Samúræi í Westworld 2

Japanski leikarinn og bardagalistamaðurinn Hiroyuki Sanada hefur verið ráðinn í hlutverk í annarri þáttaröð HBO sjónvarpsþáttaraðarinnar Westworld, en fyrsta þáttaröðin sló í gegn í fyrra.

Auk þess sem Sanada kemur til með að leika nýja persónu, Musashi, í nokkrum þáttum, þá segir TV Guide frá því að persónan gæti veitt smá forsmekk að Samúræja heiminum ( nýi garðurinn í þáttunum sem hefur verið staðfestur ), sem á að vera systurgarður Westworld skemmtigarðsins, en vísbendingar voru gefnar um samúræja garðinn í síðustu þáttaröð.

Á Comic-Con afþreyingarhátíðinni í San Diego í sumar, þá kynnti leikfangaframleiðandinn Funko ýmsan HBO varning, þar á meðal dúkku sem hét Musashi, sem er með samúræjasverð, hjálm og brynju. Það gefur enn sterkar í skyn að von er á samúræjaheiminum í næstu þáttaröð.

Westworld, önnur þáttaröð, verður frumsýnd á næsta ári. Aðrir nýir leikarar eru Neil Jackson, Jonathan Tucker, Katja Herbers, Talulah Riley og Louis Herthum.

Sanada er með fleiri verkefni í Hollywood, en hann mun leika í Marvel myndinni Avengers: Infinity War, eftir að hafa leikið illmennið Shingen Yashida í The Wolverine. 

TV Guide segir að næst á dagskrá Sanada séu tökur fyrir Avengers myndina. Staðreyndin er hins vegar sú að tökum á myndinni lauk í júlí sl., sem gæti þýtt að verið sé að bæta inn tökum með Sanada í sínu hlutverki, nema þá að um misskilning sé að ræða og verið sé að mynda Sanada í Avengers 4, sem er í tökum sem stendur.

Leikarinn hefur annars leikið í fjölmörgum myndum, eins og Life, The Last Samurai, Rush Hour 3, Speed Racer, Lost og The Last Ship.