Hafnað vegna hæðarinnar

X-Men leikarinn James McAvoy segir að honum sé stundum hafnað um hlutverk vegna hæðarinnar, þar sem hann sé álitinn of lítill.

Leikarinn, sem leikur aðalhlutverk í ævintýraþáttunum His Dark Materials sem sýndir eru í BBC ríkissjónvarpinu breska, segir í nýju viðtali: „Sem lágvaxinn maður, þá fæ ég stundum að heyra að ég sé of stuttur fyrir hlutverk.“

Lágvaxinn McAcoy.

Í samtali við The Telegraph segir leikarinn: „Og jafnvel þegar ég fæ hlutverkið, þá er mér látið líða eins og, þetta sé eitthvað sem verði að leysa.“

McAvoy, sem er 1,70 metrar á hæð, segir að ein leikkona sem lék kærustu hans á hvíta tjaldinu, hafi einu sinni efast um að hann væri rétti maðurinn í hlutverkið „af því að enginn gæti trúað að hann myndi vera með konu eins og henni.“

„Það var högg fyrir neðan beltisstað,“ segir McAvoy.

„Ég hugsaði. Ok. nú þarf ég að láta sem mér líki við þig í átta vikur í viðbót. Það verður mjög erfitt, af því að þú ert svo merkileg með þig.“

Og hann bætti við: „Stundum er þér látið líða eins og þú sért ekki nógu vel útlítandi til að fá hlutverk.“