Heimildarmynd um Hatara verðlaunuð á Ítalíu

Heimildamyndin A Song Called Hate eftir Önnu Hildi Hildibrandsdóttur var valin besta heimildamyndin í flokki lengri mynda á SeeYouSound hátíðinni sem fram fer á Ítalíu. Þetta eru fyrstu alþjóðlegu verðlaun myndarinnar en sýningar eru nú hafnar á henni í Háskólabíói.

Hér er horft inn í þann raunveruleika sem blasti við íslensku Eurovison-förunum árið 2019 sem voru ákveðnir í að gera hina ópólitísku söngvakeppni pólitíska. A Song Called Hate kortleggur ferðalag hljómsveitarinnar Hatara og sýnir hvernig ævintýrið breytir þeim.

„Þau fjölluðu um þetta á mjög jákvæðan hátt og það var gaman. Gaman að finna viðbrögðin og sjá að manni tekst að hreyfa við fólki og gera sögunni skil,“ sagði Anna Hildur í viðtali í þættinum Segðu mér á Rás 1. Hún segir ljóst að hópurinn Hatari búi yfir miklum kjarki og hugrekki. Hún var sjálf ekki viss um hvort hópurinn yrði samdauna ferlinu eða tækist að koma skilaboðum til skila þegar upp yrði staðið.

„Það var svo spennandi að fylgjast með og hvað þetta tók mikið á að fylgja þessu í gegn,“ segir Anna Hildur.

Iain Forsyth og Jane Pollard sem unnu með Önnu Hildi að verkinu sem yfirframleiðendur eru meðal annars þekkt fyrir mynd sína 20.000 Days On Earth sem fjallar um Nick Cave.

A Song Called Hate verður einnig á dagskrá RÚV, í þremur hlutum – 1., 8. og 15. apríl.