Hvolpasveitin trekkir að

Íslendingar sem hafa séð kvikmyndina um Hvolpasveitina stórvinsælu í bíó eru nú þrjátíu þúsund talsins. Af aðsóknartölum helgarinnar að dæma hefur teiknimyndin haldið tryggri stöðu á topplista kvikmyndahúsa og hafa alls tæplega 23 þúsund manns séð myndina.

Með helstu íslensku raddhlutverk myndarinnar fara Patrik Nökkvi Pétursson, Steinn Ármann Magnússon, Agla Bríet Einarsdóttir, Daði Víðisson, Kolfinna Orradóttir, Baldur Björn Arnarson og Lára Sveinsdóttir.

Hvolpasveitinni tókst þó ekki alveg að sigra þursana hjá Marvel Studios enda ríghélt ævintýramyndin Shang-Chi and the Legend of the Ten Rings toppsæti sínu frá vikunni áður. Hátt í þrettán þúsund gestir hafa flykkst á þessa Marvel-mynd sem hlotið hefur stórgóðar viðtökur víða um heim.

Hryllingsmyndin Malignant trónir í fjórða sæti aðsóknarlistans og hangir þar rétt á eftir hinni vinsælu Free Guy með Ryan Reynolds. Danska dramamyndin Smagen af Sult lenti í því sjötta en með aðalhlutverk þeirrar myndar fara þau Nicolaj Coster-Waldau og Katrine Greis-Rosenthal.

Myndin segir frá hjónum sem fórna öllu til að ná hæstu viðurkenningu í matreiðsluheiminum, Michelin stjörnu. Maggie er mannfræðingur sem hefur sérhæft sig í máltíðum og hefur búið til glæsilegt umhverfi matsölustaðarins Malus sem þau hjón reka. Carsten er frægur kokkur sem töfrar fram réttina í eldhúsinu. Saman eru þau ósigrandi í dönskum veitingaheimi. Þau elska hvort annað, eiga tvö dásamleg börn og veitingastaðurinn er einn sá vinsælasti í Danmörku.

Allt er í frábærum málum nema þeim vantar ennþá Michelin stjörnuna og fyrir hana eru þau tilbúin að fórna öllu.

Aðsóknarlistann má finna í heild sinni að neðan.