Rætt um Ráðherrann: „Þetta eru menn með mikil völd“

„Það eru pólitískir leiðtogar starfandi í dag sem ég er ekki sannfærður um að séu geðheilir en þetta eru menn með mikil völd. Ég get aðeins ímyndað mér hvernig það er að vinna fyrir stofnun með einhverjum sem virðir ekki reglurnar og er stjórnlaus, það getur verið bæði erfitt og stórhættulegt. Á marga vegu er þetta það sem við skoðum í þættinum.“

Þetta segir Ólafur Darri Ólafsson leikari í hópsamtali fyrir fréttamiðinn C21 Media, en á dögunum var þar rætt við teymið á bakvið þáttaröðina Ráðherrann sem sýnd verður á RÚV í haust. Ólafur Darri, sem fer með aðalhlutverkið, Nanna Kristín Magnúsdóttir annar leikstjóranna og Jónas Margeir Ingólfsson, einn handritshöfunda, ræða hugmyndirnar og þemun bakvið verkið, en auk þess eru sýnd brot úr þáttunum.

Ólafur Darri leikur Benedikt Ríkharðsson, háskólakennara sem er dreginn í pólitík og endar sem formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins og forsætisráðherra. Eftir nokkra mánuði í starfi fer hann að verða var við geðhvörf sem fara að herja stöðugt meira á hann.

Ráðherrann er pólitísk dramasería sem er þó sögð fjalla meira um einstaklingana og sögu þeirra heldur en pólitíkina sjálfa. Þættirnir verða sýndir á RÚV í haust og sitja þau Nanna Kristín Magnúsdóttir og Arnór Pálmi Arnarsson sem leikstjórar við stjórnvölinn.

Tökur á þáttunum fóru fram sumarið 2019. Björg Magnúsdóttir, Birkir Blær Ingólfsson og Jónas Margeir Ingólfsson skrifa handrit ásamt Jóhanni Ævari Grímssyni sem kom inn í teymið síðar í ferlinu. Á meðal aukaleikara eru Aníta Briem, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Jóhann Sigurðarson og Þorvaldur Davíð Kristjánsson.