Bond frumsýningardagur staðfestur

Nýr frumsýningardagur hefur verið ákveðinn fyrir nýjustu James Bond kvikmyndina, No Time To Die, þá 25. í röðinni, en frumsýningu myndarinnar var frestað á sínum tíma vegna kórónuveirufaraldursins.

Gamla plakatið.

Teymið sem stendur á bakvið gerð kvikmyndarinnar tikynnti um frestunina í mars sl. og sagði þá að „eftir mikla umhugsun og ítarlegt mat á alþjóðlegum kvikmyndamarkaði, þá yrði frumsýningu NO TIME TO DIE frestað fram til nóvember 2020.“

Nú hefur formlegur frumsýningardegur verið tilkynntur, en hann er 12. nóvember í Bretlandi. Bandaríkjamenn verða hinsvegar að bíða fram til 20. nóvember. Samkvæmt vef SAM bíóanna verður myndin frumsýnd hér á landi þann tuttugasta nóvember einnig. Í myndinni mun Daniel Craig fara í síðasta skiptið með hlutverk hins slynga njósnara, James Bond.

Opinber reikningur James Bond og Twitter birti færslu um málið, með nýjum ljósmyndum úr myndinni, en þar segir: „Gamlir vinir snúa aftur í NO TIME TO DIE.“

Myndin gerist fimm árum eftir atburðina í síðustu James Bond kvikmynd, Spectre. Myndin hefst þar sem Bond er að slaka á í Jamaíka, eftir að hafa lagt byssuna á hilluna. En allt breytist þegar gamall vinur hans Felix Leiter frá bandarísku leyniþjónustunni CIA kemur og biður um aðstoð. Bond kemst nú á snoðir um ill áform dularfulls þorpara, sem býr yfir hættulegri nýrri tækni.