Vinsælast á Netflix í apríl – Íslendingar límdir yfir skandölum, þunglyndi og hasar

Það er óhætt að segja að aprílmánuður þessa árs hafi verið gífurlega stór fyrir streymisveituna Netflix, sem og aðrar veitur. Vegna faraldurs og samkomubanna (og þá sérstaklega – í þessu samhengi – lokun kvikmyndahúsa) um heim allan hefur fólk verið virkara sem aldrei fyrr í sjónvarpsglápi í heimahúsum. Íslendingar eru engin undantekning þar og hafa verið heldur duglegir að fylgja straumnum í þeim efnum.

Þó er ljóst að fáeinir útvaldir titlar efnisveitunnar hafi rétt um bil sett veröldina á hliðina, til að mynda augljósi sigurvegari aprílmánaðar (sem og marsmánaðar!), en það er týgrisdýrakóngurinn Joe Exotic. Umræðan um Exotic og heimildarþættina um kappann hefur verið með þeim heitari á samfélagsmiðlum undanfarnar vikur.

Joe Exotic er þó fjarri því að vera einn til að hirða allt sviðsljósið á Netflix þennan mánuð.

Þetta eru vinsælustu kvikmyndirnar og þættirnir á Netflix á Íslandi. Athugið að upptalningin er ónúmeruð, þó röðuð eftir stafrófi.

After Life

Önnur sería af hinni geysivinsælu þáttaröð Ricky Gervais gladdi ófáa í samkomubanninu og hafa viðtökur verið stórgóðar, hérlendis og víðar. Gervais leikstýrir þáttunum einnig og leikur aðalhlutverkið, en hér í grunninn er fjallað um mann sem glímir við þunglyndi eftir að hann missir eiginkonu sína. Hann skeytir skapi sínu á allt fólk í kringum sig og segir hvað honum býr í brjósti umbúðalaust.


Community 

Gamanþættirnir Community lentu á streyminu í byrjun mánaðarins og hafa reglulega haldið sessi hérlendis á topp 10 listanum. Þættirnir eiga sér dyggan og breiðan aðdáendahóp, enda fer góður hópur fólks með helstu hlutverk og fjöldi gestaleikara. Þættirnir koma frá Dan Harmon og eru flestir áhorfendur – sem ekki þekkja til þeirra – eindregið hvattir til að kíkja á þessa skemmtilegu nörda- og karaktersúpu.


Extraction

Stórmynd úr smiðju Netflix sem er skrifuð af öðrum helmingi Russo-bræðranna (The Winter Soldier, Infinity War, Endgame) með Chris Hemsworth í aðalhlutverki. Extraction hefur náð gífurlegum áhorfstölum um allan heim og er um að ræða taumlausa hasarmynd um málaliðann Tyler Rake. Dag einn er hann ráðinn í sína hættulegustu ferð til þessa, þar sem verkefni hans er að bjarga syni alþjóðlegs glæpaforingja, sem situr í fangelsi, sem hefur verið rænt. Hasarunnendur ættu að öllum líkindum ekki að verða fyrir vonbrigðum.


Money Heist

Fjórða sería af spænsku spennuþáttunum stórvinsælu hóf göngu sína snemma í mánuðinum (þó réttar sé kannski að segja fjórði hluti annarrar seríu) og féll strax í kramið hjá hörðustu aðdáendum. Þættirnir La casa de papel hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda og segja frá átta bíræfnum ræningjum sem freista þess að ræna Seðlabanka Spánar.


Ozark

Í þriðju seríu af þáttunum Ozark mæta Jason Bateman og Laura Linney aftur til leiks. Þættirnir segja frá Byrdes fjölskyldunni, sem leggur allt undir í þessari þáttaröð. Á meðan spennan magnast í kringum nýja spilavítið þeirra, The Missouri Belle, keppast þau Marty og Wendy við að halda jafnvægi á milli öryggi fjölskyldunnar og ört vaxandi peningaþvættis starfsemi þeirra.


RuPaul’s Drag Race

„Ef þú elskar ekki sjálfan þig, hvernig ætlarðu að fara að því að elska einhvern annan?“ spyr skemmtikrafturinn RuPaul í lok hvers þáttar, en keppnisþættir dragdrottningarinnar hafa vel verið á rjúkandi góðri siglingu og hafa landsmenn fylgst ólmir með tólftu þáttaröðinni og framvindu hennar. Skemmst er að segja frá því að þetta er stórskemmtilegt raunveruleikasjónvarp – og dramað er vægast sagt ávanabindandi og uppfullt af eftirminnilegum keppendum. Vertu með!


Tiger King: Murder, Mayhem and Madness

Joe Exotic er eins og persóna úr skáldskap og hafa ýmsir viðmælendur í heimildarþáttunum meira en kostulegar sögur að segja af dýragarðsverðinum. Joe var dæmdur í 22 ára fangelsi í janúar á þessu ári, meðal annars fyrir tilraun til morðs á dýraverndarsinna og illa meðferð á dýrum. Þættirnir frá Netflix eru sjö talsins og fjalla um líf hans og ótrúlega atburðarásina sem leiddi til fangelsisvistunnar.


Too Hot to Handle

Átta þátta raunveruleikasería sem lenti á veitunni í miðjum mánuðinum og flaug strax efst á aðsóknarlistann. Hugmynd þáttanna gengur út á það að kenna ungu, einhleypu fólki að mynda tengingu sem er ekki af hinu líkamlega. Ef keppendur stunda líkamlega tengingu af einhverju tagi, minnkar verðlaunaféð, en hvert par hefst með 100 hundrað þúsund dollara upphæð.


Fleira vinsælt

Coronavirus, Explained
Friends
Last Dance
Outer Banks
Sunderland ‘Til I Die
The Innocence Files
The Last Kingdom
Unorthodox

Stikk: