mikið og vera allt annað og hrokafyllra land en það sem ég fór frá. Einhver löngun til að segja frá samtíma mínum. Langaði til að fjalla um þennan eigingjarna hroka sem var allsráðandi hér, án þess að dæma einn eða neinn. Reyna að sýna þetta hrokafulla fólk sem manneskjur sem er hægt að þykja vænt um. 


Hvernig myndir þú lýsa söguþræðinum?

Þetta Reddast, er realískt gamandrama sem fjallar ungan blaðamann sem meinar vel en á í vandræðum með áfengi. Hann er í góðri vinnu og í sambandi við góða kærustu en því miður að þá stýrir hann ekki lífi sínu, heldur áfengið, og þá skipta góðar meiningar litlu máli. Eftir að vera kominn á tæpasta vað hjá kærustunni, finnur hann upp á því snilldarráði að bjarga sambandinu með því að bjóða henni í rómantíska ferð á Búðir þar sem friður og ró Snæfellsjökuls getur komið inn í sambandið og þau næðu ástum og trausti á nýjan leik. En sömu helgi er hann kominn á síðasta séns í vinnunni og ritstjórinn sendir hann upp í Búrfellsvirkjun til að gera úttekt á virkjuninni. Hann ákveður að slá tvær flugur í einu höggi og býður kærustunni sinni í rómantíska vinnuferð uppá Búrfellsvirkjun. Á háspennusvæðinu við virkjunina taka hlutirnir óvænta stefnu. Háspenna var kannski ekki það sem þetta samband þurfti á að halda…


Hvernig gekk vinnan að myndinni?

Mjög vel, því við vorum svo vel undirbúin. Fyrir tökur vorum við búin að fara ítarlega í gegnum karakterana og greina þá sundur og saman. Baksögu þeirra og alla mögulega og ómögulega hluti í þeirra lífi. Leikararnir voru mjög vel undirbúnir fyrir hlutverk sín. Engin slys komu uppá nema einu sinni eitt minniháttar, þegar ég læsti lykilinn minn inni í bílnum mínum á svæði sem var utan þjónustusvæðis og þurfti að brjóta rúðuna til að komast inn í bílinn. Sama dag þurfti ég síðan að brjóta upp hurðina á herberginu mínu því ég hafði læst inni í því eina lykilinn að herberginu. Þetta var ofbeldisfyllsti dagurinn í tökunum.  

Hvað tekur við núna?

Ég er með mörg handrit í gangi. Eitt er núna hjá Kvikmyndasjóðnum í 2. umferð í handritssjóðnum, ég býst við að það verði handritið sem ég mun taka upp á næsta ári. 


Kvikmyndagerð getur verið tímafrek, hvað gerirðu þegar þú hefur lausan tíma?

Ég vinn sem blaðamaður á Morgunblaðinu.


Uppáhalds kvikmynd/ir?

Þær eru margar, mér finnst flestar Kusturica myndirnar góðar, en Underground líklegast best. Hún er svo tætt og stór allegóría um ást og stríð og alles. Ég lærði í Tékklandi og finnst því Milos Forman óskaplega góður, allt frá Hárinu til Mozart myndarinnar. Svo finnst mér myndir eins og Guðfaðirinn eftir Coppola mjög góð. 


Hver er þinn uppáhalds leikstjóri?

Kusturica, Forman, Coppola, Mike Lee og margir fleiri. 


Hversu mikilvæg er íslensk kvikmyndagerð fyrir land og þjóð?

Ég veit það ekki. Mér finnst gaman að henni. Það sem er gaman skiptir máli.  


Hvernig sérðu íslenska kvikmyndagerð fyrir þér í framtíðinni?

Ég held að hún hljóti að verða meira ameríkaníseruð. Sem er ekkert slæmt en ekki uppáhaldið mitt. Ef þjóðin heldur sér í góðum fjárhagslegum efnum og í svona miklum tengslum við bandaríska menningu að þá mun það bara aukast. Það getur verið gaman.  


Hvaða ráð myndirðu gefa ungum kvikmyndagerðarmönnum í dag?

Ekki gefast upp. Það er ekkert pláss fyrir ykkur á markaðnum og enginn fagnar komu ykkar, en ekki taka því persónulega. Haldið bara áfram að gera myndir og njótið þess á meðan þið eruð að gera þær.

 

Við þökkum Berki innilega fyrir spjallið og minnum á að Þetta reddast er sýnd í Sambíóunum.