Viðtalið: Atli Óskar Fjalarsson

Íslensku unglingamyndinni Óróa hefur verið mikið hrósað fyrir öflugar leikframmistöður og þá sérstaklega frá unga fólkinu sem prýðir lykilhlutverkin. Mér tókst að „chatta“ við nokkra þeirra og spyrja þá út í hlutverk þeirra, kvikmyndasmekk ásamt ýmsu öðru.

Atli Óskar Fjalarsson, sem fer með burðarhlutverk myndarinnar og leikur Gabríel, var meira en til í spjallið og hafði fjölmargt athyglisvert hér að segja. Skrollið niður og tékkið á því sjálf:

T: Hvernig mundirðu lýsa Gabríel í stuttu máli?

A: Gabríel er mjög jarðbundin týpa og þroskaður miðað við aldur. Hann er ábyrgur og vill hafa hlutina eins og þeir eru. Það verður hins vegar erfitt fyrir hann að sætta sig við hlutina þegar allt fer að breytast, bæði hann og aðrir í kringum hann. Hann er góður vinur og er alltaf tilbúinn að leggja sitt af mörkum til að hjálpa vinum sínum.

T: Hvernig kom það til að þú fékkst hlutverkið?

A: Það er nú frekar skondin saga. Þegar ég var yngri vann ég stundum við að tala inn á teiknimyndir. Svo vildi það til að Ingibjörg Reynisdóttir, sem skrifaði bækurnar, var að fara að gera hljóðbók fyrir fyrstu bókina og hana vantaði einhvern til þess að lesa inná hana. Ég var fenginn í verkið og þannig kynntist ég Ingibjörgu. Nokkrum mánuðum seinna frétti ég af því að það ætti að fara að gera bíómynd og ég var fenginn ásamt nokkrum krökkum í svona samlestur, til þess að Baldvin Z leikstjóri og Ingibjörg gætu fengið betri tilfinningu fyrir handritinu. Samlesturinn gekk rosalega vel og mér var eiginlega bara boðið hlutverkið nokkrum vikum seinna. Þá var ég ennþá undir lögaldri þannig að mamma fór með mér að hitta Baldvin og eftir að mamma samþykkti hann að þá var komið grænt ljós á myndina.

T: Er leiklist eitthvað sem þú getur hugsað að leggja fyrir þig í framtíðinni?

A: Já, algjörlega. Síðan ég man eftir mér hef ég verið að gretta mig framan í spegla og myndavélar og ég ætla án vafa að fylgja leiklistinni eftir. Ég er eins og er í Tækniskólanum að klára stúdent og þaðan fer ég vonandi til útlanda í leiklistarnám.

T: Hvað finnst vinum þínum um að þú sért að leika í heilli bíómynd?

A: Þeir eru svona að átta sig á þessu, eins og ég sjálfur. En leiklistin hefur alltaf verið til staðar þannig að kannski eru þeir bara orðnir vanir því að sjá mann alls staðar.

Núna kemur að því að kryfja kvikmyndasmekk þinn, og það hefst með þessari gullnu spurningu: Hvort ertu almennt meira fyrir „Action,“ drama eða grín?

– Action eða grín verður oftast fyrir valinu sem afþreying. Horfi á dramatíska myndi ef ég er búinn að heyra margt gott um hana og kannski lesa góða gagnrýni á Kvikmyndir.is 😀

Hvaða kvikmynd geturðu alltaf horft á aftur og aftur og hvers vegna?

– The Matrix (alltaf)
– The Lord of the Rings (um jólin)
– Harry Potter (ef maður er veikur)

Áttu þér einhverja mynd sem þú horfðir mikið á í æsku en skammast þín í dag fyrir að fíla?

– Nei ég held ekki, ekki nema Grease sé orðið asnalegt!?!

Hver er fyndnasta mynd sem þú hefur séð?

– Don’t Be a Menace to South Central While Drinking Your Juice in the Hood

Hefurðu einhvern tímann gengið út úr hléi eða langað til þess? (ef svo er, á hvaða mynd?)

– Ég hef aldrei labbað út af mynd og örugglega aldrei langað til þess. Ég gleymi mér alltaf yfir myndum sama hversu lélegar þær eru, sogast bara inn í þær.

Svo seinasta: Er einhver mynd núna á næstunni sem þú ert spenntur fyrir?

– Úff það eru svo margar.
Hef heyrt að The Joneses sé góð.
Easy A lítur mjög vel út.
Ég er búinn að bíða eftir Machete í dágóðan tíma, hún verður rosaleg.
Svo er það Potter í nóvember, maður má ekki missa af því.
Svo er Rokland að koma loksins á næsta ári.

Glæsilegt, takk kærlega fyrir! Mundu svo að fylgjast áfram með þessum „góðu“ gagnrýnum 😉

T.V.