Eddunni frestað vegna kórónaveirunnar

Íslenska kvikmynda- og sjónvarpsakademían (ÍKSA) hefur ákveðið að fresta Edduverðlaununum vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar, en athöfnin átti að fara fram þann 20. mars næstkomandi.

Stjórn ÍKSA sendi út tilkynningu til allra sem eru hluti af nefndinni. Vefurinn Klapptré greinir meðal annars frá þessu. Í tilkynningunni segir:

„Því miður hafa mál þróast með þeim hætti að ekki þykir stætt á því að halda mannfagnað á borð við Edduhátíðina á meðan að kórónavírusinn ógnar samfélaginu.

Það er samdóma álit og niðurstaða þeirra sem stýra hátíðinni að henni beri að fresta um óákveðinn tíma uns hlutir hafa skýrst og telja má víst að slík hátíðahöld geti gengið upp á ábyrgan hátt. Edduhátíðinni 2020 verður því frestað um óákveðinn tíma.

Við höldum samt áfram þangað til við vitum meira.“

Tilnefningar til verðlaunanna voru tilkynntar á dögunum, en listann má finna í heild sinni hér.