Bráðavaktarstjörnur tjá sig um metmissi

Í gær, fimmtudaginn 28. febrúar sló læknadramað Grey´s Anatomy met læknaþáttanna ER, eða Bráðavaktarinnar, eins og þættirnir hétu hér á Íslandi, sem sú læknasería sem hefur verið lengst í gangi á besta tíma í sjónvarpi , en þátturinn í gær var sá 332. í röðinni.

“Nú er komið nóg,” sagði ER leikarinn George Clooney í gríni við vefsíðuna The Hollywood Reporter, þar sem hann svaraði spurningum í pallborði vegna nýjustu sjónvarpsseríu sinnar, Catch-22, sem sýnd verður á Hulu streymisveitunni bandarísku. “Við verðum að snúa til baka og búa til fleiri þætti!”

Þegar önnur ER stjarna, Noah Wyle, var spurður um þessi tímamót, sagði hann að sér liði eins tíminn hefði flogið. “Guð minn góður, mér hefur aldrei liðið eins gamall og í dag,” sagði Wyle við sömu vefsíðu.

“Mér líður eins og Alan Alda [aðalleikari M*A*S*H sjónvarpsþáttanna] núna: Gott hjá ykkur krakkar! Vel gert! Mér datt ekki í hug þau myndu ná að slá metið!  Gott hjá þeim.”

Leikarinn sem lék hlutverk skurðlæknisins John Carter fyrir meira en áratug síðan, hefur af og til síðustu ár tjáð sig um þættina. Fyrst eftir að vinsældir þáttanna fóru á flug í streymi á Hulu. Síðar af því að hann dvaldi nokkra mánuði í Chicago, heimaborg ER, þegar hann var að taka upp nýja sjónvarpsþætti fyrir CBS, The Red Line. Í þriðja lagi hefur hann rætt þættina vegna endurfunda við meðleikara sinn úr ER, Eriq La Salle, en hann er framleiðandi sjónvarpsþáttanna Chicago P.D. , sem einnig eru teknir upp í Chicago.

“Við La Salle höfum eytt miklum tíma saman í borginni, meira en við höfum gert í aldarfjórðung nánast,” sagði Wyle við fréttamenn á The Red Line kynningu .” Og meðan á því stóð, þá fóru þættirnir á Hulu og slógu í gegn. Þeir áttu 25 ára afmæli í september, og við fórum að rifja upp allskonar skemmtilega hluti, og það var frábært.”

Grey´s Anatomy, sem hefur verið á dagskrá ABC sjónvarpsstöðvarinnar sl. 15 ár, hefur markað djúp spor á margan hátt í gegnum tíðina, einkum vegna vals leikara af fjölbreyttum kynþáttum og uppruna, og sterkrar áherslu á kvenlægan söguþráð, eins og það er orðað hjá The Hollywood Reporter.

Julianna Margulies, sem lék ER hjúkrunarfræðinginn Carol Hathaway í sex ár, viðurkennir að hafa ekki horft mikið á Grey´s Anatomy.   “Eftir að hafa verið í ER þá get ég ekki horft á læknaþætti,” sagði hún við The Hollywood Reporter. „Ég óska [Grey’s Anatomy] alls hins besta!“