Fyrirtaks framtíðartryllir!

Ég rakst einu sinni á tilvitnun í brjóstabombuna Drew Barrymore þar sem hún sagðist elska það mest í heiminum að knúsa fólk, í kjölfarið sagðist hún óska sér þess að hún væri kolkrabbi, því það myndi þýða að hún gæti knúsað fólk með átta örmum. Dásamleg pæling og þannig líður mér akkúrat gagnvart leikstjóranum/handritshöfundinum Rian Johnson. Mig langar að faðma hann, helst átta sinnum, á sama tíma.

Maðurinn er snillingur og ég er ofsalega platónískt hrifinn af honum vegna þess að hann talar akkúrat sama tungumál og ég sem kvikmyndanörd. Johnson veit hvað ég vil sjá, hverju ég hrífst af og hvernig á ekki að gera hlutina eins og flest allir aðrir í bransanum. Allar þær þrjár kvikmyndir sem hann hefur gert hafa verið einstakar, snjallar, ólíkar, ófyrirsjáanlegar, heillandi og geislandi af ferskleika. Brick er ein af albestu og eftirminnilegustu myndum ársins 2006 (þó hún sé tæknilega 2005 mynd!) og The Brothers Bloom er ein af vanmetnustu myndum sem hafa komið út s.l. áratug. Hún er í miklu uppáhaldi hjá mér. Ekkert brjálað frumleg en ómótstæðileg og einstök þrátt fyrir það. Johnson sannaði fyrir mér með öðru verki sínu að hið fyrra hafi ekki bara verið sturluð heppni. Þessi maður hefur mergjaða rödd sem listamaður. Kalda en samt svo hlýja. Faglega en einnig nördalega og augljóst er að Looper er metnaðarfyllsta myndin hans hingað til. Bæði hugmyndalega og fjárhagslega.

Það hefur aldrei áður verið meira áberandi hversu mikið nörd leikstjórinn er. Looper er gerð handa þeim sem elska almennilega gott sci-fi af lágstemmdari gerðinni sem stýrist af hugmyndum og persónum frekar en hasar og skrauti. Þetta hættir samt ekki þar. Myndin er útpæld og fáránlega vel skrifuð, að flestu (nærri öllu) leyti óútreiknanleg, dökk, skemmtileg, fyndin, spennandi, öðruvísi og ríkir mikil umhyggja fyrir efninu. Og ég býst svosem við því að það eigi við um allar myndir en ég tel þessa vera eina af þessum myndum sem er best að vita sem minnst um fyrirfram.

Smá lykt af Back to the Future, mikið Terminator-bragð  (sem og af Twelve Monkeys, Frequency og The Omen, ef maður leitar nógu djúpt) en annars er ekkert nema brakandi ferskleiki í boði. Sci-fi hlutinn af sögunni er samt bara uppstilling fyrir aðra, miklu smærri, persónulegri sögu, þar sem í þriðja sinn skín í gegn að leikstjórinn gerir einungis bíómyndir um persónur sem eru mjög útundan. Uppbyggingin á sögunni/handritinu er reyndar hálft gamanið. Myndin kippir mottunni reglulega undan manni og gefur oft ranghugmyndir um hvert hún stefnir áður en hún hleypur svo í allt aðra átt. Sumar fléttur eru fyrirsjáanlegri en aðrar, en í heildina séð gengur allt upp, alveg helvíti ánægjulega.

Í rauninni má líta á Looper sem tvær myndir (s.s. hasarmyndin í borginni og persónudramað á býlinu) sem eru stórglæsilega vafðar saman í eina. Johnson hugsar allt út. Meira að segja tilviljanir í sögunni eru úthugsaðar á dýpra leveli. Siðferðislegu spurningarnar sem vakna upp eru ákaflega hressandi og fílaði ég gjarnan hvernig Johnson sveiflar mann aðeins til út lengdina. Maður veit stundum aldrei hverjum á að halda með, sem er skemmtileg tilbreyting frá norminu – ekki síst í Bruce Willis-myndum. Eina stundina styður maður Joseph Gordon-Levitt. Svo Willis þá næstu. Svo víxlast það. Og víxlast.

Þegar leikararnir hafa alla yfirhöndina í mynd af þessari tegund er maður í nokkuð fínum málum. Joseph Gordon-Levitt mun ég aldrei hafa neitt slæmt um að segja. Drengurinn gefur sig allan fram í öllu sem hann tekur að sér og skarar alltaf fram úr. Hann er meiriháttar í Looper og algjör höfðingi fyrir að taka við þeirri áskorun að líkjast Bruce Willis eins mikið og hann gat með gervinefi og smá aukaförðun. Pínu súr sjón í fyrstu en maður venst þessu strax. Willis er í sínu besta formi hérna í mörg ár, a.m.k. hvað spennumyndir varða. Yfirleitt er hann þessi klassíska bíóstjarna en stöku sinnum kemur hann upp úr þurru með eitthvað bítandi. Þetta er besta hlutverkið hans í meira en fimm ár, jafnvel tíu.

Levitt og Willis eru ekki þeir einu sem halda þessu gangandi. Emily Blunt er hörkugóð sem hjarta og sál myndarinnar og allt leikarahlaðborðið sem tekur upp minni hlutverkin (t.d. Jeff Daniels, Piper Perabo, Noah Segan, Garret Dillahunt og Paul Dano) er alls ekkert síðra. Johnson hefur alltaf gætt sín á því að sóa ekki leikurum sínum (frekar en myndarömmunum), sama hve langur skjátíminn er og skellir hann alltaf litríkum og skemmtilegum karakterum í hvert horn. Krakkaleikarinn í myndinni er sá eini sem er frekar upp og niður. Þó meira upp en niður. Stíllinn er líka fullkominn, eitthvað svo einfaldur en töff, jarðbundinn og kuldalegur, frá kvikmyndatöku til tónlistar.

Hingað til hafa allar Johnson-myndirnar verið ansi spes blöndur, sem er í sjálfu sér ástæðan af hverju þær eru svona sérstæðar. Brick var film noir spæjarasaga sem hafði (snilldarlega) verið soðin saman við indí-unglingamynd. Bloom var nútíma gamaldags rómantísk-glæpa/gamanmynd og Looper er vísindaskáldsaga þar sem vísindin skipta litlu sem engu máli. Lítil saga með stórum hugmyndum í miklum heimi. Dáldið steikt, ekki satt? En kúl samt sem áður.

Looper er nokkrum skrefum frá því að vera meistaraverk í sínum geira en hún nær ekki alveg að komast á áfangastað sinn án þess að misstíga sig pínu. Ég sætti mig í staðinn við það að kalla þessa mynd hálfgerðan gullmola og eitt af því besta, skarpasta og frumlegasta sem mun sjást á öllu árinu. Hún kallar beint á það að maður kíki á hana oftar en einu sinni.

Ojæja, fyrst maður verður…


(9/10)