Húsavík og Já fólkið á stuttlista vegna Óskars

Lagið Húsa­vík úr kvik­mynd­inni Eurovisi­on Song Contest: The Story of Fire Saga er á stutt­lista fyr­ir til­nefn­ing­ar til Óskar­sverðlaun­anna, en tilkynningar verða opinberaðar 15. mars næstkomandi. Stuttlistinn umræddi var birtur í gær en þar kemur einnig fram stuttmyndin Já fólkið eftir Gísla Darra Halldórsson.

Já fólkið hefur vakið mikla athygli víða á undanförnum mánuðum og sópað til sín verðlaunum. Teiknimyndin var sýnd á RIFF í fyrra og hlaut þar viðurkenningu fyrir bestu íslensku stuttmyndina, auk þess að hafa hlotið verðlaun á Fredrikstad Animation Festival og verðlaun yngstu áhorfendanna (Children’s Choice Award) á Nordisk Panorama.

Þá vann hún einnig í flokki Bestu evrópskrar stuttmyndar á 3D Wire, en sú hátíð er haldin árlega á Spáni og er með þeim stærri í Evrópu þar sem áhersla er lögð á tölvuleiki, teiknimyndir og ýmiss konar nýmiðla. Dómnefndir hafa sérstaklega hrósað stíl, húmor og enduráhorfunargildi teiknimyndarinnar.

Sjá einnig: Teiknimynd Gísla sópar til sín verðlaunum: „Hugsa að South Park hafi eitthvað spilað inn í þetta“

Á stutt­list­an­um í flokki bestu upp­runa­legu tón­list­ar í kvik­mynd eru alls 15 lög en aka­demí­an hafði úr 105 lög­um að velja.

Sa­v­an Kotecha, Rickard Gör­ans­son og Fat Max Gsus eru höf­und­ar lags­ins Húsavík en lagið er flutt af Molly Sandén og leik­ar­an­um Will Fer­rell.