The Internship

The-IntershipThe Internship skartar þeim Vince Vaughn og Owen Wilson í aðalhlutverkum en með leikstjórnina fer Shawn Levy. Í stuttu máli fjallar The Internship um tvo menn (Vaughn og Wilson) sem eru í kringum fertugt og hafa starfað sem sölumenn nánast allt sitt líf og þekkja fátt annað. Þegar svo fyrirtækið sem þeir starfa hjá fer á hausinn, kynnast þeir því hversu erfitt það er að fá vinnu, þá sérstaklega í ljósi þess að þeir hafa enga menntun né sérfræðiþekkingu. Annar þeirra (Wilson) ákveður því í örvæntingu sinni að taka vinnu hjá mági sínum á meðan að félagi hans horfir á eftir kærustunni flytja út frá honum. Við allt þetta mótlæti ákveður hann þó að gefast ekki upp og skráir þá félagana í starfsnám hjá Google. Eftir að hafa rétt sloppið inn í starfsnámið kynnast þeir fyrirtækinu og starfsumhverfinu á sama tíma og þeir kynnast öðrum, töluvert yngri, lærlingum sem munu koma til með að berjast um nokkur laus störf hjá Google. Þeir félagarnir þurfa því að taka á stóra sínum til þess að halda í við ungu samkeppnisaðilana sem virðast svo sannarlega kunna sitthvað á tölvur.

internship-movie

Það er ansi margt sem hefði betur mátt fara í The Internship en handrit myndarinnar fellur í þá gryfju að keyra á hverri klisjunni á fætur annarri. Þá eru karakterarnir sjálfir mjög ýktir sem og aðstæðurnar sem þeir lenda í, þannig að úr verður allsherjar kjánahrollur. Þá verður líka að segjast að Vince Vaughn og Owen Wilson virðast alltaf leika sömu karakterana í öllum þeim myndum sem þeir taka sér fyrir hendur, sem í sjálfu sér virkar alveg, en verður býsna þreytt og fyrirsjáanlegt til lengdar. Að þessu sögðu þá á The Internship ágætis spretti hér og þar sem auðveldlega var hægt að hlægja að. Þá felur hún í sér ákveðinn boðskap, um vináttu og það að trúa á sjálfan sig, en þó svo að sá boðskapur sé pakkaður inn í eina góða klisju, þá er hann samt sem áður til staðar og gefur myndinni eins mikið gildi og hægt er. Þá var Rose Byrne nokkuð góð og það verður gaman að fylgjast með henni á komandi árum.

The-Internship-3

Á heildina litið er The Internship fyrirsjáanleg og skortir allan frumleika og er þegar allt kemur til alls, bara ein stór auglýsing fyrir Google með nokkrum fyndnum senum og krúttlegum boðskap. Vaughn og Wilson komast hér hvergi nærri þeim stað sem þeir voru á þegar þeir léku saman í Wedding Crashers. The Internship mun eflaust laða að slatta af fólki í kvikmyndahúsin en flestir munu þó eflaust bara láta sér nægja að sjá hana einu sinni, enda langt frá því að vera eftirminnileg gamanmynd.