Þetta segja Íslendingar um Jarðarförina mína: „Hver var að skera lauk?“

Nýverið var frumsýnd glæný íslensk þáttaröð með Ladda í aðalhlutverki, en þar leikur hann (heldur óvinsælan) mann sem greinist með ólæknandi heilaæxli sama dag og hann kemst á eftirlaun. Hann hefur eytt síðustu áratugunum í tilgangslausa rútínu, fjarlægst fjölskyldu sína og ekki lifað lífinu sem skildi. Þá ákveður hann að bæta upp fyrir tapaðan tíma með því að halda sína eigin jarðarför og vera sjálfur viðstaddur.

Þættirnir eru byggðir á hugmynd Jóns Gunnars Geirdals og koma þau Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, Baldvin Z, Sóli Hólm og fleiri að handritsgerð seríunnar. Þættirnir eru sex talsins og eru aðgengilegir á Sjónvarpi Símans Premium. Á páskadag fengu þó áskrifendur Stöðvar 2 smá glaðning þegar fyrsti þátturinn var sýndur í opinni dagskrá.

Vetrar­sól­hvörf í lífi leiðin­legs manns

Eins og gengur og gerist voru margir Íslendingar duglegir að rita skoðanir sínar á þáttunum. Viðbrögð hafa í heildina séð verið jákvæð. Í dómi Fréttablaðsins líkir höfundur Ladda við persónu Ingvars Sigurðssonar í Hvítum, hvítum degi og titilpersónuna í sögunni Maður sem heitir Ove. Segir í dómnum að þættirnir sneiði hjá öllum klisjugildrum og sé útkoman hjartnæm og falleg, laus við alla tilgerð.

„Jarðarförin mín dregur merkilega dám af aðalleikaranum og er bara svolítill Laddi. Fyndin á yfirborðinu en undir niðri leynist tregi. Virkilega vel gerðir, notalegir og skemmtilegir þættir þar sem harmur og grín vega hárfínt salt þannig að útkoman er eiginlega bara ógeðslega krúttleg,“ segir í dómnum.

„Spái vexti í jarðarförum fyrir dánardag“

Hér að neðan má sjá brot af umræðu áhorfenda á Twitter síðustu daga.