Vinsælast á Netflix á Íslandi – Mannshvörf og vinátta allsráðandi í miðju ástandi

Notkun Íslendinga á streymisveitunni Netflix hefur aukist stöðugt á undanförnum árum (og ekki síður undanfarna daga þegar sóttkví Íslendinga eykst með degi hverjum) og virðist vera nóg af framboði efnis sem hentar einum og hverjum.

Nýverið tók veitan upp á því að birta lista yfir tíu vinsælustu titla í hverju landi, en þar falla kvikmyndir, sjónvarpsþættir, heimildarmyndir og allt tilheyrandi undir sama hatt.

Listinn uppfærist daglega en að svo stöddu samanstendur hann af 10 eftirfarandi titlum sem eru heitastir á Íslandi í dag:

1. Lost Girls

Spennudramað Lost GIrls var frumsýnt á streyminu um helgina og segir frá konu sem leitar að týndri dóttur sinni. Konan fær hvorki aðstoð né áheyrn frá yfirvöldum og neyðist hún þá til að taka málin í eigin hendur. Myndin er byggð á samnefndri metsölubók og sönnum atburðum.

2. Spenser Confidential

Mark Wahlberg og Winston Duke fara með aðalhlutverkin í þessari hasargamanmynd frá leikstjóranum Peter Berg, en þeir Wahlberg hafa áður unnið saman að myndunum Lone Survivor, Deepwater Horizon, Patriots Day og Mile 22. Spenser Confidential er lauslega byggð á bókinni Wonderland eftir Ace Atkins og verkum Roberts B. Parker.

3. RuPaul’s Drag Race

„Ef þú elskar ekki sjálfan þig, hvernig ætlarðu að fara að því að elska einhvern annan?“ spyr skemmtikrafturinn RuPaul í lok hvers þáttar, en keppnisþættir dragdrottningarinnar hafa hægt og bítandi klifrað upp íslenska Netflix-listann. Það er af góðri ástæðu, enda stórskemmtilegt sjónvarp – og dramað er vægast sagt ávanabindandi.

4. Love is Blind

Raunveruleikaþátturinn Love is Blind hefur verið ákaflega umtalaður undanfarnar vikur og fara vinsældirnar hægt dvínandni. Áhorfendur hafa víða deilt um gæði þessarar seríu en grunnhugmyndin gengur út á mismunandi pör sem kynnast í sitthvoru, lokaða herberginu og ná tengingu áður en hulunni er svipt og þá tekur trúlofun við ásamt næstu skrefum í lífi þeirra para.

5. On My Block

Aðdáendur þáttarins On My Block urðu dátt gladdir með tilkomu þriðju seríunnar, sem lenti fyrr í marsmánuðinum. Segja þættirnir frá hópi fjögurra vina í Los Angeles og öllum tilheyrandi lægðum og hæðum sem fylgja menntaskólalífinu.

6. Paradise PD

Teiknimyndaþættir handa fullorðnum um glataðar löggur og groddaralegan fíflagang þeirra. Í síðustu viku gaf Netflix út aðra seríu og skaut það að sjálfsögðu seríunni rakleiðis á listann, enda dúndurhressir þættir.

7. Dirty Money

Önnur sería heimildaþáttanna Dirty Money birtist einnig á streyminu fyrr í þessum mánuði. Þættirnir koma úr smiðju hins virta Alex Gibney, sem gerði meðal annars garðinn frægan með heimildarmyndum sínum um Enron og Vísindakirkjuna (Going Clear). Fjallar Dirty Money í grunninn um alls kyns spillingu og peningasvik innan kapítalistaveldis.

8. Elite

Spænska táningadramað Elite hefur hlotið gífurlega sterkar viðtökur um allan heim og er því ekki óvenjulegt að þættirnir séu komnir að þriðju seríu. Elite hefur fengið sérstakt lof úr öllum áttum fyrir ferska nálgun á kynjapólitík, staðalmyndum og hefðbundnum táningaformúlum. Mælt er með.

9. Riverdale

Unglingaþættirnir Riverdale hafa notið mikilla vinsælda síðustu ár og eru seríurnar núna orðnar fjórar (og búið er að gefa grænt ljós á þá fimmtu). Hefur þáttunum verið líkt við eins konar unglingaútgáfu af Twin Peaks og Twilight Zone en þættirnir sækja sinn innblástur í hinar víðfrægu teiknimyndasögur um Archie Andrews og meðfylgjandi persónur í lífi hans.

10. Friends

Gamanþættirnir Friends hafa lengi vel notið hreint svakalegra vinsælda í gegnum árin og poppa þeir stöðugt annað slagið á áhorfslista sem þennan. Milljónir manna horfa á þættina – aftur og aftur – á hverjum einasta degi og hefur eitthvað verið í loftinu á Íslandi undanfarna daga sem hefur komið þáttunum inn á topp 10 listann. Ætli þetta sé nostalgían að tala eða eru Friends raunverulega þættir sem eldast eins vel og hörðustu aðdáendur vilja meina?