Endurbætt Morðsaga í dag – 110 ár frá upphafi kvikmyndasýninga

Kvikmyndasafn Íslands sýnir endurbætta stafræna útgáfu af Morðsögu (1977) Reynis Oddssonar í Háskólabíói í dag kl. 18. Sýningin er í tilefni 110 ára afmælis kvikmyndasýninga á Íslandi. Á undan verður sýnd 110 ára gömul stutt mynd, Þingmannaförin, um för íslenskra alþingismanna til Kaupmannahafnar árið 1906, en hún var hluti af sýningardagskrá hins eldra Gamla bíós í Grjótaþorpinu þegar sýningar hófust þar 2. nóvember umrætt ár.

Aðgangur er ókeypis og öllum opinn á meðan húsrúm leyfir.

mordsaga

Reynir Oddsson verður viðstaddur sýninguna en nú eru liðin 40 ár frá því að framleiðsla myndarinnar hófst og í mars á næsta ári verða 40 ár liðin frá því að hún var frumsýnd.

Í tilkynningu frá Kvikmyndasafninu segir að endurfrumsýning Morðsögu hér heima sé liður í aðgerðum um allan heim til að vekja athygli á mikilvægi kvikmyndamenningararfs þjóða heims. Kvikmyndasafnið vill í því sambandi vekja athygli á nauðsyn þess að það hafi yfir tækjum, mannafla og þekkingu að ráða sem geri því kleift að sinna því mikilvæga verkefni að koma kvikmyndaarfinum yfir á stafrænt form samkvæmt nútíma gæðakröfum. Til þess þarf safnið að eignast nýjan háskerpuskanna, hreinsivél og bæta við sig fólki og þekkingu. Sú fjárfesting nýtist ekki aðeins komandi kynslóðum heldur verður undirstaða mikilvægs þjónustustigs fyrir kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð í nútíðinni því stafræna formið er forsenda þess að hægt sé að sýna og nýta kvikmyndir sem gerðar voru á filmu.